Klausturhólar í Grímsnesi er landnámsjörð en svæðið er nefnt eftir landnámsmanninum Grími. Þar búa nú hjónin Þórleif Hoffmann Gunnarsdóttir og Guðmundur Jóhannesson ásamt flestum sínum afkomendum og nokkrum til. Þau hófu búskapinn á Selfossi og höfðu búið þar í rúmt ár þegar þau fréttu af því að sveitarfélagið ætlaði að leigja jörðina Klausturhóla og stukku til. Það var árið 1986 og síðan er töluvert vatn runnið til sjávar og enn eru þau á Klausturhólum en nú sem eigendur.
Sagan segir að landnámsmaðurinn Grímur hafi viljað láta heygja sig þar sem sól settist síðast og kom fyrst upp að morgni. ,,Tveir staðir koma til greina en við höfum ekki fundið Grím enn þá,“ segja þau hjón og brosa. Á jörð þeirra er einn heillegast hlaðni grjótgarður sem vitað er um og þau hafa eðlilega ekki snert við honum. Til er fornleifaskrá um allar jarðir í Grímsnesi og þar eru taldar upp þær fornleifar sem fyrirfinnast á Klausturhólum sem eru allnokkrar.
Sóttu sveitaböllin á Borg
Þórleif og Guðmundur bjuggu fyrst um sig í gamla húsinu á Klausturhólum. Guðmundur var alinn upp í Vaðnesi þar skammt frá en Þórleif í Reykjavík. Hún var öll sumur í sveit hjá ættingjum í Austurey við Apavatn og bæði sóttu þau sveitaböllin á Borg þar sem þau kynntust og ákváðu í framhaldi að rugla saman reitum og hefja búskap.
Alla langar að eiga heima á Klausturhólum

Öllum líður vel á Klausturhólum, bæði mönnum og dýrum.
Þau Þórleif og Guðmundur byrjuðu á að leigja jörðina Klausturhóla af sveitarfélaginu 1986 til fimm ára og segja það hafa verið

Áhugi Arons er eng minni en Helgu þegar kemur að bústörfunum.
mjög eftirminnilegan tíma. Þau voru ung og bjartsýn og vissu að saman gætu þau fært fjöll. Þau fjárfestu í skepnum og búnaði og lífið var gott. En ári seinna dundi ógæfan yfir og fyrsta barn þeirra, Gunnar Finnur, sem var fæddur 1983, veiktist af erfiðu afbrigði af heilahimnubólgu og lést aðeins fjögurra ára gamall. Þórleif var þá nýlega orðin ófrísk af öðru barni þeirra hjóna, Helgu. Það var taugatrekkjandi tími því þau höfðu öll verið látin taka inn öflugt lyf af því heilahimnubólguafbrigðið, sem Gunnar Finnur lést úr, gat verið smitandi. ,,Læknar fullvissuðu okkur um að eftir því sem þeir kæmust næst myndi lyfið ekki skaða fóstrið,“ segir Þórleif og svo fæddist yndisleg lítil stúlka í apríl 1988 sem fékk nafnið Helga. Hún er nú að taka við búinu af foreldrum sínum ásamt eiginmanni sínum Alfreð Aroni Guðmundssyni. Hann vinnur hjá Vegagerðinni auk þess að stunda nú búskap með Helgu.
Klausturhólanaut á Instagram

