Dagur íslenskrar náttúru er í dag, 16. september en það er jafnframt fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, fyrrverandi fréttamanns og náttúruverndarsinna, en hann er 85 ára. Dagurinn var valinn til heiðurs Ómari og framlagi hans til náttúruverndar. Ólafur Sveinsson kvikmyndagerðarmaður er að klára kvikmynd um Ómar og baráttu hans fyrir náttúruvernd sem ber vinnuheitið Ómar.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að gera mynd um Ómar Ragnarsson og heiðra hann með þessum hætti?„Þessi mynd varð eiginlega til fyrir slysni, ég ætlaði alls ekki að gera hana. Ég vann lengi að mynd sem heitir Horfinn heimur sem er um Kárahnjúkavirkjun og áhrifasvæði hennar áður en það var eyðilagt. Ég flutti til Berlínar 1988 til að læra þýsku og sækja svo um í kvikmyndaskóla sem ég var svo heppinn að komast inn í og ætlaði að vera þar í fjögur eða mesta lagi fimm ár en hef búið þar síðan. Til að fjármagna námið og sjálfan mig eftir það vann ég 13 sumur sem leiðsögumaður og uppgötvaði íslenska hálendið í gegnum leiðsögumennskuna. Ég var í sveit í bænum Hlíð í Gnúpverjahreppi í 17 sumur og lærði þar að allt er vænt sem vel er grænt. En í gegnum leiðsögumennskuna uppgötvaði ég hvað Ísland er stórkostlegt, lítið en ótrúlega fjölbreytt land. Þarna lærði ég að meta öræfin og auðnina af því það er ekki til svona víðátta og öræfi í Þýskalandi eða annars staðar þar sem ég þekki til í Evrópu. Mágkona mín, Ósk Vilhjálmsdóttir og Ásta Arnardóttir vinkona hennar og frænka voru með ferðir um áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar norðaustan Vatnajökuls og sumarið 2006 ákvað ég að búa til kvikmynd um eina slíka ferð og áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Ég fór þá í fyrsta sinn um þetta svæði því það var nánast óþekkt og þá allt í einu kom ég upp í öræfi sem eru í 500-700 m hæð og voru mjög vel gróin. Þetta var sennilega fallegasta svæði sem ég hef komið á hér á Íslandi og hef ég þó ferðast út um allt, en þetta var best varðveitta leyndarmál Íslands eins og einhver í ferðinni sagði. Þetta kom mér stórkostlega á óvart. Ómar Ragnarsson var á svæðinu og hafði útbúið fjóra flugvelli á ógrónum melum og flaug með fólk til að sýna það. Ég tók viðtal við hann þar sem hann flaug með okkur yfir öræfin norðaustan Vatnajökuls í kringum Snæfell sem er hæsta fjall landsins utan jökla. Vegna þess að þetta hálendissvæði er mjög vel gróið, er þar mikið dýralíf,hreindýr, heiðagæsir og fjölmörgar fuglategundir. Þar voru einhver flottustu gljúfur landsins, tignarlegir fossar og heitar laugar sem hægt er að baða sig í. Svæðið var ótrúlega fjölbreytt og gjörólíkt því sem maður er vanur á hálendinu sem er eyðimörk að langmestu leyti. Ég tók viðtal við Ómar sem var fínt en ég notaði samt ekki í Horfinn heimur.
Síðan var byrjað að safna vatni í Hálslón haustið 2006 og þetta einstaklega fallega svæði var eyðilagt. Ómar ákvað að stofna stjórnmálaflokk fyrir alþingiskosningarnar vorið 2007 sem hafði náttúruvernd og sjálfbæra þróun sem sitt helsta stefnumál. Ég ákvað með skömmum fyrirvara að fara til Íslands og kvikmynda framboð Íslandshreyfingarinnar lifandi land, eins og flokkurinn hét, í von um að þau næðu manni eða jafnvel mönnum inn. Það var afleit ákvörðun vegna þess að ég átti eiginlega ekki fyrir tökunum sem urðu svo miklu dýrari en ég hafði áætlað. Ég var í þunglyndiskasti og leið mjög illa allan tökutímann. Kvikmyndatökumaðurinn minn komst ekki með og ég þurfti að kvikmynda allt sjálfur og gerði öll þau mistök sem hægt er að gera sem tökumaður og svo náðu þau ekki manni inn. Ég var alltaf miður mín þegar ég hugsaði um þetta í mörg ár á eftir,“ segir Ólafur og brosir að minningunni.

