Kyntáknið sem passaði ekki í boxið

Raquel Welch kom fram þegar Hollywood var í leit að arftaka Jean Harlow og Marilyn Monroe. Allir mógúlarnir voru skimandi eftir ljóshærðri íturvaxinni ungri konu og það kom flestum þeirra á óvart að auglýsingaplakat fyrir fremur lélega B-mynd sigraði heiminn og skyndilega var konan á myndinni á forsíðu allra vinsælustu tímarita þess tíma. Raquel Welch var dökkhærð, einstaklega glæsileg en ekki þeirrar gerðar að hægt væri að skipa henni í hlutverk heimsku ljóskunnar. Nýlega var frumsýnd heimildakvikmyndin I am Raquel um líf hennar og störf og þar kemur margt áhugavert í ljós.

Myndin sem Andy Dufresne hengdi upp í klefa sínum í Shawshank Redemption.

Undanfarið hefur RÚV sýnt þætti um líf Marilyn Monroe, Marilyn Monroe; Reframed. Þar er bæði talað við fólk sem þekkti stjörnuna og einstaklinga sem hafa stúderað líf hennar. Allir eru sammála um að hún hafi verið stórlega vanmetin. Marilyn hafi verið greind, hæfileikrík og sjálfstæð manneskja. Fæstir hafi hins vegar áttað sig á því vegna þess að fegurð hennar og kynþokki hafi í hugum fólks á þessum árum óhjákvæmilega verið tengdur við heimsku. Raquel glímdi að vissu marki við það sama en orðheppni hennar og hæfni til að stíga ævinlega út fyrir rammann gerði það að verkum að aldrei var hægt að setja hana í sama box og ljóskurnar.

Það var kvikmyndin, One Million Years B.C., sem kom Raquel rækilega á kortið. Þetta er endurgerð á gamalli Hollywood-mynd og á að gerast á tímum þegar risaeðlur og menn lifðu á jörðinni en eins og flestir vita voru risaeðlurnar löngu útdauðar þegar forsögulegir menn risu upp á afturfæturnar og tóku að ganga uppréttir. Myndin var gerð árið 1965 og upptökur fóru fram á Kanaríeyjum. Það var svo árið eftir sem auglýsingaplakatið af Raquel í skinnbikiníi fór í dreifingu og það er einmitt myndin sem Andy Dufresne í túlkun Tim Robbins notaði til að hylja holuna í fangaklefanum í Shawshank Redemption. Svo lífseig hefur þessi mynd reynst að enn er verið að selja eftirprentanir af henni.

Jo Raquel Terjada var af bólivískum ættum föður síns megin.

Ólst upp við heimilisofbeldi

En hver var þessi kona sem náði að fanga svo rækilega athygli manna og kvenna um allan heim? Raquel fæddist 5. september árið 1940. Foreldrar hennar voru Josephine Sarah Hall og Armando Carlos Tejada Urquizo. Hún átti ættir að rekja í móðurætt til fyrstu innflytjendanna sem komu með Mayflower til Ameríku en faðir hennar var af bólivískum uppruna. Raquel eignaðist síðan bróður, James og systurina Gayle. Fjölskyldan bjó í San Diego í Kaliforníu. Pabbi hennar var menntaður loftferðaverkfræðingur og þau tilheyrðu því miðstétt.

Raquel ólst upp við heimilisofbeldi. Pabbi hennar var ákaflega stjórnsamur og sleppti sér ef heimilisfólk gerði ekki það sem hann vildi. Hún sagði frá því síðar á ævinni að viðurkenningu hans og ást hefði þurft að kaupa með því að standa sig vel, gera allt vel. Upp úr sauð þegar Raquel var unglingur og pabbi hennar kastaði fullu mjólkurglasi í andlit móður hennar við matborðið. Hún hafði oft áður orðið vitni að sambærilegri framkomu og blöskrað en í þetta sinn ákvað hún að gera eitthvað. Hún stóð upp sótti skörunginn við arininn og hótaði föður sínum að berja hann með honum ef hann léti ekki af þessari hegðun. Upp frá því sýndi Armando Carlos Tejada Urquizo fjölskyldu sinni meiri virðingu og hann lagði aldrei hendur á Raquel eftir þetta.

Raquel varð ástfangin af James Welch þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul. Hún hafði þá áttað sig á líkamsfegurð hennar var leið til að skapa henni atvinnu og tækifæri. Hún hafði tekið þátt í nokkrum fegurðarsamkeppnum, en þær voru mjög vinsælar á þessum tíma, og unnið í hvert sinn. Hún hafði einnig setið fyrir á ljósmyndum og hana dreymdi um starfsferil í kvikmyndum. Hún giftist James í maí árið 1959 og þau eignuðust sitt fyrsta barn, soninn Damon, í nóvember sama ár. Tveimur árum síðar fæddist Taranne sem alltaf var kölluð Tahnee. James var ekki hrifinn af því að kona hans ynni utan heimilis og alls ekki við fyrirsætustörf og kvikmyndaleik. Það varð til þess að upp úr hjónabandinu slitnaði. Raquel flutti til Los Angeles með börnin sín.

Raquel með mótleikara sínum Jim Brown en það vakti mikla hneykslun þegar hún kyssti hann og lék í ástaratriði á móti honum í myndinni 100 Riffles.

Var ráðlagt að leyna uppruna sínum

Það er ekki hægt að segja að hún hafi orðið stjarna á einni nóttu því hún hafði leikið smáhlutverk í bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum áður en One Million Years B.C. kom út. Henni var ráðlagt af umboðsmanni sínum að halda bólivískum uppruna sínum leyndum því fólk af suðuramerískum uppruna fékk ekki eins mörg tækifæri í Hollywood á þessum árum og hvítir. Eins var tilhneiging til bjóða konum með þann bakgrunn fábreytileg hlutverk sem byggð voru á staðalímyndum. Raquel átti seinna eftir að heimsækja Bólivíu og lýsa því í viðtölum hve hreykin hún væri af uppruna sínum. Frænka hennar, Lidia Gueller Tejada varð fyrsti kvenforseti Bólivíu árið 1979.

Á árunum 1966-1975 lék hún í fjölbreyttum myndum og var frumkvöðull á margvíslegan hátt. Meðal annars var eftir því tekið að hún lék öll sín áhættuatriði sjálf og í 100 Riffles lék hún leigumorðingja sem gaf körlunum ekkert eftir. Þar sýndi hún mikið fordómaleysi og hugrekki því hún lék í ástaratriðum á móti Jim Brown. Hann er þeldökkur og á þessum árum var Hollywood ekki hrifið af blöndun kynþátta og hvítir leikarar áttu eingöngu að kyssa hvíta leikara og hið sama gilti um þeldökka. Raquel sýndi sama óttaleysi árið 1970 þegar hún lék transkonu í Myra Breckinridge. Margir muna hana best fyrir hlutverk Constance Bonacieux í Three Musketeers. Constance var afskaplega klaufsk og það var virkilega erfitt fyrir Raquel að leika hana því sjálf var hún lipur, fim og sterk. Hún æfði ballet frá barnæsku og var ævinlega mjög góð í íþróttum, en viðleitni hennar bar árangur og fyrir þetta hlutverk fékk hún Golden Globe-verðlaunin árið 1975.

Á þessum árum var hún aftur og aftur kosin kynþokkafyllsta kona heims og hvarvetna sett á lista yfir heimsins mestu kyntákn. Hugh Hefner bauð henni fúlgur fjár fyrir að sitja fyrir á nektarmynd í miðjuopnu Playboy. Hún neitaði alltaf. Aðspurð í sjónvarpsviðtali um hvers vegna svaraði hún: „Ég er ekki sammála heimspeki hans.“ Þáttarstjórnandi spyr þá hvað henni finnist um Playboy. „Mér finnst pappírinn sem blaðið er prentað á vandaður,“ svaraði hún þá. Hún samþykkti loks myndatökur fyrir blaðið þegar hún var fertug. Blöð og tímarit höfðu þá keppst við að skrifa um að nú lægi leiðin niður á við fyrir Raquel því hún væri tekin að eldast og fegurðin að fölna. Hún ákvað þá að fara í myndatökuna, en neitaði að vera alveg nakin, því hún vildi sýna að konur væru bæði fallegar og kynþokkafullar þótt fertugsaldri væri náð. Inni í blaðinu voru einnig myndir af henni fullklæddri og var það í fyrsta sinn sem þannig myndir af aðalfyrirsætunni rötuðu í birtingu.

