Baráttan við lömunarveiki – alþjóðadagur Polio

Þann 24. október á hverju ári er Alþjóðadagur Polio, eða lömunarveiki.  Þessi dagur er haldinn til að minna á mikilvægi þess að berjast á móti útbreiðslu lömunarveiki (Polio) og þakka fyrir það mikla starf sem unnið er um allan heim af fagfólki, sjálfboðaliðum og foreldrum.  Það er mikilvægt að halda á lofti mikilvægi bólusetningar barna og fullorðinna gegn þessum hræðilega veirusjúkdómi.  Lömunarveiki er mjög smitandi veirusjúkdómur, sem getur leitt til lömunar og dauða þeirra sem fá sjúkdóminn.

Rótarýhreyfingin hefur unnið ötullega að þessu markmiði á undanförnum árum í góðu samstarfi við fagaðila og sjálfboðaliða.  Þetta starf hófst strax í kringum 1979, þegar hreyfingin styrkti bólusetningu um 6 milljóna barna á Filippseyjum.  Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) lýsti því yfir árið 1988, að stefna yrði að útrýmingu lömunarveiki í heiminum.  Síðan þá hefur smitum lömunarveiki fækkað um 99% á heimsvísu.  Rótarýhreyfingin hefur unnið að þessu markmiði í samstarfi við WHO og aðra og á þessum tíma hafa um 3 milljarðar barna verið bólusettir.  Rótarý hefur bæði lagt til mikið fjármagn, en ekki síður sjálfboðaliða til að vinna að þessu markmiði.

Það er því miður þannig, að ekki hefur enn tekist að uppræta þessa veiru að fullu, þó að það sé enn markmið að gera það á næstu árum.  Það hefur verið mikil áskorun að ná til allra barna, sérstaklega á stríðshrjáðum og mjög afskekktum svæðum.  Veiran er enn að hluta landlæg í afskekktum héruðum í Afganistan og Pakistan.  Stökkbreytt afbrigði veirunnar hafa einnig skotið upp kollinum á síðustu árum og eykur það enn á áskoranir vegna þessa sjúkdóms.  Það var mjög óhugnalegt að heyra, að tilfelli komu upp nýlega á Gasa.  Það sýnir því miður, að stríðshrjáð svæði verða áfram viðkvæm fyrir mögulegri útbreiðslu þessarar bráðsmitandi veiru og að baráttan gegn henni er ekki búin.

Það er nokkuð langt um liðið síðan síðasti faraldur lömunarveiki var hér á landi.  Síðustu þekktu tilfellin voru hér á árunum 1955-1957 og því eru enn á lífi einstaklingar, sem glíma við eftirköst þessa hræðilega sjúkdómsins.  Hin nýju stökkbreyttu afbrigði veirunnar hafa því miður verið að finnast í skolpræsum stórborga eins og New York og Lundúna.  Það er því mjög mikilvægt að vera vakandi fyrir veirunni og halda áfram og klára það verkefni, að útrýma henni á heimsvísu.

Rótarýhreyfingin er staðráðin í að halda þessu starfi áfram, þar til lokamarkmiði er náð.  Við hér á Íslandi getum áfram lagt okkar að mörkum.  Rótarýsjóðurinn (Rotary Foundation) er gríðarlega öflugur mannúðarsjóður, sem hefur fjármagnað þetta starf á undanförnum árum.  Allir Rótarýfélagar leggja fram fjármagn í þennan frábæra sjóð, annað hvort með föstu framlagi sem klúbbar greiða á hvern félaga, eða með beinu persónulegu framlagi í Rótarýsjóðinn.  Stofnun Bill og Melinda Gates hefur í gegnum árin unnið með Rótarýsjóðnum að þessu verkefni.  Fyrir hverja krónu sem við leggjum fram, þá leggja þau fram tvær krónur.  Þetta hefur verið gríðarlega mikilvægt verkfæri í þessari baráttu.

Mig langar að hvetja okkur öll til þess að hugsa áfram um þetta málefni – að sjálfsögðu á Poliodeginum sjálfum, en ekki síður áfram, þar til markmiðum okkar er náð.  Ég vil hvetja Rótarýfélaga til að nota daginn til framlaga í Rótarýsjóðinn.  Við viljum einnig hvetja alla til að skoða starfsemi Rótarýhreyfingarinnar og meta, hvort að þið hafið áhuga á að koma og hjálpa til við að vinna áfram að góðum málefnum með Rótarý.  Það eru allir velkomnir í Rótarý og við munum taka vel á móti ykkur.  Klárum það verkefni að útrýma lömunarveiki á næstu árum.

Ritstjórn október 24, 2024 07:00