Steinunn Þorvaldsdóttir sjálfstætt starfandi textahöfundur og kennari hjá líkamssrækt JSB skrifar
„Er ekki best fyrir mig að fara að hægja aðeins á þessu sprikli? Er ekki óþarfi að vera alltaf að spá svona mikið í hvað ég læt ofan í mig? Ég er búin að standa mig alveg ferlega vel. Ætli mér sé ekki óhætt að fara að slaka aðeins á öllum þessum kröfum?
Spurningar af þessu tagi heyrum við með nokkuð reglulegu millibili hérna í líkamsræktinni. Þær eru oft spurðar í hálfgerðu gríni en samt má alltaf greina einhvern hálfbiðjandi undirtón í þeim. Yfirleitt á í hlut harðduglegt fólk sem hefur náð glæsilegum árangri og farið að „stórsjá á því“ eins og við segjum stundum þegar vel hefur tekist til með ræktina og mataræðið.
Á slíkum tímapunkti liggur gamla farið í gleymskunnar dái, rútínan farin að verða svolítið hversdagsleg og einhver mæða farin að hellast yfir, líkt og þegar nemendur fara að tala um námsleiða rétt fyrir próf. Mikil vinna og einbeiting að baki og því finnst fólki það eiga skilið verðlaun og slökun í stað þess að standa í einhverju eilífðarharki.
Auðvitað verðum við öll leið annað slagið og þá er sjálfsagt að peppa sig upp og reyna að sjá ljósið aftur. Nemendur vita ósköp vel að þeir eiga val. Þeir geta að sjálfsögðu hætt námi og snúið sér að einhverju öðru ef þeir telja að það henti betur. Í flestum tilfellum rifja þeir þó upp hvers vegna þeir völdu þessa leið og muna ávinningin sem henni fylgir.
Sama máli gegnir um markmiðin sem við setjum okkur varðandi eigin heilsu og lífsstíl. Við getum að sjálfsögðu hætt við þau og snúið til fyrri lifnaðarhátta með tilheyrandi afleiðingum. Ef við höfum lent í ógögnum í þeim efnum og tekist að ná okkur á strik þá þekkjum við muninn og tilfinninguna. Við eigum valið í þessu eins og flestu öðru sem við tökum okkur fyrir hendur.
Það sem mestu máli skiptir er að fylgja dagskrá sem er þess eðlis að hún verður eðlilegur og sjálfsagður hlutur af daglegu rútínunni. Hún má ekki vera það stíf að við lítum aldrei glaðan dag. Það á hvorki að teljast refsing eða harðræði að rækta líkamann og velja af kostgæfni það sem við látum ofan í okkur. Reynum að muna hvernig við viljum láta okkur líða. Valið snýst í rauninni um það hvort við viljum hjól eða hring, það er hvort við viljum láta lukkuhjólið snúast eða lenda í vítahring.