Metsöluhöfundur myrtur

Þeir sem lásu Þernuna eftir Nitu Prose hafa örugglega verið jafnspenntir og undirrituð að opna nýju bókina hennar, Leynigestinn. Og hún svíkur ekki. Aðalpersónan er jafnáhugaverð og skemmtileg og fyrr, gátan margslungin. Molly er heiðarleg, einlæg og hlý. Þrátt fyrir að skorta félagsfærni nær hún að skapa djúpa vináttu og eignast virðingu og aðdáun þeirra sem leggja sig eftir að kynnast henni almennilega.

Molly Gray er nú orðin yfirþerna á Regency Grand hótelinu og með unga konu, Lily, í þjálfun. Hún býr með Juan Manuel og á vísan stuðning frá hr. Preston dyraverðinum á hótelinu og hr. Snow yfirmanni sínum. En það stendur mikið til á Regency Grand. Þekktur metsöluhöfundur er gestur á hótelinu og hefur gefið út að von sé á tímamótayfirlýsingu frá sér á blaðamannafundi sem hann hyggst halda sama dag. Áður en til þess kemur að hann lesi yfirlýsinguna drekkur hann bolla af eitruðu tei og dettur dauður niður. Lily var sú sem færði honum bollann og hún og Molly þær einu sem höfðu aðgang að tebakkanum. Nú reynir aftur á hæfileika Molly til að taka eftir undarlegustu smáatriðum og skynja ótalmargt sem fer framhjá öðrum.

Í þessari sögu fær lesandinn enn betri innsýn inn í æsku Mollyjar, hver móðir hennar var og fórnirnar sem amma hennar færði hennar vegna. Molly Gray er einstakur karakter. Hún minnir óneitanlega á Kalmann, sjériffinn á Raufarhöfn. Þau eiga það sameiginlegt að skorta félagsfærni, vera viðkvæm fyrir ýmsu áreiti en með hnífskarpa athygli og ályktunarhæfni á við Sherlock Holmes. Þau hafa einnig alist upp við þær aðstæður að eiga hamingjusama æsku sína einkum að þakka eldri kynslóðinni, í tilfelli Kalmanns er það afi en amma Mollyjar ól hana upp. Hún hefur á takteininum fjölda heilræða og spakmæla frá ömmu að leiðarljósi og Kalmann reiðir sig sömuleiðis iðulega á hvað hann telur að afi hans myndi gera í svipuðum aðstæðum.

Aldnir heimspekingar sem læra má af

Þau Molly og Kalmann eru líklega á einhverfurófi. Bæði koma úr verklýðsstétt, afi Kalmanns er hákarlaveiðimaður og kennir dóttursyni sínum hvað þurfi til að slást við þann gráa. Amma Mollyjar er þerna og þarf að þola þá niðurlægingu og virðingarleysi sem oft fylgir því starfi. Fátækt þeirra meðan á uppvexti Mollyjar stendur er oft skerandi sár en á við nyrsta haf á Raufarhöfn á Íslandi eiga hákarlasjómenn fyrir salti í grautinn þótt ríkidæmi sé ekki fyrir að fara. Afi Kalmanns og amma Mollyjar eru hins vegar heimspekingar og snillingar í að gera hið besta úr hvaða aðstæðum sem er. Af þeim má margt læra. Bæði Nitu Prose og Joachim B. Schmidt tekst listavel að lýsa viðhorfi til og aðstæðum verkafólks, valkostir eru fáir og samfélagslegur skilningur takmarkaður.

Á yfirborðinu eru þetta léttar og skemmtilegar sakamálasögur þar sem lausn gátunnar er í fyrirrúmi en undirtextinn er dýpri. Leynigesturinn er flott bók og bætir miklu við það sem við vissum áður um hina athyglisverðu aðalpersónu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn janúar 21, 2025 07:00