Frumkvöðull á sviði listmeðferðar og myndlistar – listin læknar

Skömmu fyrir jól kom út afar merkileg bók eftir þau mæðgin Ágústu Oddsdóttur, kennara og myndlistarkonu og Egil Sæbjörnsson myndlistarmann, Art Can Heal. Hún er um ævi og störf Sigríðar Björnsdóttur, listmeðferðarfræðings og myndlistarmanns. König Books gefur bókina út en það er stór listaverkaútgáfa sem rekur listaverkabúðir um allan heim og því heiður að fá bókina gefna út þar. Hans Ulrich Obrist, sýningarstjóri sem velflestir í listheiminum þekkja til, tók viðtöl í bókinni og ritstjóri var Abigail Ley, barnalæknir og listfræðingur.

Sigríður er ein af frumkvöðlum á heimsvísu í listmeðferð (art therapy) en í bókinni er rakið merkilegt starf hennar, framlag til myndlistar og listmeðferðar og sýn hennar á myndlist sem uppbyggjandi og læknandi afl. Sýn Sigríðar var nýstárleg og byltingarkennd en í dag, mörgum árum síðar, má segja að hennar nálgun sé notuð af þó nokkrum listamönnum, auk þess sem listmeðferð hefur öðlast sess um allan heim.

Hugtakið art therapy eða listmeðferð var ekki til þegar Sigríður Björnsdóttir útskrifaðist úr MHÍ sem listmálari og myndmenntakennari 1952. Sú hugsun sótti þá fast að henni að það yrði að gefa börnum á sjúkrahúsum tækifæri í myndlist jafnt á við heilbrigð börn. Hún beið ekki boðanna heldur skrifaði heilbrigðisráðherra Breta bréf og skömmu síðar var hún komin á barnaspítala í London til að vinna með börnunum með myndlist. Síðar vann hún með börnum á geðsjúkrahúsi og loks með föngum, fötluðum og fullorðnum eftir að hún flutti heim. Sigríður segist sjálf hafa haft trú á þeirri nálgun, að ef börnunum væri gefið tækifæri til að vinna frjálst og ótruflað að eigin myndsköpun þá gæti það búið til farveg fyrir þau til að tjá sig persónulega, vinna með tilfinningar sínar og líðan þeirra.

„Á barnaspítalanum í London byrjaði hún að gera sínar eigin tilraunir og þróa sína aðferð,segir Ágústa Oddsdóttir. „Hún fékk svo árssamning á Maudsley-barnageðspítalanum 1955 og fór til Kaupmannahafnar 1956. Sigríður hóf störf á nýstofnaðri barnadeild Landspítalans 1957 og var yfir skapandi meðferð, eins og hún kallaði starfið sitt. Hún var brautryðjandi í að móta aðferð sem rúmlega 20 árum síðar fékk á Íslandi fagheitið listmeðferð (art therapy). Þetta fag byrjaði að skjóta rótum í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar og rétt fyrir 1960 og er sagt frá nokkrum brautryðjendum í bók Águstu og Egils, Art Can Heal. Í Kaupmannahöfn hafði hún kynnst svissneskþýska listamanninum Dieter Roth, þau giftust, fluttust til Reykjavíkur og eignuðust þrjú börn en hún átti eina dóttur fyrir.

Hugtakið art therapy var ekki til þegar Sigríður útskrifaðist árið 1952.

Vel tekið alls staðar

Starfi Sgríðar var mjög vel tekið alls staðar þar sem hún kynnti það, sem er alls ekki sjálfgefið þegar um frumkvöðlastarf er að ræða, það segir sína sögu um hverju aðferðin skilaði. Læknar sáu að börnunum leið betur og tóku betur meðferð, munurinn var áþreifanlegur. „Starfsfólkið sá þetta og yfirlæknirinn á barnadeild Landspítalans gerði allt til að auðvelda henni starfið þegar hún starfaði þar. Gildi artþerapíu sést í afrakstri í myndum, líðan og upplifunum, ég hef sjálf reynt það á eigin skinni,segir Ágústa.

