Margrét Ákadóttir leikkona, listmeðferðarfræðingur og kennari tekur enn að sér verkefni sé hún beðin um það en þess utan nýtur hún lífsins. Margrét er víðlesin og telur alla þurfa að fá góðan vitsmunalegan grunn að byggja á áður en haldið er út í lífið. Hún var alin upp í sósíalisma og hefur enn trú á að hægt sé að koma á réttlátu samfélagi og skapa öllum viðunandi vettvang til að blómstra.
Því hefur verið hvíslað að Margrét leiki í seríu númer tvö af Ráðherranum sem væntanleg er í sjónvarpinu í haust og hún var stórkostleg leikritinu Ein komst undan eftir Caryl Churchill. Þar má kannski segja að hún hafi verið á heimavelli vegna þess að völd og tortíming af völdum misvitra valdhafa eru þar til umfjöllunar og hún hefur ætíð haft áhuga á þjóðfélagsmálum. En er hún alveg hætt að vinna?
„Ég er að kenna íslensku og starfa sem leikkona. Ég var í sjónvarpi í vetur og á leiksviði. Ég sækist ekki beint eftir verkefnum en ef einhverjir vilja hafa mig með þá er ég til. Ég var hins vegar síðast í föstu starfi á leikskólanum Aðalþingi. Ég lauk kennsluréttindanámi af leikskólakennarastigi líka. Ég er einnig með meistaragráðu í dramatherapy eða listmeðferð en var auðvitað ekki með börnin í meðferð í þeim skilningi orðsins þegar farið er í gegnum ákveðið ferli með leyfi og öðru slíku en ég notaði aðferðafræðina. Ég starfaði þarna hjá Doktor Guðrúnu Öldu og starfið þar var framúrskarandi og við fengum menntaverðlaunin fyrir.“
Máltaka og félagsfærni lykilatriði
„Mín sérgrein er máltaka eða speech acquisition og félagsleg færni,“ bætir hún við. „Í gegnum málið og máltöku skerðist oft félagsfærnin og börn geta átt mjög erfitt ef eitthvað kemur upp á hjá þeim á því stigi. Þarna er ég líka að tala um börn af erlendum uppruna. Félagsfærnin er auðvitað það sem við erum að glíma við alla ævi og ef við förum ekki í gegnum þetta táknræna hlið þar sem við sættumst við umhverfi okkar, fólkið og verurnar sem eru í því með einhverjum hætti, meðal annars með því að tala og tjá okkur við þá sem eru innan þess, getum við átt í erfiðleikum ansi lengi. Mín hugleiðing er sú að ef við grípum börnin nógu snemma, áður en þau komast á grunnskólastigið, gæti það afstýrt mörgu. Ekki er langt síðan að verið var að tala um skapandi hugsun, að börnin okkar hafi ekki komið vel út úr PISA-könnun. Mín hugsun er sú að þjálfa þurfi börn í að vera lausnamiðuð. Þótt þeim líki ekki við einhvern eða jafnvel þótt á þau sé ráðist að þau kunni að leysa úr því og börn séu gripin ráði þau ekki við aðstæður sjálf og það verði lærdómsferli og ánægjuleg upplifun sem þau ítrekað upplifa.“
Margrét hefur einnig reynslu af að vinna með einstaklingum sem glíma við skerðingar. Sonur hennar fæddist fyrir tímann og þurfti að berjast fyrir lífi sínu. Hún hóf að læra listmeðferð vegna hans en einnig þegar hún upplifði í starfi sínu að hafa náð til fatlaðrar stúlku með takföstum hljóðum. Þetta varð til þess að Margrét gerði sér ljóst að engin ein aðferð dugar í samskiptum við alla og að menn þurfa alltaf að vera skapandi í því hvernig þeir nálgast aðra.
