Er hægt að elska en iðka vandlætingarsemi á sama tíma? Þeirri spurningu er svolítið erfitt að svara en Kristín Svava Tómasdóttir bregður upp einstaklega litríkri og listavel teiknaðri mynd af Jóhönnu Knudsen. Í þeirri konu birtist bæði margvíslegar og áhugaverðar andstæður. Hún er sérlega flókinn persónuleiki og í henni mætast metnaður, hugsjónaeldur, fullkomnunarárátta, skilningsleysi og dómharka en mildi, velvild og brennandi löngun til að bæta líf annarra. Fröken Dúlla er ein skemmtilegasta ævisaga sem ég hef lesið um ævina.
Kristínu Svövu tekst ekki bara að draga upp heildstæða og áhugaverða mynd af merkilegri konu heldur einnig að bregða ljósi á tíðaranda sem er okkur flestum framandi og í raun óskiljanlegur. Nútímafólk á erfitt með að ímynda sér þá tilfinningu yfirvofandi ógnar sem ríkti á stríðsárunum. Hún átti ekki bara rætur í þeirri staðreynd að úti í Evrópu geisuðu stríðsátök heldur einnig í því óöryggi sem skapaðist þegar Ísland sleit sig frá Dönum. Margir voru uggandi um að þjóðin gæti staðið undir sjálfstæðinu og töldu að lýðræðið stæði á brauðfótum sem lægi á að treysta með öllum ráðum.
Ungmennafélagsandinn ríkti enn ómengaður og margt fólk var innblásið af hugsjónum um uppbyggingu lands og þjóðar með áherslu á varðveislu menningararfsins. Þjóðernishyggja nasista hafði sömuleiðis haft áhrif víða um Evrópu og teygði anga sína einnig hingað til Íslands. Kvenréttindabaráttan var skammt á veg komin og umtalsverðar þjóðfélags- og efnahagsbreytingar urðu í kjölfar hernámsins. Þrátt fyrir það er undarlegt hversu harkalega var tekið á samskiptum íslenskra kvenna við hermenn. Jóhanna Knudsen stundaði það sem kallað hefur verið viðamestu persónunjósnir Íslandssögunnar og var ekki ein að. Hún naut hjálpar leigubílstjóra, lögreglumanna og almennra borgara.
Valdamiklir karlmenn studdu Jóhönnu
Forsætisráðherrann, Hermann Jónasson og Vilmundur Jónsson landlæknir voru á sömu skoðun og hún um að ástandið yrði að uppræta og siðferði íslenskra kvenna væri í stórhættu. Þeir studdu hana ötullega og komu meira að segja á fót velferðarnefnd sem hafði það verkefni að leggja til úrbætur út frá m.a. upplýsingum sem Jóhanna hafði safnað. Árangur af starfi nefndarinnar var sá að stofnað var stúlknaheimili að Kleppjárnsreykjum og stúlkur voru teknar af heimilum sínum og sendar í sveit. Margar voru meira að segja neyddar til að gangast undir þá niðurlægingu að skoðað væri hvort meyjarhaft þeirra væri rofið eður ei. Það gerði Kristín Ólafsdóttir læknir og eiginkona landlæknis.
Komið var fram við ungar stúlkur undir lögaldri eins og sakamenn af yfirvöldum, þær yfirheyrðar og dæmdar fyrir sérstökum ungmennadómstól. Þá var og útbreidd sú skoðun að samskipti íslenskra kvenna við hermenn væri vandamál sem þyrfti að leysa, jafnvel með lögregluvaldi og afskiptum stjórnvalda. Margar stúlknanna lýstu kynferðisofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir af hendi íslenskra karlmanna, jafnvel inni á heimilum sínum en á engan hátt var brugðist við því. Það er sorglegt að hugsa til þess.
En Jóhanna var margt annað en lögreglukona sem lagðist persónunjósnir og harkalegar aðgerðir til „bjarga ungum stúlkum á glapstigum“. Hún starfaði lengi við skrifstofustörf, var hjúkrunarkona og mjög fær sem slík, hún gerðist ritstjóri eftir að heimstyrjöldinni lauk og sendi frá sér metnaðarfull og vönduð tölublöð og hún framleiddi fallega minjagripi sem báru vitni um metnað hennar fyrir hönd þjóðar sinnar. Hún var mótuð af starfi Góðtemplarareglunnar á Íslandi en faðir hennar var þar mjög virkur og í raun öll fjölskyldan. Hún var náttúruunnandi og án efa mikil hagleiksmanneskja. Hún var tilbúin að berjast fyrir öllu sem hún taldi rétt og hún var sannfærð um að hún væri að bjarga þeim stúlkum og konum sem hún hafði afskipti af á stríðsárunum. Hún virðist alls ekki hafa áttað sig á að þessi aðferð, að handtaka stúlkur og dæma þær fyrir að eiga samskipti við erlenda hermenn, var kolröng og það er eins og engin rök nái til hennar. Það kemur meðal annars vel fram í bréfaskriftum hennar og Benedikts Stefánssonar síðasta forstöðumanns vinnuheimilisins að Kleppjárnsreykjum. Hún virðist lítinn skilning hafa haft á því að í mörgum tilfellum var hún að reyna að stía í sundur fólki sem var ástfangið.
Hins vegar er alveg ljóst að minning Jóhönnu hefur verið mjög svert í gegnum tíðina og hún of mikið tengd þessum fjórum árum af ævi hennar sem hún starfaði fyrir lögregluna í Reykjavík. Það má heldur ekki gleymast að þótt Jóhanna hafi verið mikill drifkraftur í aðgerðum yfirvalda og gengið persónulega mjög hart fram í að elta uppi og njósna um konur sem umgengust hermenn átti hún valdamikla skoðanabræður sem færðu henni völd til gera þetta. Kristín Svava hefur fært okkur frábæra bók, einstaklega skemmtilega og meistaralega uppbyggða. Það er hrein ánægja að lesa hana og í henni svo ótalmargt að uppgötva, ígrunda og geyma með sér.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