Lítið kver sem varð að stórri bó

Aðspurð hver kveikjan að bókinni hafi verið segir Ágústa að þegar hún var í námi í myndmenntadeild Kennaraháskóla Íslands og átti að lýsa markmiðum með myndlistarkennslu hafi hún kosið að fara til Sigríðar. „Samstarf okkar hófst þegar ég skrifaði ritgerð um markmið í myndlistarkennslu í grunnskóla barnadeildar Landakotsspítala árið 1992. Sigríður kvaðst byrja hvern skóladag með myndlistartíma þar sem börnin fengu tækifæri og efnivið til að tjá sig persónulega við að búa til mynd. Þá voru börnin opnari og tilbúnari að takast á við bóklega námið á eftir. Þegar börnin höu valið sér efnivið til að vinna með unnu þau sleitulaust við mynd sína í 40 mínútur. Sigríður settist hjá þeim til skiptis og ræddi við þau um mynd þeirra. Hún hrósaði hvorki né notaði lýsingarorð. Þegar ég sá hvað nemendurnir voru ánægðir og virkir og andrúmsloftið í skólastofunni gott og hvetjandi, spurði ég Sigríði hvort ég mætti skrifa lítið kver um kennsluna. Sú heimildavinna varð síðar að bókinni Art Can Heal, sem er um kennslu hennar en að stærstum hluta um brautryðjendastarf í listmeðferð bæði á Íslandi og víða um heim. Aðalkveikjan að Art Can Heal eru þó þessir töfrar sem ég varð fyrir í listmeðferðinni hjá henni. Ég vildi koma þeirri reynslu einhvern veginn áfram út í heiminn. Egill hafði farið í nokkra tíma sem unglingur til Sigríðar og kom svo inn í verkefnið fyrir um 12 árum. Honum fannst þetta mjög áhugavert og beindi sjónum sínum að byrjuninni þegar art-þerapía var ekki til.

Frumherji með nýja sýn

Aðspurður um gildi listmeðferðar og hvaða sess Sigríður hafi sem listamaður segir Egill Sigríður hafi fundið rými innan listarinnar með áherslu á gildi sem eru ekki fyrir kapítalíska sérfræðingastétt listheimsins, heldur fyrir einstaklinginn sjálfan. „Flestir líta á Sigríði sem listþerapista en ég kýs að sjá starf hennar í heild sem myndlist. Það sem hún gerði á 6. áratugnum var ekki skilið sem myndlist á þeim tíma, samtíminn hafði ekki þroskast nægilega til þess. Stundum tekur tíma fyrir heiminn að þroskast til að skilja frumkvöðlastarf. Þannig var það í tilfelli Marcel Duchamp, föður konseptlistar, en verk hans frá um 1910 mættu ekki skilningi fyrr en upp úr 1960.

Ágústa segir að listmeðferð virki miklu dýpra en samtalið, hún hafi reynt það á eigin skinni.  „Nú er komin áratugareynsla á það hvernig listþerapía getur hjálpað fólki og í bókinni eru mörg dæmi um hvernig börn, unglingar og fullorðið fólk vann með tilfinningar sínar og hugsanir í listmeðferð. Myndin speglar tilfinningar, þótt þú vitir ekki alveg hvað þú ert að gera. Ég var nokkur ár í listmeðferð hjá Sigríði og má segja að sú reynsla hafi gerbreytt lífi mínu. Ég skráði mig á námskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík, sagði síðan starfi mínu lausu og hóf fullt nám í myndlist og útskrifaðist frá MHÍ 1997. Ég hafði starfað á bóklegu sviði; lauk BA-prófi í félagsfræði og ensku frá HÍ og kenndi félagsfræði í framhaldsskólum lengi.

Í lok bókarinnar koma fram skoðanir Sigríðar á notkun netmiðla en hún byrjaði að tala um hana eftir 1980, þá hitti hún lækna og fagfólk sem sá erfiðleika sem tengdust tölvunotkun hjá börnum. „Hún sá breytingu myndrænt hjá börnum sem notuðu mikið tölvur og tölvuleiki. Þau gerðu sig gjarnan litil, myndir þeirra voru ópersónulegar og sýndu minni tengingu inn á við. Leikur og leiktjánig er að mati Sigríðar mikilvægt atriði í þroska barna og að þau fái tækifæri til að takast á við lífið í gegnum leikinn.

Aðferðir Sigríðar voru algjör nýung og báru árangur.

