Ég tæki með mér eldinn er lokasaga þríleiks Leilu Slimani um fjölskyldu sína. Hér endar saga þeirra Amin og Mathilde, Aisha og Mehdi skríða yfir miðjan aldur en Mia og Ines taka við keflinu. Þær vaxa upp við meira frjálsræði en aðrar stúlkur í Marokkó á þessum tíma og eru báðar metnaðarfullar, gáfaðar og sjálfstæðar.
Mia er frá fæðingu mjög sérstakur karakter. Hún er greind, ákveðin og ofsafengin í öllum tilfinningum sínum. Hún er mjög afbrýðisöm út í Ines þegar hún fæðist og stundar það að hrekkja litlu systur sína. Samt er Ines hennar einlægasti og mesti stuðningsmaður. Mehdi rís til hæstu metorða en fellur síðan í ónáð og það áfall verður meira en hann ræður við. Aisha á hinn bóginn stendur styrk sem klettur og sér fyrir fjölskyldunni ein upp frá því. Þær Mia og Ines fara báðar til Parísar að læra og það er einstaklega skemmtilegt að fá að upplifa tíðarandann í þeirri fallegu borg á tíunda áratugnum í gegnum augu þeirra systra.
Helsti styrkur allra bóka Leilu er hvernig hún kafar ofan í sálarlíf persóna sinna og sýnir hvernig ólíkir menningarheimar ná aldrei fyllilega að blandast eða sættast og sú staðreynd smitast frá einni kynslóð til annarrar. Mehdi á hinn bóginn þarf að bera þann kross alla ævi að hafa færst á milli stétta. Hann elst upp í sárri fátækt en nær að tilheyra efsta lagi samfélagsins. Þegar kerfið snýst gegn honum og hann missir embætti sitt missir hann um leið stöðu sína innan samfélagsins. Hann veit ekki hver hann er að hvaða hópi hann tilheyrir. Hið sama gildir um Fatímu, vinnukonu Daúd-hjónanna. Hún fer reglulega heim í hverfið sitt, til fjölskyldu sinnar en á ekki samleið þeim lengur. Hún hefur kynnst lífi menntafólks og borgarastéttarinnar, þráir að læra að lesa og skrifa og elskar Miu og Ines eins og þær væru hennar eigin dætur. Mia og Ines eru einnig alltaf utangarðs hvert sem þær fara, þrátt fyrir góða menntun, velgengni í starfi og fegurð eru þær arabar. Það er horft á þær með tortryggni og sumir hata þær og þegar þær svara af kurteisi og yfirvegun sýna hve fágaðar þær eru og greindar kemur það á óvart.
Sjálfsævisögulegt að mörgu leyti
Það er ómögulegt annað en tengja sögurnar við hennar eigin ævi og uppvöxt og sögu fjölskyldu hennar svo líkt er lífshlaup persónanna fjölskyldumeðlima höfundarins. En þetta er skáldsaga og hér er leitast við að endurspegla sögu tveggja landa í gegnum vandaða rannsókn á reynslu fólks af ólíkum uppruna af því að byggja upp líf eftir síðari heimstyrjöld. Þessi sterka fjölskyldusaga er margslungin og einstaklega skemmtileg.
Amma Leilu fæddist í Alsace í Frakklandi og varð í lok síðari heimstyrjaldarinnar ástfangin af marókóskum manni, hermanni í franska hernum. Hið sama á við um Mathilde í sögunni. Hún flytur með honum á afskekktan bóndabæ í eigu fjölskyldunnar og verður þar að skapa sér líf við óblíðar aðstæður og í samfélagi sem er henni með öllu ókunnugt. Hennar saga er saga sterkrar konu en um leið og við fylgjumst með hjónabandi hennar og Amin kynnumst við einnig um frelsisbaráttu þjóðar, systkinaböndum, samskiptum milli fólks frá ólíkum menningarheimum og dáumst að þeirri seiglu sem þarf til að byggja sér stað í nýju landi. Mathilde er útsjónarsöm, dugleg og gáfuð og ekki hægt annað en að verða hrifin af henni og þeir sem hafa lesið Í landi annarra og Sjáið okkur dansa eiga eftir að fagna því að kveðja hana með þessari bók þótt ljúfsárt sé
Leila Slimani er verðlaunaður rithöfundur og þekktur og virtur blaðamaður sem hefur spjallað við jafnt háa sem lága í Frakklandi. Samt þekkir hún þessa tilfinningu að standa fyrir utan, horfa á samfélagið bæði sem aðkomumaður og íbúi. Leila ólst upp í Rabat í Marokkó. Faðir hennar, Othman Slimani, var um tíma fjármálaráðherra landsins en fór síðan að vinna í banka. Móðir hennar, Béatrice-Najat Dhobb-Slimani, er skurðlæknir. Á heimilinu ríkti mikið frjálslyndi og dæturnar þrjár gengu í franska skóla og fengu að láta í ljós skoðanir sínar og velja sér framtíðarstarfsvettvang en gerólíkt andrúmsloft ríkti utan veggja þess. Viðhorf til kvenna í Marokkó eru íhaldssöm og þær eiga fárra kosta völ annarra en að vera undirokaðar eiginkonur og njóta almennt lítillar menntunar.
Sautján ára hélt hún til Parísar til að nema stjórnmálafræði en eftir útskrift vann hún um tíma sem leikkona. Líf fjölskyldunnar hennar var hins vegar lagt í rúst þegar faðir Leilu var sakaður um fjármálamisferli og dæmdur í fangelsi. Reyndar kom í ljós eftir að hann lést, skömmu eftir að hann var látinn laus, að hann var saklaus. Þá var Leila tuttugu og tveggja ára. Hún kynntist eiginmanni sínum þremur árum síðar en þá var hún farin að vinna við blaðamennsku og fyrsta bókin hennar kom út eftir að hún hafði sótt námskeið í ritlist. Þá hafði hún farið bónleið til búðar með handrit að skáldsögu til allra útgefenda í París. Sagan Barnagæla eða Chanson Douce kom út árið 2016 en fyrir hana hlaut hún ein virtustu bókmenntaverðlaun Frakka Prix Concourt en sú bók hefur einnig verið þýdd á íslensku.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.