Farinn að stoppa á rauðu ljósi – sjötíu og sex ára

Ef hægt er að segja að líf sumra sé fast í öðrum gír má áreiðanlega fullyrða að aðrir lifi í þriðja og fjórða. Sigurður Friðriksson eða Diddi Frissa hefur hins vegar alla tíð ekið í fimmta gír og kann ekki að slaka á. Hann byrjar hvern dag í ræktinni, rekur umsvifamikil fyrirtæki sem taka allan hans tíma eftir það hvern dag ársins. Ólíkt flestum sér hann ekki fyrir sér letilíf á sólarströnd sem einhvers konar sælu. Vinnan er hans áhugamál, ástríða og nauðsyn.

Nýlega kom út lífssaga Didda eftir Ásmund Friðriksson. Bókin ber titilinn Lífssaga Didda Frissa – kröftugur til sjós og lands. Þetta er fjölbreytilegt lífshlaup. Hvað fannst honum sjálfum þegar Ásmundur kom að máli við hann og vildi skrifa um hann bók? Fannst honum líf hans hafa verið ævintýraríkara en annarra?

„Nei, ég veit það nú ekki,“ segir hann. „En það var búið að biðja mig um þetta áður. Annar maður vildi líka skrifa bók um mig en ég var ekki alveg tilbúinn til þess þá. Samt eru ekki mjög mörg ár síðan, kannski svona fjögur ár. Ég var kominn í land og kynntist þessum manni og var í miklum samskiptum við hann. Honum hefur augljóslega þótt líf mitt eitthvað skrautlegt því honum langaði að skrifa um það. Þetta kveikti kannski í mér einhvern neista og hugmynd um að ég hefði eitthvað merkilegt fram að færa. Ég gerði mér aldrei neina grein fyrir að það væri eitthvað stórkostlegt.“

Skrápurinn harður

En hvert einasta lýsingarorð sem inniheldur stór á einmitt vel við Didda. Hann hefur horfst í augu við dauðann og verið hætt kominn oftar en allur þorri manna. Ef kötturinn hefur fengið úthlutað níu lífum má ábyggilega tvöfalda skammtinn þar sem Diddi er annars vegar. Ýmis upptæki hans í æsku voru fífldjörf í meira lagi og eftir að hann komst á fullorðinsár komst hann í krappann bæði á sjó og landi.

„Ég held að ef maður á svona ævi eins og ég hef átt, hefur lifað svona hörðu lífi, þá bítur ekkert á mann. Þegar skrápurinn harðnar svona strax í æsku verður svo erfitt að fara í gegnum mann. Það er eiginlega ekkert sem maður hræðist í lífinu þegar maður er búinn að ganga í gegnum svipað og ég gerði strax barn að aldri. Maður er kominn með markið.“

Diddi er fæddur og uppalinn í Sandgerði. Hann er lesblindur og á uppvaxtarárum hans var ekki mikill skilningur á því. Hann átti líka erfitt með sitja kyrr og taka þátt í skólastarfi. Hann fór því fljótlega að skrópa og komst upp með það. Öll árin í barnaskóla var hann rekinn úr skólanum. Formlegri skólagöngu hans lauk þegar hann var tólf ára. Sennilegt er að ef Diddi væri að alast upp núna væri hann með ótal greiningar og á einhverjum lyfjum.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um það,“ segir hann og hlær.

„En svo bara leikur maður trúðinn“

En fannstu fyrir því þegar þú varst krakki að þú værir öðruvísi, skærir þig úr?

„Já, ég fann það strax. Fann að ég var öðruvísi sérstaklega vegna þess að ég gat ekki lesið. Það háði mér mjög framan af. En svo bara leikur maður trúðinn. Ég var svona vandræðagemlingur sem enginn gat ráðið við.“

Var það meðvituð uppreisn hjá þér eða vissir þú ekki að gast ekki betur, náðir ekki að falla í formið og beygja þig undir agann?