Aðferðir til sjálfsstyrkingar sem Sigríður uppgötvaði og þróaði

Egill segir að þegar horft er á listamenn í dag sem vinna með myndlist til sjálfsstyrkingar og til að styrkja aðra megi sjá að aðferðir þeirra eru svipaðar og þær sem Sigríður byrjaði að þróa 1952. „Það er svo ótrúlegt að horfa á hvernig Sigríður fetar þennan stíg upp á eigin spýtur. Hún var að vinna á sviði kennslu, sem svo þróist í artþerapíu, en í raun var þetta allt út frá myndlist. Ég er búinn að ræða þetta heilmikið við Siggu og hún tekur undir og staðfestir þetta. Verk sem barn gerir á sjúkrastofu mun ekki seljast fyrir margar milljónir í galleríi en það getur haft grundvallaráhrif á heilsu og líðan barnsins, ekki bara skömmu eftir að verkið er gert, heldur til framtíðar. Slíkur getur styrkur myndlistar verið og Sigríður uppgötvaði þetta og þrói. Hún vann innan rýmis sem þótti ekki fínt í listheiminum, hver hafði áhuga á veikum börnum á sjúkrastofum þegar listheimurinn snérist meira um að gera flott verk til að sýna í galleríum og söfnum? Hún þróaði með eigin innsýn í eðli listarinnar leið til að vinna með styrk listarinnar á þann hátt sem listamenn, sýningarstjórar og listfræðingar sýndu lítinn áhuga. Þegar ég spurði hana nánar hvaðan þessi djúpi skilningur á listinni kæmi sagðist hún vita það því þegar hún var lítil þá átti hún sér aukasjálf sem var „Sigga í spýtunum, Sigga í grasinu og Sigga í forinni. Hún fékk að leika sér frjáls sem barn og mundi hvernig leikurinn með þessi efni færðu henni styrk og aukna sjálfsmeðvitund. Enda er hún gífurlega sterk kona sem ferðaðist síðar víða um heiminn til að kynna aðferðir sínar.

Egill segir að Sigríður hafi fundið og unnið með þetta fíngerða rými innan myndlistar, sem  væri um leið algjört grunnafl mennskrar tilveru. „ Svo má líka segja að hún hafi afvopnað „snillinganaog „sérfræðinga myndlistarmeð allri þeirri mýkt sem starfi hennar fylgdi og án þess að hafa nokkurn tíma sett neitt út á hinn staðlaða listheim, þvert á móti, hún tók þátt í honum með sýningum. Nálgun hennar á listina var kannski ekki algerlega meðvituð en allar ákvarðanir hennar og einurð hennar í starfi vísa til þessa þegar litið er til baka. Sigríður er því frumkvöðull á sviði myndlistar auk þess að vera frumkvöðull á sviði art therapy. Og hvorutveggja er á heimsmælikvarða.

Egill hringir í mömmu sína til að ræða bókina.

Framlag Sigríðar er mikið 

Egill segir þetta ástæðu þess að þau Ágústa séu að reyna að setja saman sýningu um starf Sigríðar með því að stilla vinnu hennar upp með virtum nútímalistamönnum á borð við Kiri Dalena og Jeppe Hein sem einmitt vinna með list í þessu viðkvæma persónulega rými sem enginn annar var að vinna með 1952 þegar Sigríður byrjar sinn feril.

„Egill hefur talað mikið um þetta, hann veit hvesu þýðingarmikið þetta er. Þannig að framlag Sigríðar er mikið,segir Ágústa. Hún segir að listmeðferð sé gagnleg fyrir alla, ekki bara þá sem eru á sjúkrahúsum eða stofnunum. „Fólk getur til dæmis nýtt sér listmeðferð til að skýra tilfinningar sínar og hugsanir og styrkja þannig sjálfsvitund sína og samskipti við aðra. Sigríður bjó til verkleg námskeið á Ári fatlaðra 1981 þar sem hún bauð fötluðum og ófötluðum börnum og ungmennum að vinna saman á jafnréttisgrundvelli og sagði um árangur þessara námskeiða sinna:

„Með samskiptunum og reynslunni sem ég fékk með fötluðu fólki í verklegu námskeiðunum mínum hef ég styrkst í trú minni á gildi þess og þörfina fyrir að fólk deili og skiptist á tilfinningum og tengslum með hvert öðru. Í tæknivæddum og neyslumiklum nútímanum eru þessi samskipti mjög vanrækt. Við lærum af því að þróa samskipti við þá sem eru fatlaðir og þá vex ný von fyrir okkur öll í samfélaginu.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.
Ritstjórn janúar 26, 2024 07:00