„Já, það er mjög erfitt oft á tíðum,“ segir hún. „Í listinni köllum við það að komast í næði til að skapa. Þessi hefðbundna skólastofa var fundin upp á nítjándu öld og það er engin vísindaleg kenning að baki uppröðun skólastofunnar eins og hún er enn þann dag í dag. Þetta er óskaplega þungt í vöfum og erfitt. Þung húsgögn, hönnuð af fólki sem telur að þetta húsgagn verði aldrei hreyft úr stað. Hugmyndin er sú að þegar þú ert komin inn í skólastofuna þá sé hún þitt rými og vinnan fer í að tengja þá sem þar eru saman. Japanir eyða fyrstu árunum í kenna börnum að umgangast hvert annað og annað fólk af virðingu og með viðurkenningu og eru ekki að leggja á þau stórar kvaðir hvað varðar að þekkinguna eða í það minnsta ekki að prófa þekkinguna. Áherslan er meiri á skilninginn. Hann er það sem hefur oft orðið útundan í nítjándu aldar skólanum. Við erum enn að verðlauna fólk sem er tilbúið að setjast niður og vera þægilegt og rugga ekki bátnum. Fólkið sem kennarar elska.
En þetta er ekki endilega fólkið sem þarf til að bjarga heiminum. Það hefur ekki alltaf sömu tengingu við skilninginn en hann er svo ofsalega mikilvægur. Hann er miklu stærra atriði en þekkingin. Einstein hefur meira að segja tekið undir þetta. Við leikarar getum lært margar blaðsíður af efni en það stækkar ekki heilann. Vísindakenningar sýna fram á að við erum með minnisrými og auðvitað þurfum við að reiða okkur á minnið en það er ekki allt. Það var svolítið gaman af því að í forsetakosningunum voru lagðar spurningar tengdar íslenskri sögu fyrir forsetaframbjóðendur. Einn þeirra leysti mjög vel úr þessu en það er ekki þar með sagt að hann hafi víðtæka og góða hugvísinda menntun til skilnings. Þetta er þessi samviskulærdómur, fólk þylur upp, hvað heitir þetta fjall? Þetta fjall heitir Esja og það er svona hátt en þessar staðreyndir gera ekkert fyrir okkur í einrúmi, þar nærumst við á því að hugsa og ígrunda til skilnings. Þetta þótti svo eftirsóknarvert að geta þulið upp staðreyndir, nöfn á stöðum en eins og leikarar hafa sýnt fram á getum við öll lært utan að ef við einsetjum okkur það á mjög stuttum tíma. Til þess þarf bara einbeitingu og næði.“
Dæmdur svikari við málstaðinn
Í fyrra kom út ævisaga þín Sólgeislar og skuggabrekkur skrifuð af Svölu Arnardóttur. Þar er komið inn á sögu fjölskyldu þinnar. Pabbi þinn, Áki Jakobsson, var stimplaður svikari vegna þess að hann gekk úr Sósíalistaflokknum og í Alþýðuflokkinn. Óvægnin var mikil og fólk tilbúið að dæma hann þótt hans hugmyndafræði hafi fyrst og fremst snúist um að ekki væri hægt að ná fram réttlæti í samfélaginu með harðlínutrú á einhverjar kenningar, ekki hvika frá þeim og líða ofbeldi og morð. Þar er lýst á áhrifamikinn hátt atviki þegar þú varst í sveit sem barn og vinnukona á staðnum spyr hvort Áki sé ekki pabbi þinn. Þegar þú játar því hreytir hún í þig að hann sé svikari og það verður þér mikið áfall. Nú á dögum er umræðan um stjórnmálafólk oft harðorð og andstyggileg og fer fram á mjög mörgum opinberum stöðum. Heldur þú að umræðan sé verri nú en hún var?
„Ég held að umræðan hafi verið að vissu leyti óvægnari þá en nú,“ segir hún. „Menn tóku stórt upp í sig. Pabbi var sjálfur víttur bæði í menntaskóla og á þingi fyrir stóryrði. Hann var ekki barnanna bestur, eins og hann sagði sjálfur. Það sem hann áttaði sig ekki á var hversu einstrengingsleg flokkslínan var. Þrátt fyrir þá reynslu sem við fengum af seinni heimstyrjöldinni og þá þekkingu sem var aðgengileg þeim sem lásu mikið. Pabbi var lestrarhestur. Hann heldur að Einar Olgeirsson og Brynjólfur Brynjólfsson séu svo vel upplýstir að þeir séu tilbúnir að skoða að fyrirmyndargildi sé ekki lengur hægt að sækja til Sovíetríkjanna.
