Enginn draumur að vera með dáta

Nútímafólk á erfitt með að ímynda sér þann tíðaranda sem ríkti á stríðsárunum. Þjóðernishyggja nasista hafði haft áhrif víða um Evrópu og teygði anga sína einnig hingað til Íslands. Kvenréttindabaráttan var skammt á veg komin og umtalsverðar þjóðfélags- og efnahagsbreytingar urðu í kjölfar hernámsins. Meðal þess sem ráðamenn óttuðust voru samskipti íslenskra kvenna við hermenn og gengu þeir hart fram í því efni svo hart að það eyðilagði líf ungra stúlkna.

Um þetta fjallar skáldsaga Guðrúnar Jónínu Magnúsdóttur, Rokið í stofunni. Ágústa Samúelsdóttir missir föður sinn í aftakaveðri á Halamiðum og þá verða mikil umskipti á kjörum fjölskyldunnar. Móðir hennar, Rannveig, fær ekki haldið húsinu sem þau höfðu komið sér upp og hrekst með dætur sínar þrjár í sífellt minna og verra húsnæði þar til þær enda í Höfðaborginni. Ágústa er dugleg, hagvirk og einstaklega falleg. Hún reynir að létta undir með móður sinni og fer snemma að vinna. Hún er líka lögð í einelti í skólanum og hættir þess vegna námi án þess að ljúka fullnaðarprófi. Hún fer einnig að skemmta sér og þvælast með eldri stúlkum stundum mest til þess að fá að gista annars staðar en heima hjá sér. En þær fara gjarnan upp í bíla hjá hermönnum eða með íslenskum karlmönnum og brátt kemst barnaverndarnefnd í spilið og Jóhanna Knudsen.

Guðrún Jónína byggir söguna á skrifuðum heimildum frá þessum tíma og frásögn konu sem hún þekkti sem varð fyrir því að vera handtekin fyrir að hafa samskipti við hermenn og vistuð á Kleppjárnsreykjum. „Ástandið“ var það kallað þegar konur umgengust og fóru út að skemmta sér með hermönnum. Þær sem það gerðu urðu fyrir aðkasti, slæmu umtali og miklum fordómum. Orðsporið fylgdi þeim einnig lengi vegna smæðar landsins. Komið var einstaklega illa fram við þessar stúlkur, þær í raun sviptar öllum borgarlegum réttindum, oft alveg að ósekju því yfirheyrslu og rannsóknaraðferðir Jóhönnu Knudsen orka mjög tvímælis og gerðu það líka þá. Af þeim sökum létu ættingjar Jóhönnu loka skjölum hennar í hálfa öld eftir lát hennar og það er ekki fyrr en á tuttugustu og fyrstu öld að sagnfræðingar og aðrir fá aðgang að þeim. Guðrún Jónína vitnar einmitt oft beint í þessi skjöl og yfirheyrslur Jóhönnu  þar sem hún leggur allt út á versta veg og trúir engu sem stúlkurnar segja. Hún neyðir þær í læknisskoðanir þar sem kannað er hvort þær séu hreinar meyjar.

Þessar aðgerðir eru ljótur og svartur blettur á sögu Íslands og mikil skömm að hvernig komið var fram. Saga Guðrúnar Jónínu er sterk, áhugaverð og vel skrifuð, sérstaklega þeir kaflar sem eru hreinn skáldskapur. Þar lifna persónur við og verða ljóslifandi fyrir hugskotsjónum lesandans. Rokið í stofunni er einstakt innlegg í umræðu um þessa þjóðarskömm og mjög athyglisverð bók.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 27, 2025 07:00