Maí er síðasti vormánuðurinn og fólk um alla Evrópu dregur andann léttar þegar hann gengur í garð. Maí hlaut nafn sitt eftir grísku gyðjunni Maiu, enda var hún gyðja vors og gróðurs. Rómverjar til forna héldu hátíðina, Floralis í lok apríl og fram í byrjun maí og fögnuðu nýjum gróðri og blómunum sem óðum voru að spretta upp úr moldinni.

Emerald er mánaðarsteinn maímánaðar.
Maí getur verið ansi kaldur hér á norðurslóð en oft koma fallegir vordagar með sól og yl. Fyrstu íslensku villiblómin láta einnig á sér kræla í maí. Fyrst blómstra jafnan vetrarblóm og þau má sjá nánast á berum klöppum upp til fjalla og víða í klettum. Klóelfting er jafnan fljót að teygja græna anga upp úr moldinni en annað nafn á henni er draumagras og sagt var að ef fólk gripi fyrstu elftingar vorsins og stingju þeim undir koddann sinn dreymdi það hvað framundan væri um sumarið og ungar konur mannsefni sitt.
Hingað til lands taka farfuglarnir að flykkjast upp úr miðjum apríl og fram í maí. Flestir íslenskir fuglar byrja varp sitt í maí en fyrstu dagana í maí má oft rekast á athyglisverða og skemmtilega flækingsfugla hér sem eru á leið til varpstöðva sinna á Grænlandi og í Norður-Ameríku. Í þeim hópi eru rauðbrystingar, svölur, margæsir, helsingjar og fleiri.

Hafþyrnir er einnig blóm maímánaðar.
Merkisdagar og ýmis hjátrú
Í maí er tveir merkisdagar, 1. maí er baráttudagur verkalýðsins og uppstigningardagur. Þar sem páskarnir eru færanleg hátíð er mögulegt að uppstigningardag beri upp á 30. apríl en það gerist sjaldan. Mæðradagurinn er að jafnaði einnig haldinn hátíðlegur í maí en mjög mismunandi er hversu alvarlega menn taka hann. Hér á landi er minna gert úr honum en víða annars staðar en í Bandaríkjunum er algengt að börn færi mæðrum sínum gjafir þann dag.
Mánaðarsteinn maímánaðar er emerald en í steinafræðum stendur hann fyrir endurfæðingu, ást og endurnýjun. Mánaðarblómin fyrir maí eru í Evrópu dalalilja og hafþyrnir. Dalalilja þýðir á tungumáli blómanna sætleika og auðmýkt en hafþyrnirinn stendur fyrir hamingju, ást, langlífi, trú og von. Þess má einnig geta að samkvæmt gamalli enskri hjátrú boðar ekki gott að búa sér til nýjan kúst eða kaupa sóp í maí.

Stjörnumerkið nautið nær fram að 19. maí þá taka tvíburarnir við.
Stjörnumerki maímánaðar eru nautið og tvíburarnir sem byrja 21. maí og enda 20. júní. Það er talið boða gott að fæðast í maí og maíbörn eru sögð glaðlynd og bjartsýn. Fyrsta fulla tunglið í maí er venjulega 12. maí og kallast blómatungl eða Flower Moon á ensku. Fyrsta aspasuppskeran er víða í Evrópu í maí og þá er gjarnan soðin aspasúpa eða bökuð aspasbaka. Siður sem vert væri að taka upp hér líka en við höfum rabarbarann. Þeir sem hann rækta fá fyrstu stilkana í maí og geta bakað rabarbarapæ eða soðið rabarbaragraut.
Nokkrar sögulegar staðreyndir:
Þann 1. maí árið 1931 var Empire State-byggingin í New York formlega opnuð.
- maí ár hvert fagna menn stríðslokum í Evrópu en þann dag árið 1945 lauk seinni heimstyrjöldinni formlega. Sá dagur er líka sokkalausi dagurinn en víða um heim taka menn þátt og ganga berfættir í skónum þann dag.
Fyrsta Óskarsverðlaunahátíðin var haldin 16. maí 1929 á Roosevelt-hótelinu í Hollywood.
- maí árið 1873 fengu Levi Strauss og Jacob Davis einkaleyfi á framleiðslu gallabuxna með koparnöglum á vösunum.