Harmónika, orgel og saxófónn berjast um völdin

Ég sótti hjónin Agnesi Löve píanóleikara og tónlistarmanninn Reyni Jónasson heim í júní árið 2022 í þeim tilgangi að fá þann síðarnefnda til að fara í fáum orðum yfir líf sitt og list. Auðvitað var sól í heiði og um tíma sátum við á veröndinni sem hefði eins getað verið lengst suður í álfu. Ég hafði oft komið til þeirra hjónanna í Akrasel 25 í Breiðholtinu og notið gestrisni þeirra og tónlistar í einhvers konar ævintýraheimi. En nú var engin tónlist, bara rödd tæplega níræðs öldungsins sem rifjaði upp liðin atvik með þeirri hógværð og því lítillæti sem er Þingeyingum í blóð borið.

Ljósmynd úr Sjálfstæðishúsinu 1960. Hljómsveit Svavars Gests. Frá vinstri: Svavar Gests, Reynir Jónasson, Gunnar Pálsson, Örn Ármannsson, Magnús Ingimarsson og Ragnar Bjarnason.

Ljósmóðirin brá sér í kaupstaðinn

„Ég fæddist síðla dags 26. september 1932 á Helgastöðum í Reykjadal, áttundi í röðinni af 10 systkinum. Foreldrar mínir voru Jónas Friðriksson og María Sigfúsdóttir. Ljósmóðirin hafði beðið hjá okkur í viku án þess nokkuð gerðist en þá brá hún sér í kaupstaðarferð til Húsavíkur og ég fæddist náttúrlega á meðan hún var þar. Emilía Friðriksdóttir föðursystir mín tók á móti mér og fórst það vel úr hendi. En það hafði víst líka verið kallað á héraðslækninn Harald Jónsson; hann varð síðar frægur sem héraðslæknir í Vík í Mýrdal, faðir Jóns Thors Haraldssonar.

Mín fyrsta minning er sú að ég þykist muna að vera staddur úti á hlaðinu á Helgastöðum í glampandi sól. Benedikt  Bjarklind frændi minn (við vorum systkinasynir; hann var sonur Sigurðar Bjarklind og Huldu skáldkonu) er að tala um að hávaði sem hafði komið úr í vestri mundi hafa stafað af jarðskjálftanum á Dalvík; það var í júlímánuði 1934. Ég hef þá ekki verið orðinn tveggja ára.“

Bakhlið plötuumslagsins utan plötuna, Leikið tveimur skjöldum. Ljósmyndari: Sigurgeir Sigurjónsson.

Hulda skáldkona og bókin

„Maður lærði snemma að lesa. Hulda skáldkona (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind) sagði að ég væri svo skýr; og hún lofaði að gefa mér bók eftir sig. Sú bók var ekki komin út og ég fékk hana reyndar aldrei. En Hulda gaf mér seinna aðra bók sem hét Skrýtnir náungar og var eftir Gunnar M. Magnúss og ég las hana upp til agna.

Ég var sendur í próf 7 ára í lestri, skrift og reikningi. Menn áttu helst alltaf að fá  10 í lestri. En sjálf skólagangan byrjaði ekki fyrr en við tíu ára aldur og var þá tvisvar sinnum þrjár vikur á vetri og ekkert eftir fermingu. Á afmælisdaginn minn þegar ég var fimmtán ára skreiddist ég svo gegnum inntökuprófið í Menntaskólann á Akureyri. Pabbi þekkti Þórarin skólameistara frá þeim tíma þegar afi minn var landpóstur og fór frá Grenjaðarstað til Skinnastaðar og kom þá við á Víkingavatni. Pabbi hafði leyst hann af og þannig kynnst Þórarni sem var unglingur heima á Víkingavatni.

Það var tæpt með inntökuprófið en mér fór að ganga betur og betur í náminu og var með þeim hæstu í 3. bekk. En þá gerðust þau ósköp að það var stofnuð hljómsveit í skólanum; og harmónikan fór að taka mikinn tíma frá mér.“

Málverk eftir Árna Elvar.