Hálslón. Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.
Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur
„Löngu seinna ákvað ég að búa til sýningu sem heitir Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og fékk Landvernd til samstarfs við mig. Hún var fyrst sett upp í Norræna húsinu og síðan úti á landi á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri og er eins og nafnið gefur til kynna óður til náttúru Íslands. Annars vegar dýralífsins, en hins vegar svæða sem eru í hættu vegna virkjanaframkvæmda. Ég safnaði saman nokkur þúsund ljósmyndum frá fjölmörgum ljósmyndurum og lét stækka vel yfir 100 á pappír og bjó til nokkrar stuttmyndir, þar á meðal eina um Ómar og Kárahnjúkavirkjun. Ég hafði sjálfur myndað Ómar, vissi um kvikmyndað efni frá öðrum og leitaði og fann meira efni víða að sem passaði inní konseptið auk margra ljósmynda og tónlistar sem SigurRós hafði samið fyrir aðra mynd sem ég gerði. Þetta var eins og bútasaumur sem ég skeytti saman og kostaði mig mikla vinnu en myndaði samt eina heild og þessi 20 mínútna langa mynd fékk mjög góðar viðtökur. Sigurður Grímsson kvikmyndagerðarmaður og Angelika konan hans gerðu innslög fyrir þýska sjónvarpsstöð um Kárahnjúkavirkjun og mynduðu þegar Ómar flaug með fólk til að skoða og fræðast um áhrifasvæði hennar og afleiðingarnar sem Halslón myndi hafa. Þau aðstoðuðu hann síðar þegar hann fór að sigla á litlum hvítum plastbáti sem hann nefndi Örkina á Hálslóni, þessu manngerða íslenska syndaflóði, eftir því sem hækkaði í því, rétt eins og Nói gerði á örkinni sinni. Slíkt hið sama gerði Friðþjófur Helgason, ljósmyndari og kvikmyndatökumaður, samstarfsmaður og vinur Ómars til áratuga. Ómar ætlaði að gera heimildamynd sem héti Örkin, en náði aldrei að klára hana. En Friðþjófur tók einnig mjög mikið af öðru góðu efni af svæðinu, með Ómari eða einn og sjálfur. Sigurður og Friðþjófur veittu mér óheftan aðgang að sínu efni og ásamt því efni sem ég átti frá því ég tók Horfinn heimur með Halldóri Gunnarssyni sem er frábær tökumaður og efni sem ég gróf upp annars staðar, þá gat ég búið til áhugaverða sögu um Ómar og baráttu hans við ofureflið á Kárahnjúkasvæðinu.“

Ómar á Örkinni á Hálslóni. Mynd: Freyr Arnarsson.
Dregin upp ný mynd af Ómari
Ólafur segir Ómar mjög merkilegan mann sem hafi komið ótrúlega miklu í verk sem skemmtikraftur, fréttamaður, margfaldur Íslandsmeistari í rallý, leikari, söngvari, lagasmiður, hagyrðingur, rithöfundur, kvikmyndagerðarmaður, leikstjóri, flugmaður og náttúruverndarsinni svo fátt eitt sé nefnt sem Ómar hefur tekið sér fyrir hendur . Ómar sjálfur segir náttúruverndina það mikilvægasta á ferlinum og hann hafi ákveðið að einbeita sér að þeim þætti í lífi Ómars. „Þegar ég ákvað síðan að gera mynd í fullri lengd og rúmlega það um hann í tilefni af 85 ára afmælinu vissi ég að sögurnar sem að ég klippti saman í kringum efnið frá Sigurði og Friðþjófi yrðu mjög góðar, en veigraði mér lengi vel við að skoða efnið sem ég hafði sjálfur tekið í tengslum við kosningabaráttu Íslandshreyfingarinnar lifandi lands vegna þess að ég vissi að það væri katastrófa. Ég taldi loks í mig kjark og fann dálítið efni frá Sigurði og fleirum auk safnaefnis frá Sjónvarpinu og þá kom í ljós að efnið mitt var líka þrælgott og gaf hinu ekkert eftir, þó gjörólíkt væri. Þar með var kominn grunnur að mynd um náttúruverndarbaráttu Ómars frá 2005-2007 og það sem meira er að þarna er dregin upp allt önnur og fjölbreyttari mynd af Ómari en áður hefur sést.