Gamla húsið á bænum sem Jóhannes hefur nú gert upp.
Ári eftir að Helga fæddist eignuðust þau Þórleif og Guðmundur soninn Jóhannes. Hann býr með fjölskyldu sinni í gamla húsinu á bænum eftir að hafa gert það upp. Fyrir utan að reka verktakafyrirtækið JÞ verk sinnir hann nautgriparækt ásamt sambýliskonu sinni Ester. Ef farið er inn á Klausturhólanaut á Instagram er hægt að panta hjá þeim nautakjöt beint frá býli.
Þau Þórleif og Guðmundur eignuðust svo eitt ,,örverpi“ 1997 sem heitir Einar Ásgeir og rekur Nesdekk á Selfossi. Hann býr uppi á Borg með eiginkonu sinni Lilju og sonum þeirra en setur stefnuna líka heim á Klausturhóla þegar aðstæður verða hagstæðari en hann langar að byggja þar nýtt hús. Og nú eru barnabörn þeirra Þórleifar og Guðmundar orðin sjö talsins og alla langar að eiga heima á Klausturhólum.
Ákváðu að stökkva en ekki hrökkva
,,Þegar við vorum búin að búa á Klausturhólum í 5 ár fréttum við að sveitarfélagið ætlaði að selja jörðina,“ segir Þórleif. ,, Við vissum að við yrðum að hrökkva eða stökkva og tókum ákvörðun um að stökkva,“ segja þessi duglegu hjón sem eru nú bæði komin á miðjan aldur, hún fædd 1963 og hann 1959. ,,Við höfðum fjárfest í skepnum og tækjum á meðan við leigðum jörðina svo eitt stykki jörð á lánum varð auðvitað mikið basl til að byrja með,“ segja þau og brosa. ,,Fjósið var gamalt og hefði þurft mikillar viðgerðar við en þar sem mjólkurkvótinn var lítill ákváðum við að hætta kúabúskap. Þá keyptum við vörubíl og Guðmundur tók að sér ýmiss konar verkefni fyrir aðra sem verktaki.“
Nú er komið að hlutverkaskiptum á Klausturhólum því Helga mun taka formlega við búinu af foreldrum sínum næsta haust ásamt Aroni eiginmanni sínum eftir 40 ára búsetu foreldra hennar. En foreldrarnir fara hvergi því þau eru að byggja lítið hús á jörðinni og munu hjálpa unga fólkinu áfram eins og áður.
Jarðskjálftinn 2000

Þórleif og Guðmundur eru að byggja lítið hús sem þau ætla að flytja í þegar unga fólkið tekur við í haust.
Í jarðskjálftunum sem urðu árið 2000 var ljóst að fjölskyldan gat ekki búið í gamla húsinu lengur. Þá tóku þau Þórleif og Guðmundur til við að byggja nýtt hús fyrir fjölskylduna en fluttu í millitíðinni í hús móður Þórleifar neðar í landinu, en hún bjó hjá þeim á meðan hún lifði. Nú býr Guðgeir, bróðir Þórleifar, í því húsi með fjölskyldu sína en hann er smiður og hefur byggt við það. Þau Helga og Aron hlakka til að hreiðra um sig í nýja húsinu með 13 ára dóttur og 8 ára syni.
,,Unga fólkið flutti fyrst inn á okkur, eftir að hafa búið uppi á Borg frá 2008 til 2024 og nú búum við inni á þeim,“ segja hjónin og eru augljóslega stolt af börnum sínum. Helga bætir hlæjandi við að hún hljóti nú að fara að losna við þau úr húsinu. ,,Svo vitum við ekkert hvernig sambúð okkar hjóna gengur í nýja húsinu af því við höfum eiginlega aldrei búið ein,“ segir Guðmundur og hlær.
Helga er að útskrifast sem búfræðingur frá Hvanneyri í vor en vinnur líka hjá bróður sínum Jóhannesi, sem er jarðvinnuverktaki með gröfur og vörubíla. Þórleif bætir við að Helga hafi drifið í að taka meiraprófið og stóra rútuprófið áður en hún fór að vinna hjá bróður sínum svo hún gæti nú tekist á við alveg sömu verkefni og ,,karlarnir“.
Þórleif og Guðmundur hafa bæði unnið aðra vinnu með bústörfunum lengst af. Hún á skrifstofu sveitarfélagsins á Borg frá 1991 og hann hefur séð um skólaaksturinn í mörg ár og hyggst gera það áfram um sinn.
Eru í sauðburðarfríi

Helga og Aron voru búin að eltast talsvert við þessa kind en loksins náðist hún í stíuna þar sem henni var hjálpað
Nú eru bæði Helga og Aron í ,,sauðburðarfríi“ en það er frí sem vinnuveitendur gefa starfsmönnum sem eru líka með sauðfjárbúskap. ,,Nú vakir Helga yfir ánum allan sólarhringinn,“ segja Þórleif og Guðmundur en á bænum eru nú tæplega 200 ær. Guðmundur segir að til þess að sauðfjárbúskapur geti borið sig almennilega þyrftu ærnar að vera 800 – 1000 en Þórleif bætir við að það myndi nú kalla á töluvert meira umstang. ,,Nú eru ekki nema um 50 ær eftir óbornar svo þessi törn er alveg að verða búin,“ segir Helga en ljóst er að sauðburðurinn er ekki kvöð fyrir unga fólkið heldur fylgir honum líka ánægja.
Sauðburðurinn er kúnst

