Hún var vinsælasti barnabókahöfundur allra tíma og þótt J.K. Rowling komist næst henni í sölu og dreifingu bóka sinna hefur henni enn ekki tekist að fara fram úr Enid Blyton. Enn seljast bækur hennar í átta milljónum eintaka um allan heim en áður en Enid lést árið 1968 hafði hún selt um það bil 500.000 milljón eintök og bækurnar höfðu verið þýddar á 42 tungumál. Hún taldi sig ímynd stöðugleika í lífi barna, siðferðislegan kompás og manneskju sem skildi hugarheim barna öðrum fremur. Í einkalífinu var hún hins vegar köld og hafði engan áhuga á að sinna eigin dætrum.

Enid Blyton var einn afkastamesti rithöfundur allra tíma. Hún skrifaði um 700 bækur um ævina.
Nú á dögum hefur hún verið ásökuð um að vera rasisti, andfemínisk og með hommafóbíu. Víða hafa menn gripið til þess ráðs að endurskrifa hluta af sögum hennar og sleppa úr málsgreinum hér og þar sem ekki samræmast nútímahugsun. Á sinni tíð var hún hins vegar ásökuð um að hafa leigupenna í þjónustu sinni sem skrifuðu hluta bóka hennar því enginn gæti verið jafnafkastamikill höfundur og hún. Á stríðsárunum komu út eftir hana allt að ellefu bækur árlega og það þrátt fyrir pappírsskömmtun sem hún komst hjá með því að gefa út undir bæði nafninu, Mary Pollock og Enid Blyton hjá sjö mismunandi forlögum.
Bretar eiga máltæki sem er á þann veg að enginn ætti að hitta átrúnaðargoð sín því þau reynast sjaldan þær manneskjur sem við gerum okkur í hugarlund að þær séu. Þetta á einstaklega vel við um marga listamenn og umræðan um hvort hægt sé að njóta listaverk þótt menn viti að sá sem skapaði þau hafi ekki verið góð manneskja á sannarlega vel við um Enid Blyton.

Enid Blyton var aðeins þrettán ára þegar pabbi hennar yfirgaf fjölskylduna.
Dýrkaði föður sinn
Hún fæddist 11. ágúst árið 1897, var elst þriggja barna, Thomasar Carey Blyton og konu hans, Theresu Mary. Þau bjuggu í lítilli íbúð fyrir ofan verslun í East Dulwich í London. Enid var mjög náin föður sínum en hann sinnti henni af kostgæfni þegar hún nokkurra mánaða fékk kíghósta. Hann hafði mikinn áhuga á trjám, blómum, fuglum og dýrum og smitaði dóttur sína af þeirri ástríðu. Þau fóru oft í gönguferðir sem hann notaði til að fræða hana um gróðurinn og umhverfið. Hann kenndi henni líka að spila á píanó og um tíma hvatti hann dóttur sína til að verða atvinnupíanóleikari. Hjónunum kom illa saman því Theresa Mary hafði engan áhuga á bókum, náttúrunni, tónlist eða öðru sem maður hennar var heillaður af. Hún var góð húsmóðir en ákaflega ströng og siðavönd. Þegar hann yfirgaf Theresu Mary fyrir aðra konu var það Enid gríðarlegt áfall. Móðir hennar brást hins vegar við með því að neita honum um skilnað og segja öllum að maður hennar væri í söluferð.
Enid var aðeins þrettán ára en samband þeirra mægðna var stormasamt. Það varð til þess að Enid flutti að heima átján ára og sleit öllu sambandi við móður sína og bræður. Hún sagði fólki sem hún kynntist eftir það að móðir sín væri látin. Samkvæmt ævisögu hennar hafði hún þá trú að þegar eitthvað væri komið í þrot væri best að byrja upp á nýtt og þá með hreint borð. Enid bjó heima hjá vinkonu sinni, Mary Armstrong meðan hún gekk í kennaraskóla og lauk prófi þaðan. Enid var sískrifandi, enda var það hennar leið til að þrauka ósamlyndið og spennuna á æskuheimilinu og hverfa inn í eigin hugarheim og ímynda sér einhvern fallegan stað, gjarnan eyju þar sem bara væru börn og allir öryggir. Hún sagði bræðrum sínum þessar og fleiri sögur til að halda þeim rólegum meðan verstu rifrildin stóðu yfir.
Hún skrifaði greinar í tímarit og vann ritgerðarsamkeppni en fyrstu bókum hennar var hafnað af útgefendum aftur og aftur en Enid gafst ekki upp og hélt áfram að senda handrit. Loks var fékk hún já frá George Newnes. Þeir gáfu út fyrstu ljóðabókina hennar árið 1922 og síðan komu þær hver af annarri. Hjá útgáfufyrirtækinu vann ungur maður, Hugh Alexander Pollock, majór og hann hreifst af Enid og hún af honum. Þau giftu sig árið 1924. Strax þá var Enid farin að raka inn peningu af sölu bóka sinna.

