Með nýjum biskupi kom ferskur blær

Tinna Miljevic er nýráðinn samfélagsmiðlasérfræðingur þjóðkirkjunnar. Eftirnafn Tinnu hljómar óneitanlega ekki íslenskt en faðir hennar kom ungur maður frá Króatíu til Íslands þar sem hann kynntist móður hennar svo Tinna hefur alist alfarið upp á Íslandi. Starf hennar hjá Biskupsstofu gengur út á að finna brú á milli almennings og kirkjunnar og hleypa fólki inn í starfsemina innan kirkjunnar og það gerir hún meðal annars í gegnum samfélagsmiðla. ,,Við getum mörg okkar verið sammála um að við vitum afskaplega lítið um það sem fer fram í kirkjum landsins og þar var ég engin undantekning. Ég hef komist að því að þar er unnið mjög merkilegt starf og ég er staðráðin í að láta fólk vita af því,“ segir Tinna.

Instagram virkjað

,,Markmið mitt er að fara inn í sem flestar kirkjur með símann á lofti og taka viðtöl við presta og aðra starfsmenn hverrar kirkju. Svo vil ég taka myndir af innviðum kirknanna þannig að fólk geti séð hvernig er umhorfs inni, hvað komast margir fyrir þar, hvernig er aðgengi þannig að fólk geti fengið hugmynd um hvaða kirkja hentar best fyrir athafnir sem það hyggst halda. Þannig vil ég opna kirkjurnar og færa þær nær fólkinu. Hægt er að sjá það sem ég er að vinna með ef fólk fer inn á Instagram og slær inn þjóðkirkjan eða bara kirkjan og þar  inni má finna aragrúa af myndbörnum, bæði myndbönd af kirkjum, starfsfólki þeirra og skemmtilegum innslögum af ýmsum toga. Ég læt tónlist hljóma undir þessum myndböndum sem höfða til bæði eldra og yngra fólks,“ bætir Tinna við.

Ferskur blær með nýjum biskupi

Tinna segir að með nýjum biskupi hafi sannarlega komið ferskur blær. ,,Ég hef þá trú að við náum að bera boðskapinn enn frekar út í gegnum samfélagsmiðla,“ segir Tinna og er augljóslega spennt fyrir framtíðinni og ánægð með nýjan biskup.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn mars 9, 2025 07:00