Erum venjulegt fólk sem finnst gaman af að syngja

„Hvar sem söngvar hljóma þér hefur þú samfylgd góða,“ orti Goethe og Þorvaldur Örn Árnason og Ragnheiður Elísabet Jónsdóttir taka sannarlega undir það. Þau hafa um árabil verið helstu hvatamenn í Söngfélaginu Uppsiglingu en sá skemmtilegi félagsskapur er óformlegt söngfélag sem hefur gaman af að syngja með frjálslegu sniði. Okkur lék forvitni á að vita meira.

„Við komum saman annan hvern föstudag yfir veturinn og syngjum okkur til ánægju við eigin undirleik. Flestir eru úr Reykjanesbæ, en einnig fólk úr Sandgerði, Garði, Vogum og fáeinir af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorvaldur Örn. „Oftast syngjum við saman í Skátaheimilinu í Keflavík en af og til á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsum söngfélaga. Það mæta á bilinu 10 – 25 manns í senn sem er ágætur fjöldi fyrir hópsöng af þessu tagi.

Tilgangurinn með félaginu er að fólk fái tækifæri til að syngja saman, þjálfast í einföldum samsöng, læra lög og texta og hafa af því gaman.  Á sama hátt tækifæri fyrir hljóðfæraleikara að halda sér í þjálfun og þróa sinn stíl. Einnig að halda lífi í gömlum lögum og textum sem margir eru búnir að gleyma og heyrast of sjaldan.“

Margvísleg hljóðfæri fá að hljóma

Á æfingum sönghópsins er leikið undir á gítara, mandólín, bassa, ýmis ásláttarhljóðfæri, stundum harmóniku og stöku sinnum fiðlu. Undirspilið er því fjölbreytt og margvísleg hljóðfæri koma við sögu. Safnast að ykkur svona mikið af góðu tónlistarfólki?

„Við erum bara venjulegt fólk sem finnst gaman að syngja. Við erum fastur kjarni, fáein okkar búin að vera með frá upphafi, í tæp þrjátíu ár en líka dálítil endurnýjun, enda nokkrir farnir yfir móðuna miklu. Hljóðfærin eru tveir til þrír gítarar, mandólín, bassi og ásláttarhljóðfæri,“ segir Ragnheiður Elísabet.

Sönghópurinn Uppsigling er augljóslega skemmtilegur félagsskapur sem gefur fólki mikið. Hvað er að þínu mati ánægjulegast við að syngja saman?

„Samsöngur sameinar, tengir fólk saman. Þar leiðir haltur  blindan, því fólk getur sungið með þó það treysti sér ekki til að syngja einsöng,“ segir Ragnheiður Elísabet. „Við lærum lög og texta og höldum gömlum söngarfi lifandi. Svo er þetta gaman. Maður mætir á föstudagskvöldi, lúinn etir puð vikunnar, og fer óþreytarri heim síðar um kvöldið.

Uppsigling heldur ekki tónleika en við förum stundum út á meðal fólks og syngjum fyrir það og með því í senn, einkum með eldri borgurum. Höfum tekið þátt í Ljósanótt, skemmtikvöldum félagasamtaka og afmælissamkvæmum félagsmanna. Við förum stöku sinnum í aðra landshluta, svo sem á Vestfirði og Suðurland og syngjum þar gjarna með heimafólki.“

Hafa gaman af tónlist og iðkun hennar

Í nýlegri fréttatilkynningu kemur fram að Uppsigling hefur starfað frá 1995. Forveri hennar var Söng- og skemmtifélagið Samstilling, sem starfaði með líkum hætti í Reykjavík 1984 – 1995. Það var heldur stærra félag og var sungið á hverju mánudagskvöldi á veturna, síðustu árin í Hljómskálanum. Þar var byrjað að safna söngtextum í möppu og fjölfalda fyrir félagsmenn. Fólk kom með handskrifaða eða prentaða texta sem hópurinn prófaði. Þau lög sem féllu fólki í geð fóru síðan í möppuna og hún þykknaði með árunum. Þorvaldur er forsprakki Uppsiglingar ásamt konu sinni, Ragnheiði Elísabetu Jónsdóttur, eruð þið hjónin mikið söngfólk og tónlistaráhugafólk?

„Við höfum gaman af tónlist og iðkum hana. Höfum áður sungið í kórum og líka með nemendum okkar, en við erum bæði kennarar. Svo er meðal okkar fólk sem semur lög og texta. Við syngjum mest lög sem flestir kunna, en einnig lög sem fáir kunna nema við sjálf,“ segir hann.

Ragnheiður Elísabet og Þorvaldur Örn stofnuðu Uppsiglingu fyrir um það bil þrjátíu árum en þá fluttu þau í Keflavík og síðar í Voga. Þau ásamt tryggum félögum hafa haldið áfram að bæta við söngvamöppuna og hjón í félaginu tóku að sér að setja hana smekklega upp. Mest eru dægurlög í möppunni. Dæmi eru um texta og lög sem félagsmenn hafa gert sjálfir til að mynda Ásgeir Ingvarsson sem starfaði með Samstillingu þar til hann lést um 1990. Textaskáldið Haraldur N. Kristmarsson og söngvaskáldið Ólafur Sigurðsson tilheyra einnig hópnum.

Hvað er framundan hjá Uppsiglingu á næstunni? „Við komum saman og syngjum annað hvert föstudagskvöld á veturna, oftast í skátahúsinu í Keflavík. Þar sitjum við í hring og skiptumst á að velja lögin sem við syngjum saman. Næst föstudaginn 1. desember klukkan átta. Þarnæst föstudaginn 15. desember og þá syngjum við jólalög. Svo komum við af og til fram annars staðar og fáum þá fólk til að syngja með okkur. Dreifum textum og leiðum sönginn og leikum undir. Síðast vorum við í bókasafninu i´Keflavík á degi íslensrar tungu og sungum m.a. texta eftir Jónas Hallgrímsson, m.a. við nýtt lag eftir Ólaf Sigurðson, einn í okkar hópi. Þar áður komum við fram á samsöng í Hannesarholti í Reykjavík 21. okt. Þá sungum við eingöngu texta eftir Jónas Árnason, enda hefði hann orðið 100 ára í ár. Það var allt tekið upp og hægt að hlusta hér, þið sem eruð með aðgang að facebook: https://www.facebook.com/Hannesarholt/videos/193913123746495,“ segir Þorvaldur Örn að lokum.

Ritstjórn nóvember 29, 2023 07:00