Borgarráð auglýsti eftir varanlegum rekstraraðila að almenningsmarkaði í Tryggvagötu 19 þar sem Kolaportið hefur verið fyrr á árinu og nú hafa verið gerðir samningar við þá Róbert Aron Magnússon og Einar Örn Einarsson um reksturinn. Þeir hafa báðir komið að veitingarekstri. Þeir Róbert og Einar Örn áttu hæsta tilboð í reksturinn og tillaga þeirra að fjölbreyttri starfsemi í húsnæðinu uppfyllti þær hugmyndir og skilyrði sem borgaryfirvöld höfðu sett sér varðandi áframhaldandi starfsemi í Kolaportinu.
Róbert Aron Magnússon hefur verið leiðandi í matar- og pop up viðburðum á Íslandi undir formerkjum Götubita ehf og hefur sett upp veitingastaði í London og á Íslandi. Þá hefur hann sett upp fjölda tónleika og starfaði hjá Iceland Airwaves á árunum 2003 til 2012. Einar Örn stofnaði Serrano skyndibitastaðina á Íslandi árið 2002 og hefur stofnað og rekið fjölda veitingastaða og mathalla erlendis, svo sem mexíkósku veitingastaðina Zócalo og STHLM mathöllina í Stokkhólmi.
Höfðað bæði til íbúa og ferðamanna
Lagt er upp með að Kolaportið verði þróað sem fjölbreyttur og lifandi markaður þar sem listir, matur og markaðsmenning fléttist saman og skapi miðstöð mannlífs í miðborginni. Ætlunin er að höfða jafnt til íbúa sem ferðamanna og skapa markað þar sem fólk komi ekki aðeins til að versla heldur til að skoða, hitta aðra, kynnast nýjum menningarheimum og upplifa eitthvað nýtt og spennandi í hverri heimsókn. Þeir Róbert Aron og Einar Örn hyggjast byggja á arfleifð Kolaportsins sem markaðar, en þróa áfram til dæmis með sveigjanlegri opnunartíma og fjölbreyttri dagskrá. Þá ætla þeir að leggja áherslu á að Kolaportið verði vettvangur fyrir götulist.
Lagt verður upp með tvo til þrjá veitingastaði, kaffihús og bar, leiksvæði fyrir börn innandyra, matvöruverslun, matvörumarkað og endurbætt rými fyrir leigutaka svo eitthvað sé nefnt. Þá hafa aðilar á bakvið til að mynda Extraloppuna, Matarmarkað Íslands, Húrra Reykjavík og Iceland Airwaves sýnt áhuga á starfsemi í húsinu.