Ekkert útvarp. Ærbókin

„Það var ekkert útvarp á Helgastöðum fyrr en ég var kominn undir fermingu og því engin tónlist úr þeirri átt. Afi var á móti útvarpi, hann var eini sjálfstæðismaðurinn í sveitinni og lítt hrifinn af Jónasi Þorbergssyni útvarpsstjóra og framsóknarmanni. En Jónas hafði heillað elstu dóttur hans, Emilíu guðmóður mína. Ég held að sá gamli hafi hreinlega spillt þeirri æskuást. Sagan er sú og svo sem ágæt, hvort sem hún er sönn eða login. En útvarpið kom! Amma var þá lögst í kör, og syni hennar og tengdadóttur á Hömrum fannst ótækt að hún fengi ekki jólamessu og þau lánuðu okkur því útvarpið sitt! Svo fengum við útvarp skömmu seinna; ég var þá kominn um fermingu.

Ég fór að fikta við orgelið á Helgastöðum mjög ungur. Pabbi var organisti í Neskirkju í Reykjadal; seinna varð ég svo organisti í annarri Neskirkju í tæp 30 ár, Neskirkju í Reykjavík. Ég hékk í orgelinu og fór að reyna að spila nótur níu eða tíu ára, klóraði mig áfram í Ærbókinni svokölluðu sem líka var kölluð Rollubók vegna myndarinnar sem var framan á henni, en hét reyndar Íslenskt söngvasafn. Þar var lag númer 26 sem hét Frelsið helga og hreina. Það var ekkert formerki fyrir því, og ég fór að reyna að spila þetta með hægri hendi. Ég fór svo jafnframt að fikta við að raddsetja dans- og dægurlög.“

Friðrik frændi og Lissý á Halldórsstöðum

„Friðrik Jónsson frændi minn sem var vel þekktur fyrir að semja lög, sonur Emilíu frænku minnar á Halldórsstöðum (við vorum systkinasynir í báðar ættir), hafði heyrt mig spila lag sem ég man ekki hvað heitir; hann sat niðri í eldhúsi en ég uppi á lofti við orgelið. Hann sagði mér seinna, og var þá við skál á Halldórsstöðum, að hann hefði lært þetta lag af mér. Hann sagði mér að hann þyrfti að kenna mér á bassann á harmónikunni sinni, og hann kenndi mér þrjá bassa. Og þessir þrír bassar eru það eina sem ég hef lært á hamóniku. Það var dásamlegt að fá að reyna þetta. Friðrik geymdi harmónikuna sína heima á Helgastöðum þegar hann hafði verið að spila (var ekki í stuði til að bera hana á bakinu í hvíta pokanum yfir ána). Þá gat ég hamast á hana. Þetta var bara sjálfsnám. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég eignaðist harmóniku. Orgelið var því aðalafþreyingin.

Ég hafði miklar mætur á enskri nótnabók sem hafði að geyma laglínur úr frægum aríum, einkum kristilegri músik. Lissý Þórarinsson, skosk kona á Halldórsstöðum í Laxárdal, hafði gefið pabba þessa bók. Ég klóraði mig í gegnum þetta. Lissý hafði komið 17 eða 18 ára í sveitina og gifst 20 árum eldri manni og eignast með honum tvo syni. Hún hafði engilfagra rödd. “

Teikning á plötuumslagi, Leikið tveimur skjöldum 1987. Myndina teiknaði Kristinn Torfason.