Til að loka myndinni ákvað ég að koma til landsins í sumar og planaði viðtal við Ómar austur við Hálslón. Hann reyndist þá vera ellimóður þannig að Friðþjófur fór við annan mann austur með honum og þeir tóku upp mjög fallegt viðtal við Ómar þar sem hann gerði á vissan hátt upp líf sitt og sagði að náttúruverndarbaráttan væri það mikilvægasta sem að hann hafi tekið sér fyrir hendur. Efni myndarinnar á mjög vel við núna því hér er forsætisráðherra sem er hagfræðingur sem virðist hafa útbúið exel-skjal fyrir kosningarnar og komist að þeirri niðurstöðu að auka þyrfti rafmagnsframleiðsluna á Íslandi um 25% á næstu tíu árum, eins og hún lofaði í kosningabaráttunni, þrátt fyrir að ekkert land í heiminum framleiði jafn mikið rafmagn miðað við höfðatöluna margfrægu og Íslendingar. Nú ætla hún og umhverfisráðherra að efna þetta kosningaloforð með því að einfalda reglugerðir og hefja stórframkvæmdir út um allt land, sem virðast aðallega í því fólgnar að byggja virkjanir villt og galið, án þess að nokkuð tillit sé tekið til náttúrunnar. Megas söng um stórsóknarfórn Gvendar jaka á áttunda áratugnum. Stórsóknarfórn er ágætis orð yfir það sem hæstvirtur forsætis- og hæstvirtur umhverfisráðherra boða.“

Frá áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar, Dimmugljúfur. Mynd: Christopher Lund.
Virkjanir á vernduðum svæðum
„Eftir að byrjað var á Kárahnjúkavirkjun, sem var stærsta, dýrasta og umdeildasta framkvæmd Íslandssögunnar, var búið til opið ferli í ákvarðanatöku um nýjar virkjanir, svokölluð rammaáætlun, þar sem hagsmunaaðilar, náttúruverndarsamtök, vísindamenn úr mismunandi fræðigreinum og fleiri voru fengnir til að skoða og kveða uppúr, út frá ákveðnum viðmiðum, hvað ætti að vernda og hvar væri óhætt að virkja, út frá náttúrufræðilegum, sögulegum og hagkvæmnissjónarmiðum. Ferlið er langt, það eru gerðar rannsóknir og umsagnir eða skýrslur um einstaka virkjanakosti og einstaklingum, hagsmunaaðilum og frjálsum félagasamtökum boðið að gera athugasemdir. Síðan tekur stjórn rammaáætlunar tillit til þess alls og gerir tillögur um hvað sé sett í framkvæmdaflokk, biðflokk eða verndarflokk og allar skýrslur og athugasemdir eru aðgengilegar. Það er síðan meirihluti á Alþingi sem tekur ákvörðun um hvort tillögurnar sem stjórn rammaáætlunar leggur fram hverju sinni og færir ítarleg rök fyrir, verði að lögum eða ekki. Þetta tekur allt tíma en er grunnurinn að ábyrgri ákvarðanatöku í lýðræðislegu samfélagi. Svo kemur Kristrún og hennar ágæti umhverfisráðherra Jóhann Páll og segja: „Þetta er allt of flókið, tekur of langan tíma og kemur í veg fyrir mikilvægar framkvæmdir“ og kippa rammaáætlun og ákvarðanatökum henni tengdar eins og framlengingarsnúru úr sambandi og vilja núna fara í stórframkvæmdir og virkja út um allt í nafni mögulegs hagvaxtar sem að hagfræðingurinn Kristrún Frostadóttir fann út á exel-skjalinu að séu raunhæfar, þó flestum öðrum hagfræðingum sem skoðað hafa málin, sé hulin ráðgáta hvernig hún komst að þeirri niðurstöðu. Það eina sem þau skötuhjú virðast telja einhvers virði tengt náttúrunni er hagvöxtur. Og þegar spurt er hvert eigi að selja orkuna er algengasta svarið hjá háttvirtum umhverfisráðherra „gagnaver fyrir gervigreind“ sem þurfa gríðarlega orku og 2–3 fastir starfsmenn vinna við. En hverjir eiga að fjármagna allar þessar virkjanir, því það er fyrirsjáanlegt að Íslendingar geta það ekki einir; vatnsaflsvirkjanir, gufuaflsvirkjanir og vindaflsvirkjanir auk gríðarlegra fjárfestinga í innviðum vegna flutningsmannvirkja? Útlendingar, þó það sé aldrei sagt upphátt, sem munu flytja allan hagnaðinn skattlausan úr landi eins og tilfellið er með HS Orku, álverin og laxeldið. Það er glæsileg framtíðarsýn.“
„Hernaðurinn gegn landinu“

Kirkjufoss í Jökulsá á Fljótsdal. Mynd Christopher Lund.
