Kona með eigin stíl

Diane Keaton er látin 79 ára að aldri. Hún var þekkt fyrir að vera blátt áfram og hógvær, en einstaklega fær leikkona. Hún lagði sig ævinlega alla fram við vinnuna og var atvinnumanneskja fram í fingurgóma. Hún skapaði sér snemma eigin stíl í klæðaburði og vék ekki frá honum alla ævi. Hún var einnig í hópi þeirra Hollywood-stjarna sem héldu áfram að vinna þótt aldurinn færðist yfir og síðasta myndir hennar eru Summer Camp og Arthur’s Whiskey sem frumsýndar voru í fyrra.

Árið 2023 kom framhaldsmynd, Book Club; Next Chapter. Þar leika þær Candice Bergen, Mary Steenburgen, Jane Fonda og Diane vinkonur sem eru saman í bókaklúbbi og styðja jafnframt hver aðra í ólgusjó lífsins, myndin er framhald af Book Club frá árinu 2018. Arthur’s Whiskey fjallar hins vegar um þrjár eldri konur sem uppgötva að maður einnar þeirra hafi náð að setja saman elexír er gerir fólk ungt að nýju. Þær bergja að sjálfsögðu á vökvanum en uppgötva að það er ekki allt fengið með að vera ungur að nýju og oft gera menn sömu mistökin aftur.

Diane Hall fæddist 5. janúar árið 1946 í Los Angeles. Hún var elst fjögurra barna þeirra She Johns Newtons Ignatiusar Hall og Dorothy Deanne Keaton Hall. Móðir hennar var áhugaljósmyndari og pabbi hennar verkfræðingur. Hún ólst upp í Santa Ana í Kaliforníu, sótti um og fór í bæði Santa Ana-háskólann og Orange Coast en fann sig ekki í náminu og hætti nítján ára í skóla og flutti til New York til að læra leiklist í The Neighboorhood Playhouse. Hennar fyrsta bitastæða hlutverk var í Broadway-uppsetningu á söngleiknum Hárinu en var ein af þeim sem neitaði að koma nakin fram í lokin þótt 50 dollara bónus byðist þeim sem það vildu.

Árin með Woody Allen

Diane sýndi og sannaði eftirminnilega hvers hún var megnug þegar hún lék í Looking for Mr. Goodbar en í þeirri mynd lék hún einmana konu í leit að ástinni sem geldur það dýru verði að taka ókunnugan mann heim með sér. Richard Gere lék morðingjann og var þetta fyrsta bitastæða kvikmyndahlutverk hans. Francis Ford Coppola valdi hana í hlutverk fyrri eiginkonu Michaels í Godfather árið 1972 og þar kynntist hún Al Pacino en þau voru elskendur um tíma.

Hún átti í löngu ástarsambandi við leikstjórann Woody Allen og hann valdi hana til að leika aðalhlutverk í flestum þeim myndum sem hann gerði meðan þau voru saman. Hún þótti frábær gamanleikkona en fljótlega fékk hún tækifæri til að sýna og sanna að hún var jafnvíg á dramatík. Hún kom fyrst fram með Woody Allen í Play It Again, Sam en áður hafði hún leikið sama hlutverk á fjölunum á Broadway. Næst kom Sleeper, þá Love and Death og árið 1977 Annie Hall en fyrir leik sinn í þeirri mynd fékk hún Óskarsverðlaun.

Í byrjun níunda áratugarins slitnaði upp úr sambandi hennar við Woody Allen en þau héldu áfram að vera vinir ólíkt því sem síðar gerðist þegar Allen kvaddi aðrar ástkonur sínar. Diane og Warren Beatty heilluðust hvort af öðru árið 1981 þegar þau léku saman í kvikmyndinni Reds og um tíma voru þau heitasta parið í Hollywood. Diane fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í Reds og hún var einnig tilnefnd fyrir Marvin‘s Room, hádramatíska mynd um konu sem hugsar um langveikan föður sinn og þarf að auki að takast á við veikindi móðursystur sinnar. Árið 1984 lék hún ofurlítið ráðvillta konu sem hryðjuverkamenn notfæra sér í Little Drummer Girl og sama ár kom út myndin Mrs Soffel þar sem hún lék á móti Mel Gibson.

Leikstýrði og tók ljósmyndir

Leiklistin ein nægði ekki til að Diane fengi útrás fyrir sköpunargleði sína. Hún sneri sér að leikstjórn og ljósmyndun og gat sér gott orð fyrir hvorutveggja. Hún leikstýrði heimildakvikmyndinni Heaven frá árinu 1987 sem vakti mikla athygli en hún fjallaði um fólk sem trúir á líf eftir dauðann og hvað það telur að bíði okkar að honum loknum. Hún tók einnig að sér að leikstýra einum þætti af sjónvarpsþáttunum frábæru Twin Peaks sem margir telja eitt frumlegasta og besta sjónvarpsefni sem gert hefur verið í Bandaríkjunum. Fyrsta kvikmyndin sem byggð var skálduðu handriti sem hún leikstýrði var svo Unstrung Heroes með Andie MacDowell og John Torturro í aðalhlutverkum en sú síðasta Hanging Up. Í henni lék hún sjálf eitt aðalhlutverkanna en handritið var byggt á skáldsögu eftir Deliu Ephron. Hún skrifaði líka tólf bækur um arkitektúr, tísku og sjálfsævisögu sína, Then Again.

Auk þeirra kvikmynda sem nefndar hafa verið nutu myndirnar First Wives Club, Father of the Bride og Something’s Gotta Give, sem hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir, gríðarlegra vinsælda og First Wives Club hefur fengið nokkurs konar „cult status“ í Bandaríkjunum. En það á við um kvikmyndir sem taldar eru klassískar og njóta mikilla vinsælda meðal ákveðinna hópa.

Diane var ein þeirra sem alltaf stóð framarlega í baráttu Hollywood-leikkvenna fyrir jafnrétti. Hún var mjög sjálfstæð og giftist aldrei en ættleiddi tvö börn, stúlkuna, Dexter og drenginn Duke. Diane þótti einstaklega smekkleg í klæðaburði og var margoft verið tiltekin sem ein af best klæddu konum í heimi. Hún klæddist gjarnan karlmannlegum fötum sem hún bar einkar vel. Margar konur kjósa hana sem fyrirmynd að því hvernig þær velja saman fatnað og í kjölfar frumsýningar Annie Hall komst það í tísku að konur klæddust skyrtum, karlmannlegum peysum og væru með hálsbindi svo að segja má að Diane hafi þar með lagt línurnar í tískunni og orðið svokallaður trendsetter. Nýlega var hún spurð af blaðamanni tímaritsins People hvað hún hefði helst lært um ævina. Hún svaraði á sinn hógværa hátt, „Aldurinn hefur ekki gert mig vitrari. Ég veit ekkert og ég hef ekkert lært.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.