„Nei, ég gerði mér enga grein fyrir því,“ segir hann alvarlegur. „En auðvitað er ég búinn að hugsa um það allt mitt líf hvernig ég var sem krakki og ég hef ekki komist neinni sérstakri niðurstöðu annað en það að ég er með þessar greiningar. Ég er haldinn gríðarlegri ofvirkni og það enn í dag. Ég þarf að fara í ræktina á hverjum einasta degi og hreyfa mig í helst einn til tvo klukkutíma áður en ég byrja daginn. Svona var þetta líka á sjónum. Ég varð að róa helst hvern einasta dag. Ég gat ekki verið í landi. Ég varð að vera á fullu spítti til að fúnkera í lífinu. Ég á sjö ára gamla dóttur og hún sagði við mig í síðustu viku: „Pabbi, þú ert farinn að stoppa á rauðu ljósi.“ Sjötíu og sex ára gamall bara si svona farinn að gera það. En ég er búinn að vera að flýta mér upp á hvern einasta dag. Alla daga lífsins er ég á hraðferð.“

Diddi var skipstjóri um langt árabil og rak útgerð í Keflavík þar sem hann bjó.

Brennir engar brýr

Diddi starfaði lengst af við sjómennsku og rak um árabil eigin útgerð í Keflavík þar sem hann bjó lengst af. Hann fór fullorðinn í Stýrimannaskólann og lauk þaðan prófi. Það tókst þótt lesturinn háði honum en þegar kom að aflabrögðum og fiskni var hins vegar annað uppi á teningnum. Diddi fyllti bátinn af rækju þótt aðrir fengju ekki neitt. Að þessu leyti naut hann mikillar velgengni sem er svolítið sérstakt því margir með ofvirkni og athyglisbrest eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Sumir leiðast út í vímuefnaneyslu og missa allt frá sér.

„Ég lenti í töluvert mikilli neyslu og hjónaskilnaði en ég missti ekki frá mér eigur. Var virkilega vel stæður.“

En þú nærð ekki að brenna allar brýr að baki þér, eins og sumir. Þú og fyrrverandi konan þín eruð góðir vinir og hún ber þér vel söguna í bókinni.

„Já, við eigum í góðu sambandi og nánast allt fólk sem ég hef umgengist í lífinu eru góðir vinir mínir í dag. Skipshöfnin sem var hjá mér í áratugi eru félagar mínir enn. Ég myndi því ekki segja að ég brenni brýr að baki mér. Fyrra hjónaband mitt var bara búið, eins og hjónabönd bara enda. Ég var hættur að drekka og orðinn annar maður. Við fundum ekki taktinn og það var ekki lengra farið þar. Bara mjög gott mál þegar svo er komið að gea sér grein fyrir stöðunni og fara strax að vinna úr henni. Börnin okkar voru upp komin og svo sem ekkert sem hélt í okkur nema vinátta.“

Alltaf í leit að tækifærum

Eftir að Diddi kom í land hóf hann hótelrekstur og átti lengi hótel við Laugaveg. Dag nokkurn barst honum kauptilboð í hótelið og tók því umsvifalaust. Þannig tekur Diddi flestar ákvarðanir en þar með var hann ekki hættur í dag rekur hann hótel á Skógum, bíleigur og rútufyrirtæki. En er hann ekkert farinn að hugsa til þess að hætta að vinna?

„Það er svo skrýtið að alla daga ársins er ég að leita að einhverjum tækifærum til að gera eitthvað og ég er alltaf að kaupa eitthvað, kaupa og kaupa. Það sem af er árinu hef ég keypt 200 nýja og nýlega bíla. Ég er sem sagt að reka þúsund bíla bílaleigu og rútufyrirtæki með þrjátíu rútur. Ég er með þrjú bílaverkstæði og þrjú dekkjaverkstæði og hótelið austur á Skógum.“

Og þú getur ekki hætt?

„Nei, áhugamál mitt er vinnan,“ segir hann með áherslu. „Ég hef aldrei getað farið utan og ferðast til að slappa af. Það hefur kannski háð mér að hafa ekki getað kúplað mig út og gert eitthvað annað. Þegar öflugt og kraftmikið starfsfólk er með manni verða afköstin helmingi meiri. Ég hef mjög magnað teymi með mér. Þar fer fremst Hulda Dís Snorradóttir sem er framkvæmdastjóri og fer með öll fjármál fyritækisins, Valdís Valgarðsstóttir sér um allt bókhald og reikninga fyrir rútufyrirtækið og hótelið, Agnieska Poslebik sér um verðstýringu og reikninga fyrir bílaleiguna, Einar Hallsson um öll markaðsmál, Magnús Ásmundsson um rútufyrirtækið og Marta Ramirez-Martin um hótelið. Bjarni Þór Sigurjónsson sér um öll bílasölumál. Guðmundur Snorri Sigurðsson er rekstrarstjóri auk fjölmargra annarra sem hafa unnið með mér og í mínu fyrlrtæki í fjölmörg ár.“

Diddi með konu sinni, Evelyn, dætrunum, Lóu Kristínu, Ragnheiði, Hafrúnu, Amöndu og Sophie og barnabörnum.

Verður að hreyfa sig

Kona Didda, Evelyn Rojas Tagalog, er frá Filippseyjum. Þau kynntust hér og eiga saman tvær dætur, Amöndu og Sophie. Frá fyrri hjónabandi á hann dæturnar, Lóu Kristínu, Ragnheiði og Hafrúnu. Barnabörnin eru orðin tíu.

„Já, við, Evelyn, kynntumst örskömmu eftir að ég geng í gegnum skilnað. Hún var tiltölulega nýorðin ekkja þegar leiðir okkar lágu saman. Hún er mikill vinnuhestur líka og sér innkaupin á hótelinu og svona. Hún vildi nú gjarnan að ég færi svona örlítið að slaka á. Þetta kostar það að þegar hún fer í frí er ég bara að vinna. Hún er að fara í frí í maí og ég verð hér. Ég fór reyndar í frí í febrúar í eina viku en þá fór ég bara með starfsfólkið með mér,“ segir Diddi og hlær.

Það var sem sé allt heila galleríið tekið með þegar farið var í frí. Eins og komið hefur fram fer Diddi í ræktina á hverjum degi og hann gerir meira. Hann stundar sjósund og hefur baðað sig í sjónum víða undan ströndum landsins. Hann er með gigt og segir þetta hjálpa mikið við að halda sjúkdómnum niðri.

„Ég er með mjög slæma gigt. Ég greindist með hana ungur maður. En nú eru komin mjög góð lyf og þau halda mér bara góðum og ekki nóg með það heldur hefur markviss og mikil hreyfing líka góð áhrif á gigtina. Ég er með sumarbústað á Þingvöllum og fólk á erfitt með að skilja að ég verð að hreyfa mig á hverjum degi. Ég gisti þess vegna aldrei í bústaðnum. Er þar yfir daginn en fer heim á kvöldin til að komast í ræktina að morgni. Ég bara verð að hreyfa mig á fullu kani.“

Bjargaði manni og hrossi

Diddi er mikill dýravinur og í lífssögu hans er sögð falleg saga af hrossi, á bænum þar sem hann var í sveit. Þetta var gallagripur og engin leið að temja hann eða venja. Til stóð að senda hrossið í sláturhúsið. Það þótti Didda ómögulegt og hann gekk þess vegna á hverjum degi í gerðið til hestsins þar til honum tókst að ná til hans og temja hann. Þannig bjargaði hann lífi dýrsins.

„Já, það var yndislegt,“ segir Diddi. „Ég er dýravinur. Ég er til dæmis ekki skotveiðimaður. Ég get ekki skotið dýr.Það var eitthvað af dýrum heima þegar ég var barn en það var lítið. En það voru hundar nánast í hverju húsi í Sandgerði en það voru ekki gæludýr eins og nú er. Þetta er svo breytt þjóðfélag í dag. Ég á fjóra hunda í dag, svona litla heimilishunda.“

Hesturinn er ekki eina lífveran sem hann hefur bjargað um ævina. Rafn Arnar Guðjónsson lýsir því í bókinni hvernig Diddi bjargaði honum frá drukknun með því hreinlega að gogga hann aftur um borð þegar hann flaug af stað útbyrðis. Já, það er óhætt að segja að ótalmargt hafi á daga þessa ótrúlega framkvæmdamanns drifið. Þótt skólagangan hafi ekki verið löng er Diddi sagður talnaglöggur, fljótur að sjá tækifæri í viðskiptum, útsjónarsamur og duglegur. Hann er líka hlýr og umhyggjusamur. Í mörg ár hefur hann setið í stjórn SÁÁ og þegar hann kom úr meðferð byggði hann húsið sem áfangaheimilið Vin er rekið í og leigir það samtökunum. Það virðist sama hvar Diddi leggur gjörva hönd á einhver verk þar blómstrar allt. Undir niðri leynist þó alltaf sársauki barnsins sem taldi sig vanmáttugt og ekkert geta. Hann á því næga samúð með þeim sem verða undir í lífinu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 10, 2024 07:00