Eldhuginn Ómar er ellimóður og Ólafur segir að nú sé komið að næstu kynslóð að taka við og berjast gegn „þessari vitleysu“ eins og hann segir um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir. „En samt er myndin um Ómar og hans náttúruverndarbaráttu umfram allt mjög fallegt portrett af honum, og nú hefur þetta málefni allt í einu raungerst miklu meira heldur en ég hefði viljað. Það er fræg grein sem Halldór Laxnes skrifaði 1970 Hernaðurinn gegn landinu þegar það átti að sökkva Laxárdalnum hjá Mývatni með 12 km. löngu lóni ogÞjórsárverum, sem er einstakt gróðurlendi og vin í eyðimörkinni við Hofsjökul, undir miðlunarlón fyrir virkjanir í Þjórsá og Tungnaá. Ég sé þessa yfirlýsingu Jóhanns Páls og Kristrúnar Frostadóttur sem stríðsyfirlýsingu gegn landinu. Þetta er miklu alvarlegra en áætlunin með Þjórsárver sem var skelfileg og þetta er líka verra en Kárahnjúkavirkjun vegna þess að nú þegar er búið að ganga mjög freklega á náttúru landsins með fjölmörgum virkjunum og nú á að virkja út um allt land, að því er virðist án nokkurs tillits til náttúrunnar. Taka svæði eins og Skagafjarðarárnar sem fékk hæsta verndunargildi og setja í bið sem er aðeins millistig áður en þær verða settar í nýtingarflokk.“

Mynd: Friðþjófur Helgason.
Myndin um Ómar og barátta hans fyrir náttúruvernd mun lifa
Hvað er verið að taka í hagnaði á öðrum sviðum, nú koma ferðamenn til að sjá það sem er sérstakt við náttúruna og landið, t.d. Sprengisand, auðn er ekki víða á meginlandinu? „Ég bauð nýlega hálfbróður sonar míns sem býr hér á Íslandi í ferð upp í Þjórsárver þar sem við vorum í tökum. Honum fannst auðnin og eyðimörkin þar sem maður finnur fyrir smæð sinni gagnvart náttúrunni dásamleg því hún er ekki til í Þýskalandi þar sem hann býr. Við keyrðum yfir nokkrar ár, sumar frekar djúpar jökulár og hann var skelfingu lostinn, það var mögnuð upplifun fyrir hann. Það sem er líka sérstakt við Ísland er að þú þarft oft ekki að keyra nema 50 km til að sjá eitthvað nýtt og öðruvísi. Vandamálið er hins vegar að ferðamennirnir eru að verða of margir. Vegna loftslagsbreytinga fara margir ekki lengur í óbærilegan hitann í Suður-Evrópu á sumrin, heldur vilja í kaldara loftslag þannig að ferðamönnunum á eftir að fjölga enn meira, alla vega á helstu ferðamannastöðunum. Gagnaversem þurfa mikla orku þar sem tveir til þrír vinna er ekki mjög atvinnuskapandi öfugt við ferðamannaiðnaðinn. Þó að túrisminn sé ekki að öllu leyti góður þá hefur hann haldið mjög mörgum stöðum í byggð sem væru annars farnir í eyði, t.d. Öræfasveitinni. Túrisminn er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins.“

Mynd: Halldór Gunnarsson.