Menntaskólinn. Jón Bjarman og Hanna

„Það var fjölmennt á Helgastöðum og fjörugt heimilislíf og mikið sungið. Oft voru 15–20 manns í heimili. Fjórar fjölskyldur voru þar einn veturinn, þar á meðal föðurbróðir minn, Halldór, og Þorgerður kona hans og dóttirin Steinunn sem var tveimur árum eldri en ég. Þau ákváðu að flytjast til Akureyrar og keyptu sér þar lítið hús, Sólvelli, þegar ég var um fermingu. Ég hafði sýnt því áhuga að fara í Menntaskólann á Akureyri og það varð að ráði en hefði sennilega ekki getað orðið nema af því að ég fékk að búa hjá þeim hjónum, Halldóri og Þorgerði, tvö fyrstu menntaskólaárin. Fyrir það er ég þeim ævinlega þakklátur. Friðrik bróðir minn, sem hafði unnið á skurðgröfu og þénað vel, 3200 krónur (þrjátíu og tvo hundraðkalla!), gaf mér einn hundraðkall, og Snorri bakari frændi minn gaf mér svo annað eins eftir að ég þreytti inntökuprófið. Þetta var mikill peningur. Pabbi átti enga hundraðkalla.

Svo þurfti að kaupa námsbækurnar. Þá var það að Jón Bjarman, einn sá fyrsti sem ég kynntist á Akureyri, fór með mig heim til sín þar sem eldri systkini hans og margir frændur úr Skagafirðinum höfðu verið og stundað nám. Þarna höfðu námsbækur safnast saman, og þar fékk ég næstum allar bækurnar sem ég þurfti. Jón Bjarman varð seinna prestur. Hann hafði kynnst Hönnu Pálsdóttur frá Skinnastað snemma á skólagöngunni. Þau urðu miklir vinir mínir. Hún hætti skólagöngu til að geta unnið fyrir honum, hún var alveg einstök kona. Allt sem hún gerði, gerði hún betur en annað fólk. Þau voru albestu vinir mínir öll sex skólaárin á Akureyri.“

Skólahljómsveit MA 1950, myndina teiknaði Oddur Björnsson

Skólahljómsveitin og Oddur Björnsson

„Jón Aðalsteinsson náfrændi minn, seinna yfirlæknir á Húsavík, var einnig í skólanum, mjög góður harmónikuleikari en sinnti því ekki mikið. Við spiluðum mikið saman. Menntaskólinn átti harmóniku sem Lýður Sigtryggsson, seinna Norðurlandameistari í harmónikuleik, hafði átt og selt skólanum. Mig langaði mikið að komast í hana en reyndi það ekki lengi vel enda var Sölvi Eysteinsson alltaf að djöflast á henni; hann var í 6. bekk en ég í 1. bekk. En þegar ég var kominn í 3. bekk kom Ingvar Níelsson frá Neskaupstað í skólann, seinna verkfræðingur og fór út um allan heim, hinn nýtasti maður; hann spilaði á gítar og klarinett og vildi drífa í að stofna hljómsveit. Gissur Pétursson slóst í hópinn, seinna augnlæknir í Bandaríkjunum, góður píanisti; og Þorsteinn Jónsson sem spilaði á trommur. Oddur Björnsson, seinna leikritahöfundur, teiknaði mynd af okkur sem ég á enn. Og nú var ákveðið að ég fengi að hafa þessa menntaskóla-nikku. Við fórum að spila á skólaböllum. Og þá fóru einkunnirnar mínar að lækka. Svo voru settar upp leiksýningar þar sem við spiluðum. Þetta var mikil vinna og margar sýningar en ekki mikið þakkað fyrir! Ég hafði asnast til að fara í stærðfræðideild og fékk þar háa mínusa og rétt skreiddist í gegn. Á lokahófinu eftir stúdentsprófin sagði Friðrik Þorvaldsson frönskukennari mér frá því brosandi að Þórarinn skólameistari hefði komið til sín flaumósa þar sem Friðrik var að ganga frá einkunnum eftir síðasta munnlega prófið og sagt: „Hann Reynir verður bara að fá 5,52 í frönsku, annars er hann fallinn.“ Það vildi svo til að þeir höfðu einmitt verið að gefa mér 5,52.“

Mynd á plötuumslaginu utan um plötuna, Dansinn dunar. Sigurður Hallmarsson (Diddi Hall) og Reynir Jónasson. Þeir fóru víða um sveitir og spiluðu á Húsavíkurárum Reynis.