Leyniræða Krútsejefs um Stalín er ekki gefin út fyrr en 1956 hér á Íslandi en sögur voru farnar að leka út miklu fyrr. Hún var þýdd á íslensku og pabbi skrifaði formálann að útgáfunni en fólk var ekkert að lesa þetta eða velta því fyrir sér. Ræðan fjallar um skelfileg morð og ofbeldi sem beitt var í byltingunni og á Stalínstímanum. Ég kem inn á í bókinni það sem pabbi segir um að þú getur ekki komið á réttlæti með ofbeldi. Þegar þú ert búinn að drepa fjölskyldur eftirlifenda er vart hægt að tala um réttlæti. Þetta eru slíkar andstæður og svo út í hött. Þegar þetta lá fyrir og fólk vissi það var mál að sækja sér meiri innri styrk og vera ekki sækja til Sovíetríkjanna en Einar gerði það alla tíð. Hann hafði samband þangað sjálfur, ungur maður, til að sækja leiðbeiningar um hvernig hann ætti að haga sér í tengslum við stofnun kommúnistaflokks. Pabbi vildi hins vegar að við formuðum okkar eigin hugmyndir um hvernig við ætluðum að koma á jafnrétti.
Ég veit ekki hvort pabbi áttaði sig á því á sínum tíma að Ísland í dag er birtingamynd þess sem var. Við eigum í samfélaginu mikið af fátæku fólki með peninga. Fólki sem fær ekki nóg af peningum vegna þess að fátæktin er það mikil. Skortseinkennin eru svo rík í erfðaefninu. Við vitum núna að ef langamma og langafi, amma og afi, pabbi og mamma hafa lifað í skorti eru allar líkur á að það búi um sig í erfðaefninu. Þú ferð á mis við mikilvæg vítamín og næringarefni fyrir svo utan að umhverfið í fátækt er skelfilegt félagslega. Því fylgja alls konar frávik, ofbeldi og trauma og það erfist eins og við vitum í dag. Þetta er eitthvert hryllilegt birtingarform þetta ójafnvægi sem hefur skapast hér í samfélaginu og við sjáum það best í Bandaríkjunum þar sem þeir hafa ekki einu sinni séð til þess fólk líði ekki í skorti. Maður veltir oft fyrir sér hvernig stjórnmálamaður sem maður telur að hafi góða greind og menntun geti lifað með sjálfum sér vitandi af svona skelfingu í umhverfi sínu og hann kemur jafnvel þaðan sjálfur. Hatrið gagnvart fátækt og því sem þú hefur upplifað tekur þú með þér út í lífið ef þú vinnur ekki í sjálfum þér. Svo ertu kominn í forystu og ert ekki með gegnheila, umvefjandi hugsun gagnvart samfélaginu sem þú ert þó að gefa kost á þér til að vinna fyrir. Þú lætur þig ekki raunverulega varða kjör annarra.“
Lifnar ekki við í frumstæðu samfélagi
Margrét vísar einnig til fyrri tíma hér á landi þegar grimmdin gegn lítilmagnanum var ótrúleg og yfirgangur yfirvalda nokkuð sem okkur, hugsanlega afkomendum þessa fólks, hryllir við. Þá hafi óttinn við að missa sjálfur allt, verða vergangsmanneskja stjórnað gerðum manna en það er ekki langt síðan svipaðir atburðir lituðu mannlífið hér. Í hruninu misstu margir allt sitt en um það er aldrei talað þvert á móti er Ísland sagt hafa komið vel út úr efnahagsþrengingunum. Margrét missti heimili sitt í þeim aðförum og mátti reyna að vilyrði og loforð bankamanna voru miskunnarlaust svikin.
„Þú lifnar ekki við þegar þú lifir í frumstæðu samfélagi, þá hugsar þú bara um að redda þér,“ segir hún. „Ég heyrði að um 15000 fjölskyldur hafi misst heimili sín og enginn veit hverjar afleiðingar alls þessa voru og eru. Það voru sjálfsmorð, skilnaðir og afleiðingar sem komu niður á börnunum. Það hefur sjálfsagt framkvæmt alvarlegan kvíða sem er að koma fram núna. Við erum lítið samfélag og við virðumst alltaf fara í sama farið og fólkið finnur fyrir einhverju fölsku öryggi. Þegar eitthvað líkt hruninu gerist í eðlilegu og þróuðu samfélagi hefðum við gert þetta upp. Nokkrir þeirra er stóðu að þessu voru dæmdir og fóru í fangelsi en fjármunir voru ekki teknir af þeim eða rétturinn til að sýsla með það fé sem þeir höfðu tekið sér. Fólk talaði um þetta og hló að því. Það sem meira er, er að búið er að innsigla rannsóknargögnin. Rannsóknarskýrsla heimilanna hefur ekki séð dagsins ljós. Þetta er gert til að koma í veg fyrir einhverjar afleiðingar.
