Allt er fertugum fært og fimmtugum vel gerandi 

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar

 

Andy Rooney heitinn, hinn skeleggi pistlahöfundur fréttaþáttarins 60 mínútna, vakti oft athygli fyrir hnitmiðaða hugsun og skýra, beitta greiningu á málefnum. Eitt sinn snerist pistill hans um hversu óskiljanlegt honum þætti að menn á hans aldri sæktust eftir ástarsamböndum við sér mun yngri konur en litu ekki við jafnöldrum sínum. Andy benti á að konur yfir fimmtugt væru lausar við sálarflækjur, komplexa og duttlunga sem hinar yngri létu stundum eftir sér, enda hefði lífið ekki enn náð að kenna þeim  umburðarlyndi og yfirvegun. Lítum á nokkra kosti þess að fylla sjötta áratug ævinnar. Sjálfur var að hann vinna fram í andlátið og naut þess að miðla þeim viskumolum sem hann hafði tileinkað sér á langri ævi.

Andy benti einnig á að eldra fólk hefði lært að gera ekki úlfalda úr mýflugu og að auki komið auga á þau sannindi að flestar uppkomur væru í mýflugumynd og sárafáir úlfaldar á ferðinni. Fólk yfir fimmtugt og sextugt gerir sér grein fyrir að það þarf ekki að eiga maka. Það veit að það er allt í lagi að fara hvert sem það langar til án þess að hafa endilega einhvern sér við hlið. Jane Fonda sagði í viðtali við Opruh að hún hafi verið komin hátt á sextugsaldur þegar henni varð loksins ljóst að hún þyrfti ekki að vera í ástarsambandi. Ástin ætti að gera líf kvenna betra en ekki leggja á þær fjötra. Hún sagði alltof algengt að konur reyndu af alefli að geðjast mönnunum í lífi sínu en gleymdu sjálfum sér. Þetta er góða lexía og margir ferðast núorðið einir, fara í leikhús, bíó og á kaffihús án þess að finnast það tiltökumál.

Shirley W. Mitchell höfundur bókarinnar Fabulous After 50 and Sensational After 60 bendir á að konur geti auðveldlega fengið sér nýja hárgreiðslu, klæðst þeim fötum sem falla að þeirra smekk og sótt um störf sem þær langar til að vinna hvenær sem er á ævinni. Sá sem beygi sig undir aldursfordóma verði gamall einungis þess vegna. Í sama streng tekur Nancy O’Reilly þekktur sálfræðingur og lífstílsérfræðingur í Bandaríkjunum. Hún bendir á að hver og einn geri upp við sig hvort hann kjósi að nota botox eða gangast  undir lýtaaðgerðir. Hver og einn verði að vera eins og hann kýs sjálfur. Fjölbreytnin sé af hinu góða og kannski fínt að prófa að vera rauðhærð eina vikuna og ljóshærð þá næstu. Hið sama á auðvitað líka við um karlmenn. Þeir geta fengið sér tattú, hárígræðslu eða litað hárið ef þeim sýnist svo. Þótt einhverjum kunni að blöskra uppátækin þá sé fólk yfir fimmtugt svo heppnið að þurfa ekki að taka ráðleggingum annarra.

Draumarnir rætast og stigin ný skref

Sífellt fleiri taka sig til og finna lífi sínu nýjan farveg eftir fimmtugt. Þeir stofna fyrirtæki, skrifa bækur, leikstýra bíómyndum, skrifa eigin handrit og margt fleira. Lífsreynsla þeirra er banki sem gerir þeim kleift að nýta tækifærin.

Fólk yfir fimmtugt er mjög öflugur neytendahópur. Það hefur oft rýmri fjárráð en hinir yngri og mótaðan smekk. Sífellt fleiri auglýsendur eru að vakna til vitundar um þetta og tala orðið beint til eldra fólks. Víða í hinum vestræna heimi stendur fólk á þessum aldri einmitt á tindinum sem það hefur stefnt að. Um fimmtugt eru menn og konur orðnir forstjórar, framkvæmdastjórar, deildarstjórar og sviðstjórar. Að auki hefur viðkomandi öflugt tengslanet á bak við sig og eru fljótur að láta vinina vita af góðri þjónustu eða fallegri nýrri verslun. Smekkurinn er mótaður hjá þessu fólki og það kaupir bíla, húsgögn, bækur, íþróttavörur, matvæli, gjafir, snyrtivörur og föt. Andy Rooney benti í sínum pistli á að rauður varalitur klæddi eldri konur vel en hið sama gæti hann ekki sagt um bráðungar konur. Auðvitað er það smekksatriði en rauður varalitur er merki um dirfsku og ákveðni og því ekki að senda þau skilaboð út í heiminn.

Rannsóknir sýna að sköpunarkrafturinn dofnar ekki þegar aldurinn færist yfir, þvert á móti. Mjög margir listamenn hafa skilað sínum bestu verkum þegar þeir hafa verið komnir yfir fimmtugt. Á þeim aldri hafa þeir lært öguð vinnubrögð og tækni sem gerir þeim kleift að koma hugmyndum sínum á framfæri á öflugan hátt. Flestir hafa einnig lært að treysta á sjálfan sig og eru ekki lengur hræddir við breytingar. Ef menn gæta vel að heilsunni er engin ástæða til að hætta að gera það sem þeir hafa gaman af. Nefna má að kona á níræðisaldri tók þátt í keppninni X-factor í Englandi, dansaði við sér mun yngri mann og heillaði dómarana upp úr skónum. Mörg fleiri dæmi eru um að roskið fólk stigi á svið í sambærilegum þáttum og slái í gegn. Sumum finnst fólk líka verða fallegri með árunum og samkvæmt rannsóknum eru flestir eru sáttari við útlit fimmtugir en tvítugir.

Ástin er heldur ekki bara fyrir hina ungu. Fólk verður ástfangið á öllum aldri og hættir aldrei að hafa gaman af félagsskap. Kímnigáfan er líka eitt af því sem verður betra með aldri. Hún slípast og hláturinn verður bjartari, hærri og innilegri. Margt fleira mætti eflaust tína til sem telst gott við það að eldast en einhvers staðar verður líka að láta staðar numið. Hins vegar er alveg víst að það blessun að fá að verða gamall.