Sigurður Grímsson og Friðþjófur lögðu mikla vinnu í sína þætti í myndinni og fengu ekki krónu fyrir en höfðu verulegan kostnað af. Ómar var með gríðarlega útgerð fyrir austan. Tvær flugvélar á tímabili, sex eða sjö bíla og lagði allt sitt í það verkefni að koma í veg fyrir að Kárahnjúkavirkjun yrði að veruleika. Fyrst með því að fjármagna alfarið sjálfur heimildamyndina „Á meðan land byggist“ sem var frumsýnd 2002 þar sem hann fjallaði um væntanlega Kárahnjúkavirkjun, með því meðal annars að fara til Noregs og Bandaríkjanna og skoða þar umdeildar virkjanir og þjóðgarða. Hann kom fyrstur með þá hugmynd að stofna sérstakan Vatnajökulsþjóðgarð og vildi sanna fram á með myndinni að þjóðgarðarnir væru mun betri kostur, bæði umhverfis- og fjárhagslega en Kárahnjúkavirkjun, en það var hlegið að honum. Síðar, eftir að byggingu Kárahnjúkavirkjunar var lokið, var þjóðgarðurinn stofnaður. Til að fjármagna myndina seldu hann og konan hans íbúðina sína, enda sáu áhrifamenn í ríksstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins til þess að hann fengi hvergi fjárhagslegan stuðning fyrir verkefnið. „Á meðan land byggist“ var tilnefnd til Edduverðlauna sem besta heimildamyndin 2003. Síðan vann hann uppúr þeim þáttum heimildamyndina „Á meðan land byggist“ 2002 sem var útnefnd til Edduverðlauna. Hann viss um að fréttir sem hann flytti af byggingu Kárahnjúkavirkjunar og áhrifasvæði hennar myndu sannfæra menn um hverskonar ósvinna virkjunin væri og steypti sér í miklar skuldir við að gera það og mynda svæðið. Þessi mynd og Horfinn heimur sem ég gerði og fékk styrk fyrir frá Kvikmyndasjóði, hefur kostað mig arfinn minn, sem var hálft einbýlishús í Hafnarfirði. Það fékkst enginn peningur úr Kvikmyndasjóði fyrir þessa mynd vegna þess að það er bannað samkvæmt lögum um Kvikmyndamiðstöðina að styrkja myndir sem tökur hafa hafist á. Þegar allt er talið sem Ómar og ég hafa lagt í þessa mynd og vinnuframlag okkar og annarra er reiknað með, hefur hún kostað marga tugi milljóna, en einu peningarnir sem ég hef fengið loforð um, en ekki fengið útgreiddar, eru 700.000 kr. Ómar hefur sagt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að peningar skipti engu máli í þessu stóra samhengi og ég er sammála. Þessi mynd á eftir að lifa og þó að það verði ekki nema til að minnast Ómars. Það er með ólíkindum að Ómari, sem er þjóðargersemi eins og sagt er, skuli ekki hafa verið minnst til dæmis af RÚV þar sem hann vann í 40 ár. Það er takmarkaður en þó mikilvægur hluti af lífi Ómars skráður í myndinni. Ómar er ekki aðeins með með límheila heldur er hann líka góður sögumaður og hefur haldið dagbók nánast allt sitt líf sem hægt væri að fletta uppí, ef vandamálið væri ekki að hún er skráð á þann hátt að hann einn skilur hvað stendur þar. Hann kann ótal sögur frá upphafi Sjónvarpsins og var ekki aðeins eitt mikilvægast andlit þess í hartnær 40 ár, heldur færði líka landið inn í stofu landsmanna með þáttum sínum og fréttum þar sem Stikluþættirnir voru mikilvægastir. Íslendingar og sér í lagi Sjónvarpið sem stofnun á honum ótrúlega mikið að þakka. Það má segja að hann sé í raun nútímaútgáfa af munnlegri geymd og kann ótal margar sögur af upphafi Sjónvarpsins, þróun þess og ferðum sínum um landið sem enginn hefur haldið til haga. Ríkidæmi okkar Íslendinga er umfram allt sagan, tungumálið, skáldskapurinn og náttúran, það er ekkert annað sem hefur lifað í gegnum aldirnar. Ómar er sannkallaður sagnarbrunnur og það er skömm að því að Sjónvarpið, stofnunin sem að hann vann hjá stærstan hluta af sínu lífi, skuli enga tilraun hafa gert til að varðveita þessa sögu. Ef ekki í myndum og máli, eins og hefði verið sjálfsagt, þá í það minnsta með hljóðupptökum. Nú er hætt við að það sé of seint, því þó Ómar hafi verið margra manna maki þegar litið er á ævistarfið, má hann sín lítils gegn Elli kerlingu.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna