Boðskapur bókar Davinu McCall, Breytingaskeiðið Jákvæður leiðarvísir að nýju upphafi, er að við konur verðum að tala meira um þessa reynslu okkar, láta þær yngri vita hvers er að vænta og styðja hver aðra til að leita og fá hjálp þegar einkennin verða óbærileg. Þarna eru líka reynslusögur og alls konar góð ráð til sjálfshjálpar. Það er ekkert undarlegt að Davina hafi unnið bresku bókmenntaverðlaunin í flokki bóka almenns eðlis í fyrra fyrir þessa bók.
Líklega erum við fyrst núna að gera okkur fulla grein fyrir hversu afgerandi áhrif breytingaskeiðið hefur á konur. Þótt einkennin séu mismikil getur þetta tímabil staðið yfir í 4-8 ár en jafnvel eftir að blæðingarnar hætta alveg og tíðahvörf teljast búin eiga sér stað hormónasveiflur út ævina sem hafa veruleg áhrif á lífsgæði kvenna. Skortur á estrógeni hefur áhrif á hjarta- og æðahverfi, beinin, meltingu og þvagfærakerfið. Margt bendir líka til að verulegur skortur á estrógeni geti haft áhrif á hvort og hve snemma konur þróa með sér vitglöp. Það er því til mikils að vinna að hafa þekkingu á hvað er að gerast í líkamanum og vita hvernig konur geta sem best varið heilsu sína.
Lengi skömmuðust konur sín fyrir einkenni breytingaskeiðsins. Hitakófin voru vandræðaleg og það að þurfa jafnvel að skipta um föt á miðjum vinnudegi fór illa í margar. Í kjölfar hitakófsins kom svo kannski kuldakast og þær gerðu allt hvað þær gátu til að leyna því hvernig var komið fyrir þeim. Þreytan eftir svefnlausa nótt hafði áhrif á hæfni þeirra og getu til að skila sömu vinnu og áður og margar réðu ekkert við skapsveiflurnar. Í sumum tilfellum gekk þetta svo langt að börn þessara kvenna töluðu um að þekkja ekki móður sína. Hún væri gerbreytt ekki sama konan.
Dregur úr þolinmæði og umburðarlyndi
Og að vissu leyti er það rétt. Minna magna kvenhormón í líkama draga úr þolinmæði, umburðarlyndi og umhyggjusemi kvenna. Kona nokkur sagði eitt sinn: „Ég vildi að maður gæti ráðið hvað maður breytist í að loknu þessu breytingaskeiði.“ En svo er ekki. Madeleine Albright sagði að konur yrðu ekki skapverri með árunum heldur minnkaði einfaldlega þolinmæði þeirra fyrir vitleysunni í öðrum. Það er svo sannarlega rétt en þessi breyting eins og svo margar aðrar en eitthvað sem hæglega má hafa áhrif á og aðlaga að því sem hentar hverri og einni.
Sú mikla breyting sem hefur orðið á atvinnuþátttöku kvenna gerir það að verkum að þær hafa skyldum að gegna sem ekki er hægt að víkjast undan. Ef litið er aftur til fyrri kynslóða lifðu konur ýmist ekki svo lengi að þær gengju í gegnum breytingaskeiðið eða þær höfðu skilað af sér uppeldishlutverki sínu og gátum þess vegna tekið því rólegar en áður. Nú er því ekki að heilsa. Þær bera mikla ábyrgð utan heimilis líka og verða að standa sig þótt þær iðulega séu ekki í standi til þess.
Einkenni breytingaskeiðsins geta byrjað nokkrum árum áður en blæðingar hætta og yfirleitt tengja konur þær breytingar ekki við breytingaskeiðið. Þær finna fyrir auknu stressi, minnisglöpum, kvíða, þreytu, orkuleysi, einbeitingarskorti, minnkaðri kynhvöt og vanlíðan sem þær hafa enga skýringu á. Að vita ekki hvað veldur eykur síðan á streituna, kvíðan og álagið. Þess vegna þarf að fræða konur um við hverju má búast og hvernig hægt er að bregðast við.
Hormónameðferð hjálpar
Hormónameðferð HRT-meðferð hjálpar mjög mörgum konum og það er sjálfsagt að notfæra sér hana. Fyrir nokkrum árum voru birtar niðurstöður rannsóknar sem bentu til að hormónameðferðin gæti aukið líkur á brjóstakrabbameini en nýlegar rannsóknir sýna að áhrifin eru ekki eins mikil og talið var. HRT-meðferð hefur einnig þróast og breyst þannig að hún er núna mun betur sniðin að hverri konu og upptaka gegnum plástur tryggir betri nýtingu hormónanna. Allt þetta bætir líðan kvenna en þær þurfa að gæta að fleiru. Mataræði er mjög mikilvægt á breytingaskeiði og eftir það til að vinna gegn beinþynningu og viðhalda kjörþyngd. Offita hefur mjög skaðleg heilsufarsáhrif og hún eykur líkur á að konur fái ýmsa sjúkdóma þar með talin krabbamein og sykursýki.
Eftir að breytingaskeiði lýkur finna margar konur áfram fyrir skapsveiflum, auknum kvíða og þunglyndi. Konum finnst þær þess vegna eiga erfðara með að takast á við álag.
Leggangnaþurrkur er algengur á breytingaskeiði og eftir að því lýkur. Hann veldur sviða og óþægindum í píkunni og sársauka við samfarir. Þessi einkenni hverfa ekki en hægt er að leita til læknis og fá staðbundna meðferð. Leggangnaþurrkur getur einnig verið ein ástæða aukinna þvagfærasýkinga og sársauka við þvaglát.
Hættan á hjarta- og æðasjúkdómum eykst eftir tíðahvörf, sem og á beinþynningu og krabbameinum. HRT-meðferð er veitt konum eftir sextugt ef læknar meta það svo að þörf sé á því. En hvar sem konur eru staddir í breytingaferlinu ættu þær að eiga og lesa vel bók Davinu McCall, Breytingaskeiðið, Jákvæður leiðarvísir að nýju upphafi. Það getur skipt sköpum með að hægt verði að njóta seinni helmings lífsins til fulls.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.