Saxófónninn og Jose Riba

„Í 5. bekk vorum við farnir að spila fimm saman, Gissur, Ingvar, Þorsteinn Jónsson og Jón Aðasteinsson Þá var ég kominn með altsaxófón. Ég skil aldrei hvernig ég gat eignast hann. Ég hafði verið svo heppinn að frændi minn Kristján bakari, sem var stöndugur maður, bauðst til að borga fyrir mig kennslu á saxófón hjá Jose Riba sem hafði flust til Akureyrar frá Spáni; hann hafði náð sér í akureyrska konu fyrir stríð og eignaðist með henni tvo syni. Ég fór í tíma til hans og hann var alveg frábær kennari. Og áður en ég vissi af var ég farinn að spila í skólahljómsveitinni á þetta nýja hljóðfæri. Þetta tók allt sinn tíma og maður þurfti að æfa sig heilmikið. En það var auðvitað miklu skemmtilegra að æfa sig á saxófóninn en lesa stærðfræði! Það voru ekki allir jafnánægðir með þetta á heimavistinni. Ég man að Jón Pétursson, síðar dýralæknir, hundskammaði mig eitt kvöldið fyrir þetta „helvítis gaul“ og sagði að hann Ágúst lægi fárveikur í næsta herbergi; Ágúst Þorleifsson var frá Dalvík og varð líka dýralæknir. Ég var kannski enginn afburða saxófónleikari en ég eignaðist mjög góðan saxófón sem Óskar Guðjónsson, okkar frægasti saxófónleikari, bað mig seinna um leyfa sér að sitja fyrir að fá ef ég seldi hann. Og ég gerði það svo síðar, en Óskar átti fyrir 12 eða 13 saxófóna. Svo frétti ég það nú nýlega að Jóel Pálsson, sem er annar saxófónsnillingur, sæi svo mikið eftir að hafa ekki eignast saxófóninn minn.

Seinustu tvö skólaárin spilaði ég sem sagt í hljómsveit í Alþýðuhúsinu. Þá leigði ég mér herbergi í Þórunnarstræti enda farinn að vinna fyrir mér. Ég smakkaði ekki áfengi á þessum árum.“

Djass teikning eftir Árna Elvar.

Sveitaböll og óvænutr gestur á Breiðumýri

„Ég fór alltaf heim í sveitina á sumrin þó ekkert kaup væri að hafa heima. Maður að nafni Karl Adolfsson spilaði á Hótel Norðurland, og hann vantaði saxófón og skipti við mig, fékk saxófóninn minn en ég harmónikuna hans. Mig vantaði þá einmitt harmóniku til að geta spilað á böllum í sveitinni og þénað peninga. Þannig tapaði ég fyrsta saxófóninum mínum. Um haustið varð ég svo að selja harmónikuna til að geta komist í 5. bekk. En þá gat ég fengið nikkuna sem skólinn átti.

Ég hitti Svavar Gests fyrst fyrir norðan. Hann var á ferð um landið með heimsfrægum norskum tónlistarmanni, Torolf Tollefsen, sem hélt tónleika á Breiðumýri. Þetta var árið 1953. Það var metaðsókn að þessum tónleikum og menn lágu á gluggunum uppi á bílpöllum til að geta orðið vitni að þessum viðburði. Við Jón frændi minn spiluðum svo á balli sem haldið var eftir tónleikana. Svavar borgaði okkur vel; við áttum að fá 200 krónur en Svavar borgaði 250 krónur hvorum okkar,“ segir Reynir að lokum í þessum fyrsta hluta minninga hans en næstu tveir verða birtir hér á Lifðu núna 28. og 29. desember.

Baldur Hafstað skrifar fyrir Lifðu núna

Ritstjórn desember 27, 2023 07:00