Lömbin eru mörkuð og liturinn á merkinu fer eftir búfjársvæðum. Á þessu svæði er liturinn fjólublár.
Þórleif útskýrir fyrir blaðamanni, sem er alinn upp á mölinni, hvernig sauðburðurinn gangi fyrir sig. Hún fær spurninguna hvort alltaf sé vitað hvaða hrútur eigi hvaða lamb? Þórleif er umburðarlynd á svip þegar hún segir: ,,Já já, það er bara hleypt til á fyrir fram ákveðnum degi og allt merkt og flokkað. Hrútarnir eru teknir inn á haustin og hleypt er til í desember. Þá er skipt niður í fjögur holl og allt merkt skilmerkilega svo vitað er nákvæmlega hvaða lömb koma undan hvaða hrút.“
Blaðamanni voru sýndar aðfarirnar við sauðburðinn og gat ekki varist hugsuninni um að fæðing sé alltaf undur, sama hvaða dýrategund eigi í hlutæ, en að þessi vinna sé ekki á allra færi. Helga segir að nú séu nokkrir bændur að rækta svokallað feldfé en þá sé það ullin sem skipti mestu máli en ekki kjötið. ,,Nú sjást kindur úti í náttúrunni í fleiri litum en á tímabili vildu framleiðslufyrirtækin bara hvítt og lita ullina svo í alls kyns litum. En stór hluti ferðamanna vill núna náttúrulegu litina og þá eru þeir ræktaðir upp aftur,“ segir Helga.
Helga nær í lamb

Helga þreifar inni í kindinni.
,,Mér sýnist ég þurfi núna að draga úr,“ segir Helga allt í einu því hún þóttist sjá að lambið vildi út en að kindin ætti í erfiðleikum. Hún hafði verið búin að fylgjast með þessari kind og var búin að ná henni í sérstaka stíu þar sem hún ætlaði að hjálpa henni. Kindin vildi ekki láta ná sér svo þau Helga og Aron voru búin að elta hana nokkuð áður en þau náðu henni. Helga þóttist sjá að staðið gæti á lambinu og í ljós kom að lömbin voru tvö. Aðfarirnar þótti borgarbarninu vera allsvakalegar en Helga bretti bara upp ermarnar og óð inn í kindina. Þar fann hún lítinn fót og fann líka við þreifingu að á lambinu voru lítil horn sem hún sagði að væri gott því þá gæti hún fest þar til gert band í hornin og svo undir kjálkann á lambinu. ,,Á þann hátt er ekki hætta á að ég hengi lambið,“ sagði hún. Þannig gat Helga togað ákveðið í og brátt skaust út lítið fallegt, svartflekkótt eða krúnótt lamb. Krúnótt af því það var hvítur flekkur á höfðinu. Kindin byrjaði strax að ,,kara“ lambið en blaðamaður mundi eftir að hafa lært það orð í skóla forðum daga og sló brosandi um sig og sagði: ,,Já sko, kindin er bara strax farin að kara lambið“ og Helga leit undrandi upp á blaðamanninn en var strax farin að undirbúa komu annars lambs. ,,Þetta var Helga búin að læra allt áður en hún fór í námið í búfræðinni,“ segir Þórleif stolt af dóttur sinni.

,,Lömbin eiga að koma út eins og þau séu að stinga sér til sunds,“ segir Helga.
Lífið ein allsherjar núvitund

Nýfætt ungviðið bíður þess að móðirin sýni þvi áhuga.
Þegar líf fólksins á Klausturhólum er borið saman við líf þar sem hraði og mikil afköst eru mest um verð er ekki laust við að samanburðurinn verði hæglætislífinu í hag. Tilfinningin eftir að hafa upplifað sveitalífið í einn dag er óneitanlega góð og falleg. Auðvitað er lífið í sveitinni oft erfitt en þegar allir hjálpast að, eins og fólkið á Klausturhólum gerir, verður útkoman bæði góð og falleg.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.