Magnað líf á 3ja æviskeiði

Magnavita, hvað er það?  Þetta er spurning sem ég fæ af og til. Í örfáum orðum langar mig að segja frá Magnavita-náminu í Háskólanum í Reykjavík eins og það snýr við mér.

Ég tilheyri fyrsta hópnum sem hóf göngu sína í janúar 2023. Vissi í raun ekki á hverju var von. Það er skemmst frá því að segja að við vorum ekki fyrr stigin inn fyrir þröskuldinn í Háskólanum í Reykjavík en okkur var tekið af mikilli hlýju og hver og einn fékk að upplifa sig eins og hans/hennar hefði verið sérstaklega beðið. Sú tilfinning hélt og var viðvarandi uns námi lauk, þau sem stýra Magnavita lögðu sig vel fram við að viðhalda því sem lagt var upp með og tókst það svo sannarlega.

Námið er tvær annir og að mæta í tíma einu sinni í viku var tilhlökkunarefni.  Mig langar að lauma því með hvað heillaði mig mest þegar ég sá náminu lýst; það eru engin próf né heimaverkefni! Er hægt að biðja um meira?

Við kynntumst því sem skiptir máli til að geta lifað góðu lífi, vorum leidd um króka og kima tilverunnar. Sumt vissum við, annað ekki og á öðru var skerpt. Kennarar og fyrirlesarar eru úrvalsfólk hvert á sínu sviði. Við fengum fyrirlestur um tilgang lífsins, heimspeki, fjármál, menningu, húmor, andlega og líkamlega heilsu, vel var tekið á mataræði, hreyfingu og svefni auk þess sem við horfðum til framtíðar og kortlögðum síðara æviskeiðið. Allt til þess fallið að fjölga æviárunum sem heilbrigð og hamingjusöm manneskja.

Magnavita lærdóms-samfélagið er komið til að vera. Nú fundum við útskrifaðir nemendur fjórum sinnum á ári, borðum saman og hlustum á fyrirlestra. Það fjölgar í hópnum við hvern árgang sem úrskrifast. Hópar innan hvers árgangs hittast í grasrótarhópum s.s. göngu- golf- og menningarhópum auk þess sem fólki er hóað saman ef einhverjum dettur í hug eitthvað skemmtilegt og gefandi.

Magnavitanámið er fyrir alla á aldrinum 55 til 75 ára. Tilvalið fyrir einstaklinga sem verja lífinu saman. Þroskandi og kjörið fyrir hjón.

Námið situr eftir hjá mér – svolítið erfitt að útskýra hvað gerðist en ég kalla það galdra.  Ég uppsker á hverjum degi og við litróf lífsins bættist nýr tónn.  Það myndaðist vinskapur sem við erum dugleg að rækta, þar ríkir kærleikur og virðing.

Þegar starfslok nálguðust hjá mér hlakkaði ég til þess að verða frjáls manneskja – það gengur vel með Magnavita í farteskinu.

Magnavita er fjárfesting og umfram allt mannbætandi.

Katrín Jónína Björgvinsdóttir (Nína) skrifar. 

Ritstjórn apríl 3, 2025 07:00