Haldið í netheima með barnabörnunum

Það ert ekki einungis gott fyrir börnin að verja tíma með  afa og ömmu – það er líka gott fyrir afa og ömmu að vera með þeim.

Burtséð frá því að það er almennt gott að umgangast annað fólk, þá er samband  milli kynslóða sérlega mikilvægt. Að verja tíma með fólki af annarri kynslóð, gefur nefnilega innsýn í líf þeirra sem eru ekki á sama aldri og þú sjálfur. Með því móti eykst skilningurinn milli kynslóðanna, segir í grein á danska vefnum Ældre sagen.

Það er kannski ekki alltaf auðvelt að finna eitthvað til að gera með barnabörnunum. Það sem okkur þótti skemmtilegt þegar við vorum börn, hentar ekki endilega nútíma börnum. Og skjáirnir taka meira og meira pláss í daglegu lífi barnanna og leikjum þeirra.  Það gefur okkur hins vegar tækifæri til að nota áhuga þeirra á tölvuskjáum og símum, til að gera eitthvað uppbyggilegt með þeim í raunheimum, eitthvað sem allir fá eitthvað út úr.

Hér fyrir neðan eru fimm ráð um ýmislegt sem er hægt að gera saman.

  1. Farðu í ævintýraferð með börnunum í netheimum.

Flest börn og unglingar eru klukkustundum saman á netinu. Það þarf hins vegar ekki að útiloka að þið getið gert eitthvað saman. Er kannski eitthvað sem þú vilt vita meira um, eða eitthvað sem þú vilt læra á netinu? Leitaðu ráða hjá barnabarninu, það getur sýnt þér hvernig þú átt að bera þig að.

Kannski getur  barnabarnið hjálpað þér að ná betri tökum á að nota Facebook, eða sýnt þér myndir á Instagram. Þú getur líka fengið barnabarnið til að sýna þér uppáhalds efnið sitt í símanum. Þar er komið efni í samræður. Hvað finnst henni eða honum skemmtilegt á netinu og hvers vegna?

  1. Notaðu samfélagsmiðlana í eldhúsinu.

Önnur leið sem gæti verið skemmtileg og náð til barnanna, er að vekja áhuga þeirra á því sem þið eruð að gera. Það er hægt að skoða myndbönd um dýr og hlusta á tónlist á netinu, jafnvel frá því á árum áður- eða það er hægt að fá hugmyndir á samfélagsmiðlunum að kökum til að baka og mat sem er hægt að búa til.

Það eru ótal myndbönd á heimasíðu YoutTube sem sýna í smáatriðum hvernig á að baka köku eða búa til mat. Taktu fartölvuna eða spjaldtölvuna með þér inní eldhús og leyfðu barnabarninu að finna skemmtilega kökuuppskrift á YouTube, sem þið getið bakað saman.

Hér getur þú farið inná YouTube.

  1. Tengdu gömlu dagana við nútímann

Sögur frá því í „gamla daga“ verða áhugaverðari ef þú getur tengt þær sjálfri eða sjálfum þér. Varst þú hippi á áttunda áratugnum? Segðu þeim frá þessum tíma og hvernig lífið var þá, til dæmis með því að sýna þeim myndir, myndklippur eða skreppa á safn.  Þú getur líka leyft barnabarninu að elda mat, sem var algengur þegar þú varst barn.

  1. Lærið eitthvað saman

Barnabörnin geta lært ýmislegt af þér og þú af þeim, en þið getið líka lært ýmislegt saman. Það er til dæmis hægt að skreppa í stutt ferðalag með barnabörnin, þegar þau eiga frí í skólanum.

Ef þú hefur áhuga á matargerð, getur þú tekið að þér kennslu á matreiðslunámskeiðum í sumarfríinu og boðið barnabarninu þínu með.

Þú getur líka tekið einn dag frá, og farið með barnabörnin út í náttúruna, þar sem þið getið upplifað ýmislegt saman. Takið til dæmis spjaldtölvu með, þar sem hægt er að fletta upp ýmsum fróðleik um fuglana sem þið sjáið, um söguna og fleira.  Svo er líka hægt að hlusta á spennandi podcast saman og verða margs vísari um allt milli himins og jarðar. (Podcast er aðgengilegt á netinu og hægt að setja það upp í bæði tölvum og símum fólki oft að kostnaðarlausu. Þar er að finna margvíslegt efni, til dæmis bæði útvarps og sjónvarpsefni: skýring Lifðu núna).

Leiðbeiningar á dönsku. Svona hlustar þú á podcast

  1. Annað sem hægt er að gera með börnum

Það er þannig ýmislegt sem hægt er að gera, þar sem þú deilir reynslu þinni og þekkingu og umgengst aðrar kynslóðir. Og Ældre sagen í Danmörku, bendir á sjálfboðavinnu fyrir eldra fólk. Það er til dæmis hægt að gefa kost á sér til að lesa með börnum í skólum eða á leikskólum. Leikskólinn er þá heimsóttur einu sinni í viku og lesið upphátt fyrir yngstu börnin. Slík sjálfboðavinna er einnig í gangi hér á landi, en líklega er það starf ekki jafn vel skipulagt og hjá frændum okkar Dönum.

 

 

Ritstjórn desember 17, 2019 07:03