Úrið tekur völdin

Anna Margrét Jónsdóttir

Anna Margrét Jónsdóttir

Það er ekki nóg með að símarnir séu farnir að stjórna lífi fólks, heldur eru komin úr sem eru farin að gera það líka! Anna Margrét Jónsdóttir lýsir þessu skemmtilega í pistli á Facebook sem Lifðu núna hefur fengið leyfi til að birta…..

Ég er komin með harðstjóra á heimilið. Þetta hljómar ekki vel en harðstjórinn minn er hvorki hann eða hún, heldur það. Flestir sem sjá mig halda bara að ég sé búin að fá mér armband, öðrum gæti dottið í hug úr sem er vissulega nær sanni. En þetta sakleysislega „armband“ kennir mér meira en tímastjórnun. Það gefur mér upplýsingar um svefnvenjur mínar, hvað ég sit lengi, hvað ég geng mörg skref og hvort ég hleyp.   Það óhuggulegasta af þessu öllu er að það sendir mér í tíma og ótíma aðvaranir vegna leti. Í gærkvöldi horfði ég á þriggja tíma langa bíómynd mjög menningarlega, en á meðan sendi úrið mér tvær aðvaranir. Til að bæta fyrir þessa óhóflegu leti kom tilboð um að vinna heimilisverk í þrjá tíma. Einhverjir gætu sagt að ég ætti bara að fara í röskan göngutúr til að gleðja úrið. Vandinn er bara sá að síðan ég setti það á mig hef ég verið með einhversskonar flensulíki og treysti mér þar af leiðandi ekki út. En kannski með hækkandi sól og betri heilsu á okkur eftir að semja betur, mér og úrinu

Ritstjórn febrúar 9, 2015 13:36