Röksemdirnar eru þær að þá verði svo mikil röskun í samfélaginu að það eitt muni verða því að falli. Það einkennir okkar frumstæða samfélag að ekki eru gerðar kröfur um að þú hafir menntun til að hafa völd. En hugmyndirnar koma til þeirra sem hafa undirbúið hugann. Og hvernig er það gert? Með lestri, námi og öflun þekkingar. Ef manneskja kemur ekki úr þannig umhverfi að hvatt sé til menntunar eru ekki miklar líkur á að hún taki upp á því sjálf að afla sér hennar. Við eigum líka óskaplega erfitt með að taka gagnrýni en samt mælumst við þriðja hamingjusamasta þjóð í heimi en eigum met í notkun geðlyfja. Það er eins og fólk eigi erfitt með að viðurkenna fyrir sjálfu sér, jafnvel í könnun sem þú ert að taka þátt í nafnlaust, að eitthvað skorti á vellíðunina.“
Börn vakin í gegnum ígrundandi samtöl
Þegar þú varst ung kona varstu leitandi og það kemur vel fram í ævisögunni að þú hefur hugrekki ekki bara til að reyna hlutina heldur einnig snúa baki við þeim þegar þeir reynast ekki það sem þú varst að leita eftir og gefur þér rúm til þess. Hér á landi er oft gerð krafa um beina stefnu, að krakkar velji leiðina sína ung og haldi síðan beinni stefnu.
„Þegar ég fer í gegnum mitt nám í dramatherapy fer maður sjálfur í gegnum meðferð og svo fer maður í klínískt nám líka. Maður rak sig þar á margt í eigin ranni sem maður þurfti að vinna með. Stór þáttur í þeirri vinnu var auðvitað þessi valdamikla fjölskylda mín og maður þurfti að skoða þennan tvískinnung, að vera annars vegar forréttindamanneskja og hins vegar byggir maður gildi sín á að berjast fyrir réttlæti og jafnrétti öllum til handa. Í vissum skilningi var maður klofinn í herðar niður í uppeldinu. Ég var mjög viðkvæmt barn, tók hluti óskaplega nærri mér, var bæði spurul og erfið. Ég var yngst og komst þess vegna í ákveðið skjól og kannski var dekrað við mann. Allt varð þetta mér ekki auðvelt á þessum árum. Ég var óskaplega leitandi og vissi ekki hvert ég ætlaði að fara.
Ég vil þakka foreldrum mínum og mömmu sérstaklega fyrir að ég fékk tíma til ígrundunar. Ég gat rætt mikið við pabba líka. Þau vildu auðvitað að börnin þeirra stæðu sig en það var ekki nein pressa á að allir færu í lögfræði. Pabbi talaði líka um mikilvægi allrar listsköpunar og bar mikla virðingu fyrir slíku. Ég er alin upp við mun stærri hugsun varðandi lífsveginn og að fólk eigi að næra sig, mennta og hugsa. Að þú takir þér tíma til að ígrunda. Ef manni varð á var komið með Sókratískar spurninar á borð við; hvað ertu að hugsa? Hvert ertu að stefna? Þar með fékk maður þjálfun í að hugsa um það og hætti að verða hræddur þótt maður væri pínulítið ruglaður. Þótt maður tæki helling af vitlausum ákvörðunum var það ekki hættulegt því þú varst í þannig umhverfi. Það var verið að tala við mann sem vitsmunaveru og barn þarf að vekja vitsmunlega. Ef þú ert ekki vakinn í gegnum ígrundandi samtöl við foreldra þína eða þá sem ala þig upp getur þú farið ansi langt í lífinu án þess að vakna,“ segir hún að lokum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.