Magnea Sverrisdóttir er djákni og er verkefnisstjóri erlendra samskipta hjá biskupsembættinu, auk þess að vera verkefnisstjóri kærleiksþjónustunnar. Íslenska Þjóðkirkjan hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um áratuga skeið. Þjóðkirkjan hefur m.a. verið þátttakandi frá upphafi bæði í Alkirkjuráðinu og Lúterska heimssambandinu sem voru stofnuð rétt eftir heimsstyrjöldina síðari.
„Lútherska heimssambandið var sett á laggirnar eftir seinni heimsstyrjöldina þegar Evrópa var rústir einar,“ segir Magnea. „Það voru lútherskar kirkjur í Evrópu sem tóku höndum saman árið 1947 og byrjuðu að bjóða neyðaraðstoð þar sem neyðin var mest. Sambandið samanstendur í dag af 150 kirkjum í 99 löndum í öllum heimsálfum. Aðalverkefni sambandsins er að sinna neyðaraðstoð með kristinn mannskilning að leiðarljósi þar sem stétt, staða eða trúarbrögð skipta engu máli. Einnig hefur sambandið lagt mikla áherslu á valdeflingu kvenna í þeirra nærumhverfi. Lútherska heimssambandið er auk þess eitt af stærstu samstarfsaðilum flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna,“ segir Magnea.
Veitir sannarlega ekki af aðstoðinni
„Því miður virðist ekkert lát á neyð fólks um allan heim og verkefnin ærin, UNHCR telur að um 123 milljónir manna séu á flótta í heiminum í dag,“ segir Magnea. „Yfir 90% af fjármunum lútherska heimssambandsins fer í neyðaraðstoð um allan heim og það eru miklir fjármunir,“ segir hún. „Nú er fulltrúi okkar í stjórn þar Arnfríður Guðmundsdóttir, guðfræðiprófessor í Háskólanum. Hún er núna varaforseti lútherska heimssambandsins og sér um Norðurlöndin svo við Íslendingar erum mjög virk í þessu alþjóðlega sambandi og í því felst talsvert utanumhald.“ Starfi Magneu hefur verið sinnt síðan skömmu eftir stríð en hún hefur nú sinnt því í tæp 15 ár. Magnea hefur því kynnst nokkrum biskupum og hóf að starfa með þeim nýjasta í fyrra.
Skjólið
Hluti af verksviði Magneu er að vera í sambandi við Skjólið sem er dagsetur fyrir konur í ótryggri búsetu. Hún segir að fyrrum biskup, Agnes M. Sigurðardóttir, hafi barist fyrir því að þetta úrræði væri opnað. „Skjólið er eini staðurinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem konur geta komið á daginn og fengið aðstoð án útskýringa. Allar eru velkomnar og þær eru ekki dæmdar. Þangað geta konur komið, fengið mat, farið í bað og þvegið fötin sín. Þar er samfélag og þessar konur fá alla nauðsynlega aðstoð en Skjólið er staðsett í kjallara Grensáskirkju.“
Ástæðan fyrir því Skjólið er eingöngu fyrir konur segir Magnea að sé að þegar skoðað var hvar þörfin var mest í samfélaginu okkar hafi komið í ljós að það voru konur sem voru í mestri hættu. „Þessi hópur er stærri en fólk grunar en hann samanstendur af konum sem allar hafa lent í áföllum sem þær ráða ekki við og þar er ekki spurt um stétt eða stöðu. Ég er stolt að tilheyra kirkju sem stendur með konum sem þurfa á stuðningi að halda,“ segir Magnea.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.