Sjúklingar virkir þátttakendur í öflugu appi Landspítala

Á Landspítala hafa þau Arnar Þór Guðjónsson, yfirlæknir háls-, nef- og eyrnalækninga, og Adeline Tracz, teymisstjóri nýþróunar, þróað app sem er ætlað fyrir sjúklinga sem þiggja þjónustu á Landspítala. Landspítali var valið UT-fyrirtæki á síðasta ár fyrir stafræna þróun og er app þeirra Adeline og Arnars sannarlega hluti af þeim árangri.

Þau segja öll rafræn framfaraskref á spítalanum snúast um að gera skráningu sjálfvirka og auka upplýsingaflæði milli sjúklinga og starfsfólks. Þau auðveldi vinnu og auki hagræðingu en ekki síður öryggi sjúklinga og tryggi sem besta meðferð og sjúklingaappið er liður í því. Fólk hefur tekið appinu fagnandi en yfir 180.000 Íslendingar eru komnir með aðgang að Landspítala-appinu og  u.þ.b. 1.900 sjúklingar nota appið daglega.

Arnar Þór Guðjónsson

Kveikjan að appinu varð til í flugvél

Hver var kveikjan að því að búa til þetta app?

„Hugmyndin að appinu varð eiginlega til um borð í flugvél og byggir á svipaðri hugmynd og boðið er upp á í lengri flugferðum að sjúklingur geti, líkt og flugfarþegi, séð fyrirliggjandi dagskrá, rannsóknir, hvaða læknir sé ábyrgur, séð tilkynningar, matseðil og heimsóknartíma, en einnig haft samskipti við hjúkrunarstarfsfólk viðkomandi deildar í gegnum skilaboð. Þessi myndlíking um ferðalag leiddi okkur áfram og inn í fyrstu skrefin í átt að verkefninu. Við veltum fyrir okkur hvort sjúklingar mættu ekki vita hvað væri í gangi meðan á spítaladvölinni stæði og hefðu rétt á að sjá gögn um sjálfa sig og sjá þau í rauntíma,“ segir Arnar.

Þau Adeline og Arnar segja að ríkisstjórnin hafi verið með fjárfestingarátak 2020 til að auka nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og nam upphæðin sem í boði var allt að 15 milljónum króna. Þau sóttu um og fengu stærsta styrkinn til að vinna að appinu. Þar sem það tókst vel að búa til app fyrir inniliggjandi sjúklinga á háls-, nef- og eyrna-, lýta-, bruna- og æðaskurðdeild A4 hefur Landspítalinn ákveðið að halda áfram á þróa appið fyrir alla sjúklinga. Appið hefur verið í stöðugri þróun síðustu fjögur ár með einni nýrri útgáfu á mánuði.

Í júní 2023 var appið opnað fyrir alla sjúklinga Landspítala.

https://www.landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/fraedsluefni/landspitalaappid/

Adeline Tracz

Veitir innsýn og bætir upplifun sjúklinga

Markmiðið með appinu, að sögn Adeline og Arnars, er að gefa sjúklingi betri innsýn inn í meðferð sína, bæta upplifun hans, auka öryggistilfinningu og gera honum kleift að taka virkari þátt í eigin meðferð.

Sjúklingur getur skoðað tímabókanir, rannsóknarniðurstöður, lyfjaupplýsingar, nöfn ábyrgra aðila, lífsmörkin og leyft aðstandanda fylgjast með skurðaðgerðum í rauntíma. Haustið 2022 var innskráningarþjónusta og umboðskerfi Stafræns Íslands innleitt inn í appið sem gefur sjúklingum mögulegt að veita öðrum umboð og gerir foreldrum og forráðamönnum kleift að fá aðgang að appinu fyrir börn sín.

Þróaðir hafa verið spurningalistar sem starfsfólk getur sent til sjúklinga í appið áður en sjúklingur t.d. mætir í aðgerð. Svör sjúklinga úr appinu vistast jafnóðum í sjúkraskrá sjúklings og hjálpa starfsfólki að undirbúa betur innskrift fyrir aðgerð.

Þá geta allar konur haft samband beint við Brjóstamiðstöð með því að senda skilaboð til að lýsa einkennum og fá tíma og niðurstöður algengustu blóðprufurannsókna á Landspítala voru frá og með 13. júní 2023 aðgengilegar tveimur sólarhringum eftir komu. (https://www.landspitali.is/um-landspitala/fjolmidlatorg/frettir/stok-frett/2023/06/20/Algengustu-blodprufunidurstodur-sjuklinga-komnar-i-Landspitalaappid/)

Flest sýkla- og veirufræðisvör eru strax aðgengileg í appinu og verið er að innleiða þjónustukannanir strax eftir útskrift í appinu.

