Guðrún Óla Jónsdóttir var sísyngjandi þegar hún var barn og tók gjarnan hástöfum undir með Whitney Houston í útvarpinu. Hún hafði hins vegar aldrei mikla trú á sjálfri sér en þegar hana dreymdi gamlan skólabróður, þá nýlátinn, hæfileikaríkan tónlistarmann sem sagði henni að gefast aldrei upp á draumum sínum ákvað hún að láta á þetta reyna. Nú er Guðrún Óla, eða Gógó eins og hún er alltaf kölluð, nýorðin fimmtug og fyrirhugaðir eru tónleikar þar sem hún leyfir raddböndunum að njóta sín og flytur lög úr ýmsum áttum; bæði sem heilluðu hana í æsku og nýrri lög sem eru í uppáhaldi hjá henni.
Gógó er lærður kennari og með meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku og hefur mest starfað við blaðamennsku. Hún hefur einstaklega notalega nærveru en það gerir það að verkum að fólk slakar á í návist hennar og ótalmargir sagt henni eitthvað sem þeir höfðu jafnvel aldrei rætt áður. En hvenær kviknaði áhuginn á söng? Hefur þú kannski alltaf sungið?
„Já, ég byrjaði að syngja sem smástelpa en var rosalega feimin við það þótt ég léti eins og ég væri ein í heiminum þar sem ég söng með hárburstann í hendinni lokuð inni í herbergi. Fyrrverandi nágranni minn hrósaði mér einhvern tíma fyrir það hvað ég syngi fallega og væri með mikla og fallega rödd og þegar ég spurði hann út í það, sagðist hann oft heyra í mér þegar ég væri að syngja heima,“ segir Gógó og hlær létt. „Ég var sem sagt að syngja í einrúmi en þó með áheyrendur greinilega. Það var svo ekki fyrr en ég hóf nám í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti sem ég fór að syngja fyrir framan annað fólk. Ég sá auglýst inntökupróf í skólakórinn og ákvað að prófa. Svo voru auglýstar áheyrnarprufur fyrir árshátíðarsýningu en árlega voru settar upp mjög flottar sýningar á árshátíð skólans og þarna var óskað eftir söngvurum. Ég fór í prufu hjá Eyjólfi Kristjánssyni, Eyfa, sem var tónlistarstjóri sýningarinnar það árið, setti á mig heyrnartól, var með vasadiskó, þá gömlu græju. Ég var alveg skjálfandi á beinunum þar sem ég söng með vasadiskóinu og mikið sem það kom mér á óvart að ég skyldi komast inn í sýninguna,“ segir hún kímin.
„Þetta var 1993 og sýningin sem var sett upp það árið var The Commitments, eftir kvikmyndinni sem hafði notið mikilla vinsælda þarna á undan enda soul-tónlistin geggjuð. Þetta varð til þess að við urðum hljómsveit og fengum tækifæri til að spila hér og þar og þetta var alveg rosalega skemmtilegt tímabil. Ég átti svo eftir að taka þátt í tveimur árshátíðarsýningum til viðbótar og lék meðal annars Auði í Litlu hryllingsbúðinni. Þá sýningu settum við upp í Íslensku óperunni og það var mjög skemmtilegt að taka þátt í henni. Mér þótti ótrúlega vænt um þegar leikararnir sem tóku þátt í Litlu hryllingsbúðinni sem sett var upp árið 1985, Edda Heiðrún Bachmann heitin og fleiri, komu baksviðs eftir eina sýninguna til að þakka fyrir og spjalla við okkur. Þar fékk ég að heyra ýmislegt fallegt sem ég geymi enn í hjartanu.“
Ein skemmtilegustu árin ævinnar
Hún brosir að minningunni og bætir við að eitt hafi leitt af öðru og áður en hún vissi af var hún komin upp á svið í Superstar í Borgarleikhúsinu með m.a. Stefáni Hilmarssyni, Daníel Ágústi og Páli Óskari í aðalhlutverkum en þar söng hún í kórnum ásamt því að dansa og leika. Árið eftir fór hún með aðalhlutverk í söngleiknum Sumar á Sýrlandi sem settur var upp í Loftkastalanum. Hún segir þetta án efa hafa verið eitt skemmtilegasta tímabil lífs síns. Árið 1996 tók Gógó þátt í hæfileikakeppni sem Gunnar Þórðarsson setti upp á Hótel Íslandi. Keppnin fékk yfirskriftina Stjörnur morgundagsins og var byggð svipað upp og Idol síðar. Þarna komu saman hæfileikaríkir einstaklingar og kepptu um hylli áhorfenda í sal sem kusu á móti dómnefnd og einn sendur heim eftir hvert skipti. Þarna voru eldgleypar, dansarar og söngvarar. Gógó vann þessa keppni en svo voru straumhvörf framundan.
