Armbönd og úr það heitasta í dag

Silfurarmband

Silfurarmband

„Armbönd eru vinsæl um þessar mundir. Konur á öllum aldri vilja leðurarmbönd með Swarovski steinum. Þau eru sérlega vinsæl og til í ýmsum litum, en ætli svörtu, rauðu og brúnu seljist ekki hvað best. Margir kaupa nokkur og blanda saman mismunandi litum,“ segir Erla Lúðvíksdóttir, hjá Úra og skratgripaverslun Jóns og Óskars á Laugavegi. Sú kona veit ansi margt um skartgripi enda hefur hún sýslað með gull og gersemar síðustu misseri.

Erla segir að það sé ekki bara leðrið sem sé vinsælt því silfurarmbönd séu líka mikið í tísku, bæði gróf og fínleg.

„Svo er það rósagullið sem er koparlitað. Það er notað til að húða skartgripi og vinsældir þess fara ört vaxandi. Það er til dæmis mikið notað í hálsmen, bæði stór og smá,“ segir Erla og bætir við að vinsældir rósagullsins megi sjálfsagt rekja til þess að ekta gull sé dýrt og hafi verið frá hruni.

Úr úr rósagulli

Úr úr rósagulli

En hver man ekki þá tíma þegar allir gengu með úr, fermingarbörn fyrir 40 til 50 árum fengu undantekningarlaust úr að gjöf. Þegar gemsar urðu almenningseign duttu úr úr tísku, fólk kíkti bara á klukkuna í símanun sínum. Úrin hafa hins vegar fengið uppreisn æru og eru orðin hátískuvara aftur.

„Úrin koma mikið í rósagulli. Fólk á gjarnan nokkur úr til skiptana notar einfaldari gerðir dags daglega en úr með fallegum steinum eru gjarnan notuð til spari,“ segir Erla en bætir við að þó að þetta séu helstu „trendin“ í dag þá kaupi fólk gjarnana vandaða skartgripi sem það ætlar að eiga árum og áratugum saman. „Þá velur fólk sér gjarnan klassíska gripi,“ segir hún.

Ritstjórn nóvember 4, 2014 12:44