Líklega hefur ekki farið framhjá neinum að stafræn bylting hefur átt sér stað á undanförnum árum. Nú þarf ekki lengur að sækja þjónustu í stofnanir, allt fer fram á netinu, gegnum tölvupósta, snjallmenni eða lokaðar síður. Hver og einn einstaklingur þarf orðið að henda reiður á ótal aðgangsorðum, kunna að fara með rafræn skilríki og skrá sig inn af öryggi. Kannski er ekkert undarlegt að þetta sé farið að valda mörgum þeirra sem ólust upp við annars konar samskipti miklum áhyggjum.
Nýlega birti norska tímaritið, Vi over 60, niðurstöðu könnunar sem gerð var af Mannréttindastofnun Noregs (NIM). Þar kom í ljós að einn af hverjum fjórum einstaklingum hefur áhyggjur af að lenda í stafrænni útilokun á efri árum þ.e.a.s. að missa tökin á allri þessari nýju tækni og komast ekki að bankanum sínum, nauðsynlegum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk og upplýsingum frá stofnunum eða viðskiptum við þær. Svo virðist samkvæmt könnuninni að margir upplifi nú þegar hindranir þegar þeir nýta sér stafræna opinbera þjónustu. Kai Spurkland, forstöðumaður NIM, segir í viðtali við tímaritið að könnunin sýni fram á dekkri hliðar stafrænu byltingarinnar.
Útilokun viðkvæmra hópa
Stafræn útilokun er félagslegt vandamál sem hefur áhrif á ekki bara aldraða. Fleiri en eldri borgarar óttast að vera skildir eftir á stöðinni þegar stafræna lestin fer af stað og ýmsir jaðarhópar finna nú þegar fyrir þessu. Helstu niðurstöður könnunarinnar sýna að:
1 af hverjum 4 óttast að detta út úr samfélaginu þegar þeir eldast vegna þess að þeir geti ekki nýtt sér stafræna þjónustu hins opinbera í framtíðinni.
1 af hverjum 5 hefur átt í vandræðum með að nota þjónustu hins opinbera á síðasta ári eða þekkir einhvern sem hefur átt í vandræðum með að nota slíka þjónustu.
Flestir segjast eiga í vandræðum með að nota banka og heilsusíður á vegum opinberra heilbrigðisstofnana. Ástæður þess segir fólkið vera m.a. tungumálaörðugleika, skort á nauðsynlegum búnaði til að geta tengst internetinu og vanþekkingu á hvað þeir þurfa að gera.
Viðkvæmir hópar eru einkum berskjaldaðir fyrir stafrænni útilokun, í þeim hópi má telja þá sem vegna erfiðrar fjárhagsstöðu hafa ekki aðgang að bestu tækni, innflytjendur eða þá sem ekki hafa að móðurmáli tungumálið sem talað er í landinu, fólk með fötlun, fólk sem glímir við andlega sjúkdóma og þá sem ekki hafa tileinkað sér þá tækniþekkingu sem nauðsynleg er til að komast í samband við hið opinbera. Kai Spurkland bendir á í viðtalinu að opinber þjónusta verður að vera aðgengileg öllum. Yfirvöldum ber skylda til að auðvelda öllum íbúum að tjá sig og taka við upplýsingum samkvæmt sjöttu málsgrein 100. greinar stjórnarskrár norska ríkisins.
Menn eiga rétt á upplýsingum og þjónustu
„Í dag eru internetið og stafrænar lausnir miðlægur hluti allra innviða hins opinbera í flestum vestrænum ríkjum. Stafrænn aðgangur og hæfni til að tileinka sér þá tækni sem hann krefst eru í auknum mæli forsenda fyrir þátttöku í samfélaginu. Könnunin sýnir að þetta er ekki eitthvað sem allir búa yfir,“ segir Spurkland við Vi over 60.
Hann bendir á að aðgangur að opinberri þjónustu sé einnig grundvallaratriði til að vernda fjölda annarra réttinda, svo sem réttinn til heilsu og rétt barna til að tjá sig. Þegar stafræn breyting tekur ekki tillit til varnarleysis viðkvæmra hópa getur hún ógnað ýmsum mannréttindum og leitt til mismununar gagnvart hópum sem eru þegar í viðkvæmri stöðu. Mannréttindasáttmálar skylda yfirvöld til að tryggja að opinberar upplýsingar og þjónusta séu aðgengileg öllum íbúum en Spurkland telur að þar vanti á í Noregi. Það er full ástæða til að velta fyrir sér hvernig þessum málum er háttað hér á landi. Líklegt er að sömu hópar og í Noregi finni sig útilokaða frá almennri þjónustu hér á landi.
Samkvæmt greininni í Vi over 60 stefnir Noregur að því að verða stafrænasta land heims fyrir árið 2030. Það hefur marga jákvæða þætti í för með sér. Stafrænar lausnir gera opinbera þjónustu aðgengilegri á öllum tímum dagsins en það má ekki gleyma að upplýsingar og þjónusta á stafrænu formi eru enn ekki innan seilingar allra. Kai Spurkland telur að um 850.000 manns séu í viðkvæmri stöðu gagnvart stafrænum lausnum í Noregi. Hann hvetur yfirvöld þar í landi til að beita sér fyrir því að tryggja að stafræn þjónusta sé þannig hönnuð og að eins margir og mögulegt er geti skilið og notað hana og sömuleiðis að gera sér grein fyrir að sumir munu aldrei geta notað stafræn verkfæri á sama hátt og stærsti hluti þjóðarinnar. Fyrir þá hópa verður að þróa betri lausnir en þær sem bjóðast í dag. Það væri forvitnilegt að vita hve stór hópur Íslendinga býr við stafræna útilokun og hvernig því fólki gengur að nálgast þá þjónustu og þær upplýsingar sem það á rétt á að fá.
Um könnunina
Verian framkvæmdi könnunina fyrir hönd NIM í mars 2025, í gegnum Gallup Panelet hjá Kantar Media. Yfir 1.000 manns svöruðu könnuninni, sem var unnin með dæmigerðu úrtaki íbúa 18 ára og eldri.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.