Starfsmissir og málarekstur

Fertugu fólki í dag kann að finnast þetta skrýtið en árið 1980 var viðhorfið allt annað. Þá var algengur frasi í kvikmyndaborginni að ef þú næðir ekki að slá í gegn fyrir þrítugt væri draumurinn úti og engin von um að geta skapað þér neinn starfsframa. Margar leikkonur upplifðu einnig að síminn hreinlega hætti að hringja eftir fertugsafmælið og engin bitastæð hlutverk buðust. Raquel var hins vegar á hátindi ferils síns en þá kom skellurinn. MGM ákvað að rifta samningi við hana um að leika aðalkvenhlutverkið í Cannery Row, kvikmynd gerðri eftir skáldsögu John Steinbeck. Raquel vissi að þetta var fyrst og fremst vegna aldurs hennar og hún kærði kvikmyndafyrirtækið. Allir spáðu því að þar með hefði hún grafið sína eigin gröf og engin von væri til að hún fengi vinnu aftur í þessum bransa. Raquel vann málið og fékk tæpar 12 milljónir dollara í skaðabætur. Í viðtali við sjónvarpsfréttamann eftir dóminn sagðist hún hafa farið í mál vegna þess að samningur væri samningur. Hann væri undirritaður til að skapa öryggi og báðir aðilar skrifuðu undir í góðri trú. Þess vegna væri hvorki sanngjarnt né rétt að hægt væri að svíkja samninga að ástæðulausu.

En þrátt fyrir sigurinn í dómsal gekk það vissulega eftir að Raquel voru ekki boðin kvikmyndahlutverk eftir að málinu lauk. Þá gerði hún sér lítið fyrir og flutti til New York og lék á sviði á Broadway, fyrst í Woman of the Year og síðan í Victor/Victoria. Hún tók við hlutverkinu í Woman of the Year af Lauren Bacall svo þar var hún að taka mikla áhættu með því að taka við af svo stórri stjörnu. Smátt og smátt fóru henni að berast tilboð í hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum aftur. Hún kom fram í Prúðuleikurunum, lék aukahlutverk í Seinfeld, brá fyrir í Naked Gun 33+1/3: Final Insult, Legally Blond og fleiri myndum. Þrátt fyrir að Raquel hafi unnið fram til ársins 2017 eru menn samt á einu máli um að málaferlin hafi haft neikvæð áhrif á feril hennar. Það að hún skyldi standa með sjálfri sér fór ekki vel í Hollywood-mógúla.

Raquel vildi aldrei kalla sig femínista en það var hún sannarlega. Frá upphafi vildi hún ekki vera háð karlmanni hvorki fjárhagslega né tilfinningalega og hún sá ein fyrir börnunum sínum, hélt heimili og byggði upp starfsferil. Það er einnig merkilegt að þetta kyntákn sem allir dáðust að var í raun feimin manneskja og ákaflega hógvær og prúð. Sumir myndu jafnvel hafa notað orðið penpía um hana. Vinir hennar lýsa þessu þannig að það hafi verið eins og hún hafi íklæðst öðrum persónuleika þegar hún þurfti að koma fram sem Raquel. Þeir eru líka sammála um að hún hafi verið einstakur húmoristi og mjög fyndin. Það hafi ekki síst sýnt sig í hversu viljug hún var að gera grín að sjálfri sér og ímynd sinni opinberlega. Hún var einnig ákaflega orðheppin og mjög vel þekkt hvernig hún stakk oft upp í fréttamenn sem spurðu hana heimskulegra spurninga.

Raquel var fjórgift en ekkert hjónabanda hennar entist. Hún var gift James Welch frá 1959-1964 en þau skildu á borði og sæng árið 1961 og gengu frá lögskilnaði árið 1964. Árið 1967 giftist hún Patrick Curtis en þau skildu fimm árum síðar. Þriðji maður hennar var André Weinfeld en þau giftu sig árið 1980. Ári síðar missti hún fóstur þegar hún dvaldi í fríi á eynni Mustique. Raquel var ein þeirra sem féllu fyrir þeirri fögru hitabeltiseyju og átti hús þar, eins og Margrét prinsessa, systir Elísabetar drottningar. Hún skildi við André árið 1990. Það var svo árið 1997 að hún kynntist Rich Palmer. Þau giftu sig tveimur árum síðar en skildu eftir fjögurra ára hjónaband. Raquel Welch lést úr hjartaáfalli árið 2023 áttatíu og tveggja ára gömul. Hún hafði þá um skeið þjáðst af alzheimer-sjúkdómnum. Börnin hennar fetuðu bæði í fótspor hennar og léku í nokkrum kvikmyndum. Damon dró sig fljótt í hlé og kláraði nám í tölvutækni og hefur unnið við það fag síðan. Tahnee lék í nokkrum myndum og þótti góð leikkona en hún dró sig í hlé árið 1999 og hefur haldið sig utan sviðsljóssins síðan.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.