„Svo bara hætti ég að syngja. Ég hafði verið að fá margvíslegt hrós og viðurkenningu og fékk spennandi tilboð sem ég hafnaði án þess að hugsa mig um. Kannski hefði ég bara orðið heimsfræg ef ég hefði þorað að kýla á það,“ segir hún og hlær létt. „En þetta einhvern veginn náði aldrei alveg inn fyrir skelina; ég var svo ferlega óörugg með mig og fljót að gleyma því sem gott var en minnugri á það sem betur mátti fara.“
Látinn skólabróðir vitjaði hennar í draumi
Gógó segist svo lítið sem ekkert hafa sungið til ársins 2011. „Söngurinn lét mig samt aldrei alveg í friði og ég hugsaði oft um að það væri nú gaman að taka upp þráðinn á ný. Svo lést skólabróðir minn, strákur sem hafði verið hæfileikaríkur tónlistarmaður en ég hafði ekki hitt hann frá því í FB. Mig dreymdi hann eina nóttina skömmu eftir að hann dó. Í draumnum kemur hann til mín og segir við mig að maður eigi aldrei að sleppa takinu á draumum sínum heldur alltaf halda áfram að berjast fyrir þeim. Lífið væri svo stutt og einn daginn yrði það bara allt í einu búið. Draumurinn var mjög skýr og ég áttaði mig á því að ég hefði í raun aldrei misst löngunina til að syngja heldur látið óöryggið ná yfirhöndinni og stoppa mig í því að leyfa mér að gera það sem hjartað kallaði á. Ég sendi því tölvupóst á kórstjóra í kirkju í hverfinu með upptöku af lagi sem ég hafði sungið og spurði hvort vantaði einhverja rödd í kórinn því ég hafði heyrt góðar sögur af þessum manni og því starfi sem hann væri að vinna. Ég komst inn í kórinn með „det samme“ og var þar í tíu ár. Það var mjög skemmtilegur tími og ég fékk fullt af frábærum tækifærum þar sem ég verð alltaf þakklát fyrir.“
Nennir engu hvísli
Þú virðist hafa svolítið gamaldags tónlistarsmekk, hefur sungið lög Whitney Houston, Barbra Streisand, Abba og Shirley Basset. Hvers vegna er það?
„Kannski vegna þess að þetta eru lögin sem ég ólst upp við að heyra í útvarpinu og söng mikið með sem krakki. Rödd mín er líka þannig frá náttúrunnar hendi að það hentar henni mjög vel að syngja stór lög, ég nenni engu hvísli,“ segir hún og kímir. „Svo eru þetta líka bara stórkostleg lög sem eru alltaf klassísk.“
Og nú á að skella í tónleika á Café Rosenberg þann 27. september næstkomandi til að fagna þeim tímamótum að þú hefur fyllt fimmta tuginn í aldri.
„Já, mér fannst dálítið sniðugt að halda bara tónleika í staðinn fyrir stóra afmælisveislu. Það er líka gott að ögra sér aðeins og hafa eitthvað sem fær mann til að stíga út fyrir þægindarammann. Ég hef haldið nokkra sólótónleika áður, gerði það árlega frá árinu 2017, og hélt meðal annars tónleika til heiðurs Barbru Streisand þar sem ég söng hennar dásamlegu lög ásamt hljómsveit. Síðan tók ég mér pínu hlé frá þeirri hefð en hver veit nema hún sé bara komin til að vera aftur. Núna verður píanistinn Hlynur Þór Agnarsson með mér, sem er algjörlega frábær tónlistarmaður og ótrúlega flinkur útsetjari. Við ætlum til dæmis að taka lög úr James Bond-kvikmyndum, Eurovisin, og lög sem ABBA, Adele, Lionel Richie og fleiri hafa gert vinsæl og ég held að ég geti kinnroðalaust lofað kósí stemningu.“
Tónleikarnir verða haldnir á Café Rosenberg föstudagskvöldið 27. september og hefjast klukkan 20:00. Miðar eru seldir við innganginn.