Er sannleikurinn alltaf afstæður eða eru einhverjar staðreyndir óyggjandi og traustar? Bók Hauks Más Helgasonar, Staðreyndirnar, fjallar öðrum þræði um einmitt þessa spurningu en líka um hvernig sannleikanum og staðreyndunum er ávallt hnikað til að þjóna hagsmunum ríkjandi valdhafa. Sagan er skemmtilega og lipurlega skrifuð en undir niðri eru áhugaverð og alvarleg viðfangsefni.
Steinn er kerfiskarl sem elskar pappírstætarann sinn meira en öll önnur tæki. Honum varð á að troða tengdaföður sínum fram fyrir annan á biðlista eftir hjarta með aðstoð heilbrigðisráðherra. Þetta veldur því að honum er slaufað og út um allar framavonir í pólitík. Þegar forsætisráðherra og fyrrverandi eiginkona hans útvega honum vinnu í nýstofnaðri Upplýsingastofu. Henni er ætlað að koma böndum á upplýsingaóreiðuna og fanga réttar og góðar staðreyndir í einn gervigreindargrunn. Að sjálfsögðu er flokkur forsætisráðherrans fylgjandi tjáningarfrelsi, upplýsingafrelsi og fjölmiðlafrelsi en það verður að gæta þess að óreiðan ríki ekki ein og út taki að leka óheppilegar staðreyndir.
Hver gæti verið betur til þess fallinn en Steinn að gegna skrifstofustjórastöðu hjá slíkri stofnun. Maður sem hefur brennt sig illa á því hvaða afleiðingar það getur haft að óheppilegum staðreyndum sé lekið. En þegar vélin, sem fær nafnið Landnáma, er spurð hver tengsl íslenskra stjórnvalda við nasisma hafi verið er fjandinn laus. Þarna taka að dúkka upp margvísleg óþægileg mál, sum hafa sofið í þögninni, önnur á almanna vitorði þótt lítið fjaðrafok hafi verið í kringum þau. Það má til að mynda velta því fyrir sér hvers vegna Jóhönnu Knudsen hefur fyrst og síðast verið legið á hálsi fyrir framkomu stjórnvalda gagnvart íslenskum konum á stríðsárunum? Henni var falið verkefni sem hún vissulega gengdi af einstakri samviskusemi en hún fékk fyrirmæli frá hærra settum mönnum í stjórnkerfinu.
Jóhanna er algjör aukapersóna í þessari bók en Agnar Kofoed Hansen yfirmaður hennar mun fyrirferðarmeiri sem og Hermann Jónasson forsætisráðherra. Landnáma tekur sem sé að rekja margar þekktar staðreyndir um aðdraganda stríðsins og stríðsárin hér á landi og allt í einu er vélin farin að draga eigin ályktanir og benda á ýmislegt óþægilegt. Hvað gera menn þá? Var þeim ekki ætlað að koma böndum á óreiðuna, ekki auka á hana?
Haukur Már er kíminn og skemmtilega íronískur og viðfangsefni hans er mjög áhugavert. Hvernig við tökum á gervigreindinni og vinnum með hana er mikilvæg spurning nú til dags og það er ljóst að eitthvað þarf að kæfa og fela í þeirri staðreyndasúpu sem er að finna í skjalasöfnum allra ríkja. Hugsanlega munu vélarnar draga ályktanir af þeim staðreyndum sem þær hafa aðgang að og ekki alltaf víst að þær niðurstöður hugnist eða passi þeim hugmyndum sem eru ríkjandi í hverju landi. Má satt kannski kjurt liggja í einhverjum tilfellum eða er sannleikurinn ávallt til þess fallinn að gera menn frjálsa?
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.