Mjög oft voru teknar myndir af Enid með dætrum sínum en sannleikurinn var sá að hún sinnti þeim ekki mikið.
Var með mjög vanþroskað leg
Enid vildi eignast tvö börn en gekk illa að verða ófrísk. Hún leitaði til læknis sem sagði henni að leg hennar væri óvenjulega lítið og óþroskað, meira eins og hjá tólf eða þrettán ára stúlku en fullorðinni konu. Hann lagði til hormónameðferð og það virkaði. Eldri dóttir þeirra hjóna, Gillian, fæddist árið 1931. Þá voru hjónin flutt til Bourne End í Buckinghamskíri og bjuggu í litlu fallegu húsi sem var kallað Old Thatch. Það kom fljótt í ljós að Enid hafði lítinn áhuga á móðurhlutverkinu, enda tafði það hana frá skrifunum. Það var því ráðin barnfóstra til að sjá um hana og hið sama var upp á teningnum þegar Imogen kom í heiminn árið 1935. Þegar Gillian var sjö ára flutti fjölskyldan í glæsilegt hús, Green Hedges í Beconsfield. Hugh var þá í viðræðum við Winston Churchill um að skrifa ævisögu hans og svo virðist að álagið af að rifja upp stríðsárin hafi lagst þungt á hann og fór að drekka mikið.
Systurnar sögðu síðar að þær hefðu lítið séð af móður sinni þegar þær voru að vaxa upp. Það var aðeins þegar fjölmiðlamenn sóttust eftir viðtölum að þær voru látnar stilla sér upp í garðinum og víða í húsinu með móður sinni og látið líta út fyrir að hún væri að lesa fyrir þær, spila við þær eða sinna þeim á annan hátt. Imogen lýsti móður sinni í viðtölum sem hrokafullri, óöryggri með sér, tilgerðarlegri og með einstaka hæfileika til að láta sem óþægilegir hlutir væru alls ekki til. Hún var hrædd við móður sína þegar hún var að alast upp og leit á hana sem strangt yfirvald fremur en móður. Hún segist þó ekki hafa hatað móður sína heldur mun fremur vorkennt henni. Gillian er jákvæðari og segir að mamma sín hafi verið frábær félagi og haft einstakt lag á að umgangast börn. Sjálf var Gillian kennari og taldi að hún hefði erft hæfileikann til að kenna og miðla frá móður sinni. Imogen var einnig lærður kennari og með meistargráðu í sállækningum.

