Fegurðin í hinu smáa og sálfræðilegur óhugnaður

Þau eiga ekki margt sameiginlegt Philippe Delerm og Shirley Jackson en bæði voru frábærir rithöfundar hvort á sinn hátt. Það er verulegur fengur í að bækur eftir þau hafa verið þýddar á íslensku en báðar eru krefjandi og skilja eftir langvarandi áhrif hjá lesandanum.

Philippe Delerm

Fegurðin í litlu hlutunum

Það er í litlu hlutunum sem lífshamingjuna er að finna er okkur sagt milli þess sem fólk er hvatt til að njóta stundarinnar, lifa í núinu. Auðvitað er þetta alveg rétt og hafi maður ekki sannfærst um sannleiksgildið fyrir löngu er maður fullviss um það þegar síðasta blaðsíða Fyrsta bjórsopans og fleiri smálegra lífsnautna eftir Philippe Delerm hefur verið lesin.

Hér er um að ræða safn smásagna eða kannski réttara sagt smámynda þar hversdagslegir og við fyrstu sýn lítilfjörlegir hlutir eru tíundaðir, eins og fyrsti freyðandi bjórsopinn, indæl eplalykt, innöndun, afhýðing bauna, lestur og svo ótalmargt fleira, smálegir atburðir sem lita líf okkar en við hættum að taka eftir, hættum að meta. Það er svo auðvelt að gleyma hvernig lykt getur fært okkur aftur í tíma, eða hljóð eins og dýnamór á hjóli getur vakið með okkur tilfinningu hreykni yfir að hafa loks náð valdi á því að hjóla og geta lagt dýnamóinn að dekkinu og horfa á ljósið frá luktinni þegar hjólað er áfram eða að finna gamla peysu og muna hvernig það var að klæðast henni í fyrsta sinn.

Allar þessar tilfinningar og fleiri til vekur Philippe með sínum listilega dregnu smámyndum. Hann minnir okkur á að nota skilningavitin, njóta þeirra, taka eftir minnstu smáatriðum lífsins og átta okkur á því að þau eru mynstrið og litirnir sem byggja upp fagurlega ofinn vef mannlegrar tilveru. Þessi bók var skrifuð árið 1997 og á jafn vel við í dag og þá. Hún er frábærlega þýdd af Friðriki Rafnssyni og fagurlega myndskreytt af Jean-Philippe Delhomme. Myndirnar eiga einhvern veginn svo einstaklega vel við hverja sögu og setja á þær bæði svip og bæta við aukinni ánægju, eru kirsuberið á kökunni.

Þessar sögur eru svo fjölbreyttar og skemmtilegar að hver lesandinn kemur til að finna nokkrar sem hann tengir alveg sérstaklega við og eina sem situr sérstaklega í minninu og vekur minningar. Philippe Delerm hefur ljóðrænan og mjög myndrænan stíl. Það er alveg merkilegt hversu miklar tilfinningar stutt lýsing á hversdagslegu atviki getur vakið.

Shirley Jackson

Spenna og óhugnaður

Við höfum alltaf átt heima í kastalanum eftir Shirley Jackson er í senn spennandi og dulúðug. Ekki ólíkt því sem oft er í bókum Stephen King eða Yrsu Sigurðardóttur eiga sér stað bæði raunsæir atburðir og dularfullir jafnvel yfirskilvitlegir.

Á yfirborðinu er þetta saga af Blackwood-fjölskyldunni. Harmleikur hefur átt sér stað og aðeins þrír einstaklingar eru eftir, systurnar, Constance og Merrikat eða Mary Katherine og föðurbróðir þeirra Julian. Allir hinir dóu vegna arsenikeitrunar sem rakin var til sykurs í sykurkari sem fólkið stráði yfir brómber sem boðið var upp á í eftirrétt. Merrikat hafði verið send upp í herbergið sitt vegna skammarstriks og bannað að borða, Constance notaði ekki sykur og Julian fékk sér það lítið að hann lifði af.

Þær gætu ekki verið ólíkari systurnar. Constance þjáist af víðáttufælni, hún þorir ekki að hætta sér út fyrir garðinn þeirra, Julian er lamaðar og notast við hjólastól en Merrikat er skapandi áhugasöm um lífið og umhverfi sitt en fær ekki notið sín vegna þess að íbúar bæjarins hata Blackwood-fjölskylduna og í hvert sinn sem hún fer til að kaupa inn eða á í samskiptum við bæjarbúa verður hún fyrir ofsóknum. Fólkið í bænum er þess fullvisst að Constance hafi drepið foreldra sína, bróður sinn og Dorothy eiginkonu Julians. Þegar lögreglan kom á staðinn kom nefnilega í ljós að hún hafði þvegið sykurkarið og gaf þá skýringu að það hafi verið könguló í því. Merrikat gerir sitt besta til að vernda fjölskylduna með því að grafa alls konar verndar- og töfragripi í garðinum. Hún er einnig haldin þráhyggju og þarf að endurtaka vissar rútínur á hverjum degi. Þegar Charles frændi þeirra kemur í heimsókn og hefst handa við að sannfæra Constance um að hún geti lifað venjulegu og hamingjuríku lífi skapast spenna sem getur ekki annað en endað illa.

Þetta er heillandi saga sem heldur manni föngnum, svolítið reyndar eins og ég ímynda mér að slanga nái að dáleiða væntanlegt fórnarlamb sitt. Það er ekki hægt annað en að halda áfram að lesa en samt býst lesandinn við einhverju óhugnanlegu á hverri stundu og svo dynur ógæfan aftur yfir.

Shirley Jackson er þekktust fyrir sögu sína, The Haunting of Hill House. Ansi óhugnanleg draugasaga sem gerð var kvikmynd eftir árið 1963 með Julie Harris og Richard Johnson í aðalhlutverkum. Við höfum alltaf átt heima í kastalanum var einnig kvikmynduð og sú mynd var frumsýnd árið 2019. Sjálf átti Shirley við bæði andleg og líkamleg veikindi að stríða og margir hafa viljað túlka systurnar Connstance og Merrikat sem tvær hliðar á persónuleika höfundar. Önnur forvitin, full löngunar til að skoða heiminn og skapa en hin róleg, heimakær og fullkomlega sátt við að vera sú sem fórnar sér fyrir aðra og sýnir þeim umhyggju. Shirley Jackson lést árið 1965 aðeins 49 ára gömul.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.