Eiginlega ólýsanleg bók

Eiginlega er ekki hægt að lýsa Kortabók skýjanna og erfitt að forma einhvers konar álit á henni. Ég er ekki ein um að vera í senn svolítið ringluð eftir lesturinn og ýmist lýsa gagnrýnendur þessari bók sem snilldarverki eða algjörri vitleysu. Kannski minna viðbrögðin að einhverju leyti á álit manna á Ódysseifi eða Ulysses eftir James Joyce. Hægt er að segja að þetta er ekki ein saga heldur margar, skrifaðar með mjög mismunandi stíl og tilraunakenndri notkun tungumálsins á köflum og alveg óhætt að fullyrða David Mitchell er frumlegur höfundur.

Bókin var tilnefnd til Man Booker-verðlaunanna árið 2004 en hlaut þau ekki. Segja má að skipta megi sögunni upp í ellefu hluta og hver og einn hefur sinn stíl, sitt sögusvið, sína tímalínu og segir sérstaka sögu. Það er þess vegna ómögulegt að gefa einhvers konar hugmynd af um hvað hún fjallar því hver hluti er margbrotinn og þeir eru misáhugaverðir. Eitt er þó víst að höfundur skrifar af gríðarlegum metnaði og löngun til að gera vel. Frásagnargleði og lífleg sköpunarþörf skín í gegnum textann og skilar sér beint til lesandans.

Sagan hefst í Suðurhöfum um miðja nítjándu öld og segir þar frá Adam Ewing lögbókanda frá San Francisco á leið til hinna afskekktu Chatham-eyja. Honum líður ekki vel um borð en andrúmsloftið þar einkennist af ofbeldi og kúgun. Næst kynnumst við Roberts Frobishers í gegnum bréf sem hann skrifar til elskhuga síns, Rufusar Sixsmith skömmu eftir fyrri heimstyrjöld. Robert er á flótta frá Englandi, hefur komið sér þar í skuldir og valdið hneykslan en tekst að kjafta sig inn á aldraðan mann, Vyvyan Ayrs. Sá er tónskáld og Robert starfar sem ritari hans.

Lesandinn þarf að skálda í eyðurnar

Þriðji hlutinn hleypur aftur á móti fram til áttunda áratugar síðustu aldar og þar kynnumst við Louisu Rey, hugrökkum blaðamanni, sem gerir allt hvað hún getur til að ná skýrslu vísindamannsins Rufusar Sixsmith um hönnunargalla á kjarnakljúfi sem stendur til að byggja. Fjórði hlutinn gerist í nútímanum eða réttara sagt á tuttugustu og fyrstu öld og þá fylgjumst við með Thomasi Cavendish, sextugum útgefanda sem er lokaður inni á elliheimili. Þannig mætti halda áfram lengi að telja upp sögur og persónur þessarar flóknu bókar en fyrstu kaflarnir enda allir á æsispennandi augnablikum og lesandinn verður að sætta sig við vita ekki hvað gerist næst eða skálda í eyðurnar.

Þemun hér eru margvísleg, spilling bæði í einkalífi, gagnvart öðrum í umhverfinu og á valdsviði sínu. Valdatafl, græðgi, samviskuleysi og siðleysi koma einnig við sögu og það er eins og allar sögupersónurnar séu dæmdar til að eyðileggja það sem þeim er dýrmætasta. „Því allir drepa yndi sitt, þess engin dyljist sál.“ segir í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar á Kvæðinu um fangann eftir Oscar Wilde. Loftslagsváin kemur við sögu í seinni hlutunum og þar birtist nöturleg framtíðarsýn. Aðeins í sjötta hlutanum semur höfundurinn endinn fyrir lesandann. Þótt sögurnar séu sjálfstæðar tengjast þær þó að vissu leyti, til dæmis finnur Robert dagbók Adams Ewing á heimili Vyvyans, Luisa finnur bréf Roberts í leit sinni að skýrslunni og heyrir tónlist sem Robert var að semja í Brugge og Thomas fær senda til sín bók Luisu Rey og fleiri svona smáatriði tengja eitt og annað.

Að sumu leyti er þetta allt saman léttur og skemmtilegur leikur af hálfu höfundar en alvaran undir niðri er hins vegar of djúp til að hægt sé að taka þátt í honum af léttúð. Það er verið að vekja til umhugsunar. Allar persónurnar eru frábærlega skrifaðar og uppbyggðar og lesandinn fylgir þeim spenntur. Þarna er líka ótalmargt umhugsunarvert og textinn oft svo flottur og vel uppbyggður að hann gersamlega heillar.

David er breskur og ákaflega fjölhæfur. Hann skrifar jöfnum höndum skáldsögur, handrit og blaðagreinar og svo þýðir hann einnig úr japönsku með konu sinni, Yoshidu. Þau eiga einhverfan dreng og David segir að það hafi kennt sér að vera sterkari, umburðarlyndari, betri og færari um samlíðan. Hugsanlega hefur það einnig kennt honum að hugsa út fyrir boxið og horfa á veröldina og siði og lögmál okkar mannanna öðruvísi augum. Hvernig sem því er háttað vakti bókin gríðarlega athygli og árið 2012 var gerð kvikmynd eftir henni með Tom Hanks í aðalhlutverki.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.