Geitin hans Picassos

Steingerður Steinarsdóttir

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

 

Ég gleymi því aldrei þegar ég sá hana fyrst. Ég var í námsferð ásamt öðrum nemendum í fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands og við fengum að heimsækja MOMA eða Museum of Modern Art. Við gengum inn í anddyrið og vorum varla komin inn í sjálft safnið þegar hún blasti við, standandi við rætur stigans upp á efri hæðirnar. Ég horfðist þess vegna í augu við hana fyrst af öllu og þvílíkt augnaráð.

Hún var greinilega íhugandi og greind þessi geit, góðleg en á sama tíma tortryggin og staða framfótanna gaf til kynna að hún væri viðbúin öllu. Það var engu líkara en hún segði: „Hreyfðu þig vitlaust manneskja, sýndu mér ógn og ég læt finna fyrir mér en ef þú sýnir mér virðingu skal ég láta þig óáreitta, jafnvel leyfa þér að klappa mér.“

Og það var einmitt það sem ég gerði. Eiginlega var ekki hægt annað en að snerta þessa bronsstyttu, siginn hrygginn, síð júgrin, þaninn kviðinn með nánast fullvaxið kið innbyrðis, eina ferðina enn. Það sagði mér þreytulegur líkaminn að hún hafði mörg heilbrigð kið í heiminn borið og kannski höfðu sum eða jafnvel öll verið tekin af henni. Kannski var hún að segja mér að þessu ætlaði hún að halda hvað sem það kostaði. Ég veit bara að mig rak í rogastans og þarna í anddyri MOMA stóð ég í tilfinningastormi og vissi að ég hafði rekist á einstakt listaverk.

Ég var í senn heilluð af hagleiknum og listfenginu sem þurfti til að endurskapa þessa geit og full reiði vegna þess óréttlætis sem ég upplifði að þetta dýr hefði mátt þola í lífi sínu því ég var þess fullviss að Picasso hefði haft lifandi fyrirmynd að styttunni. Mig langaði að hugga geitamömmu, taka hana að mér, gefa henni nóg að borða og umfram allt leyfa henni að njóta friðar og gleði með kiðinu sínu á meðan hún ól önn fyrir því. Ég sá fyrir mér grænan haga og notalega kyrrð í íslenskri sveit eða griðastað á Spáni fyrir spænskar geitur. Sama hvar væri þá átti hún skilið að fá hvíld, eiga notalegt ævikvöld.

Ég sleit mig á endanum frá geitinni og elti ferðafélaga mína um safnið en hún hvarf ekki úr huga mér og ég sagði öllum frá geitinni hans Picassos þegar ég kom heim. Síðan hef ég margoft heimsótt MOMA og í hvert sinn staldra ég við hjá geitinni. Leita hana uppi fyrst af öllum og rifja upp andlitið svo fullt af lífi, vinnulúinn skrokkinn og þvermóðskufulla þrautseigjuna sem skín úr hverjum drætti þessarar mögnuðu myndar. Kannski er þrautseigja verðmætasti eiginleikinn eftir allt saman, ekki gáfur, ekki hæfileikar, ekki dugnaður, ekki framkvæmdagleði heldur fyrst og fremst seiglan sem pínir mann til að gefast aldrei upp.