Margir hafa skrifað ævisögu Enidar.
Þær voru hins vegar sammála um að Enid fyrirleit sína eigin móður og þótt hún hafi af og til hitt föður sinn á skrifstofu hans eftir að hann flutti að heiman varð samband þeirra aldrei samt. Hann eignaðist þrjú börn með nýju sambýliskonunni og þar á meðal dóttur sem varð uppáhald hans upp frá því. Enid fór hvorki í jarðarför föður síns né móður sinnar og hafði nánast ekkert samband við bræður sína. Hjónabandi hennar og Hugh lauk árið 1941. Þá höfðu bæði hjónin átt í ástarsamböndum framhjá hvort öðru og Enid í mjög nánu vináttusambandi við eina af barnfóstrum Imogen, Dorothy Richards. Sumir sem skrifað hafa um ævi rithöfundarins hafa velt fyrir sér hvort þær hafi verið elskendur. En þrátt fyrir að Enid hafi saknað eigin föður og verið miður sín þegar foreldrar hennar skildu hélt hún Hugh frá dætrum sínum og í raun spillti algjörlega sambandi þeirra. Hún hótaði meira að segja að flytja sig til annarra útgefenda ef George Newnes segði Hugh ekki upp störfum þegar hann sneri aftur úr herþjónustu að seinna stríðinu loknu.

Fyrri maður Enidar var Hugh Pollock. Eftir að þau skildu lét hún hann gersamlega hverfa úr lífi sínu og dætrann.
Hugh Pollock látinn hverfa
Gillian sá pabba sinn aldrei aftur eftir að hann kvaddi hana tíu ára gamla á brautarstöðinni við heimili þeirra. Hún sagði að jafnvel eftir hún varð fullorðin hafi hún vitað að mamma hennar væri á móti því að hún hefði samband við hann og þess vegna hafi hún látið það vera. Hið sama gildir um Imogen. Þær sögðu að eftir að Hugh Pollock flutti út úr Green Hedges hafa aldrei verið á hann minnst framar og allar myndir af honum látnar hverfa. Hins vegar flutti Kenneth Darrell Waters inn. Hann var skurðlæknir fimm árum eldri en Enid en hún var fjörutíu og sex ára þegar þetta var. Enid varð af barni hans fjörutíu og sjö ára gömul en missti fóstrið eftir að hafa dottið niður af lítilli tröppu þegar hún var að tína köngla í garðinum.
Systurnar hafa líka mjög ólíka mynd af stjúpföður sínum, Gillian fannst hann ágætur en Imogen minnist ógnandi, skapbráðum manni sem ævinlega tók svari móður hennar þegar eitthvað kom upp á. Eitt sinn hafi hann mætt upp í herbergið hennar eftir að hún var háttuð og lesið þar yfir henni. Hann hafi kallað hana eigingjarna, tillitsslausa gagnvart móður sinni og spillta. Þær systur voru hins vegar fljótlega sendar í heimvistarskóla og komu upp frá því aðeins heim í fríum.

Enid með seinni manni sínum, Kenneth og dætrunum.
Imogen hefur sagt að móðir hennar hafi náð svo miklum vinsældum vegna þess að hún hafi séð veröldina í svarthvítu og verið mjög tilfinningalega vanþroska. „Hún elskaði börnin sem lásu bækur hennar en ekki sín eigin.“ sagði hún í viðtali en Gillian er ósammála. Hún fullyrti ævinlega að móðir þeirra hafi elskað þær innilega en hún hafi verið bæld vegna eigin uppvaxtar. Rifrildin sem hún varð vitni að þegar hún var barn hafi skilið eftir mikla ógn í sál hennar. Samt hikaði hún ekki sjálf við að rífast heiftarlega við bæði fyrri mann sinn og þann seinni. Kenneth lést árið 1967 en Enid Blyton ári síðar þá 71 árs að aldri. Síðasta áratuginn sem hún lifði glímdi hún við elliglöp.
Fram til dagsins í dag hafa bækur Enid Blyton selst í ríflega 600.000 milljónum eintaka og þær hafa verið þýddar á sjötíu og tvö tungumál. Gillian og Imogen seldu höfundarréttinn af bókum hennar árið 1969 fyrir aðeins 14 milljónir punda sem er ekki há upphæð miðað við hvað hversu miklu sala þeirra skilar árlega. Þær lifa báðar þægilegu lífi en meginhluti auðæfanna sem móðir þeirra vann sér inn um ævina og það sem fékkst fyrir sölu höfundarréttarins gáfu þær til góðgerðasamtaka tengdum börnum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.