Sjúklingurinn virkur þátttakandi

Verkefni það sem Arnar og Adeline hafa verið að vinna að ásamt teymi Adeline á þróunarsviði, Haraldi Orra Haukssyni, Kristmundi Ólafssyni,  Jóni Gunnari Hannessyni og Ólafi Óskari Ómarssyni, snýst um að gera sjúklingum Landspítala mögulegt að nálgast upplýsingar um innlögn og komur þeirra í gegnum app og er tilgangurinn meðal annars sá að sjúklingurinn hafi upplýsingar um stöðu sína og viti hvað fram undan sé á meðan dvöl hans á spítalanum stendur en sá tími getur verið krefjandi fyrir sjúklinginn. Þau segja að þessi lausn efli sjálfsöryggi og ábyrgð sjúklings sem síðan skili sér í heilsteyptara ferli.

Auðkenning notanda er gerð með rafrænum skilríkjum og hver notandi hefur einungis aðgang að upplýsingum sínum og þau taka fram að mati á öryggi appsins hvað snertir vernd persónuupplýsinga sé að ljúka.

Þegar blaðamaður spyr á hvaða hátt appið sé frábrugðið fyrirliggjandi kerfi segja þau að ekkert hafi verið til fyrir inniliggjandi sjúklinga, appið sé ekki síður fyrir sjúklinga en starfsfólk og með því sé ætlunin að gera þá að virkum notendum.

„Þetta er mjög öflugt og frumlegt app og við vitum ekki til þess að svona app hafi verið útfært áður, alla vega ekki á Norðurlöndunum,“ segir Adeline.

Hverju á sú framþróun sem felst í appinu að skila?

„Sjúklingurinn mun upplifa að hann sé nátengdur meðferðarteyminu, hann sé upplýstur um það sem verið er að gera og um það sem er fram undan í sjúkrahúslegunni og eftirmeðferð. Meiri sjálfvirkni og aukið gagnsæi í upplýsingagjöf mun skila sjúklingum Landspítala bættri þjónustuupplifun og einnig skila stofnuninni sparnaði,“ segir Arnar.

Upplýsingar í appi eru verðmæt gögn

Búið er að tryggja það sem snýr að gagnaöryggi, sem þýðir að gögnin séu aðgengileg og áreiðanleg og upplýsingar rétt tengdar í öllum tölvukerfum Landspítala. Þetta er meðal annars hlutverk samþættingarlags Heilsugáttar. Gögnin geta innifalið mikilvægar upplýsingar sem hægt er að nota til að bæta ýmsa þætti bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk auk þess sem skráðum upplýsingum fylgir meira öryggi. Og nú í fyrsta sinn geta sjúklingar bæði fylgst með því sem fyrirhugað er að gera og skráð líðan og starfsfólk séð hvort verið er að biðja um vatnsglas eða láta vita af sárum verk.

„Verðmæti gagna felst í notkun þeirra – með því að frelsa gögn úr lokuðum kerfum spítala og birta þau í appi erum við að búa til verkfæri sem mun leiða til umbyltingar á spítalanum þar sem það stuðlar að því að efla öryggi og sjálfstraust sjúklinga. App-kóðinn er eign Landspítala, og eftir fjögurra ára þróun hefur notkun appsins aukist hægt og bitandi,“ útskýrir Adeline.

Appið er í stöðugri framþrónun og þau segja að fram undan sé að því að bjóða upp á að bóka tíma í nokkrum sérgreinum fyrir sjúklinga sem eru í eftirliti. Bjóða upp á að lýsa ástæðu komu á meðan sjúklingur bíður á bráðamóttöku, svo dæmi sé tekið. Fyrir sjúklinga sem eru undir ströngu eftirliti, eins og hjartasjúklinga, verður einnig hægt að samþykkja að láta lífsmarkagögnin úr snjallúrum eða mælitækjum sem sjúklingur á heima flæða beint í gegnum appið til Landspítala. Veflausn spítalans, Heilsugátt, mun gera starfsfólki kleift að fylgjast með gögnum og birta viðvörun ef þörf krefur.

Arnar og Adeline segja að vitanlega hafi verið ýmsar áskoranir í ferlinu eins og að hanna innskráningu með rafrænum skilríkjum, velja dulkóðunaraðferð, hanna samþættingu, ýmiss konar app-þjónustu og útlitið en að allt þetta hafa tekist einstaklega vel.

Appið er auðvelt í notkun og allt viðmót mjög einfalt og leiðir fólk vel áfram en blaðamaður fékk að prófa og getur fullyrt að svo sé.

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn maí 12, 2024 07:00