Magnús Eiríksson, texta- og lagahöfundur, er látinn. Hann var einn fjölhæfasti og besti tónlistarmaður landsins og allir þekkja lögin hans. Magnús og þær hljómsveitir sem hann stofnaði og samdi flest lögin fyrir eiga sérstakan stað í hjörtum margra Íslendinga, enda eiga mjög margir góðar minningar tengdar tónlist hans.
Magnús var fæddur í Reykjavík 25. ágúst árið 1945. Foreldrar hans voru Eiríkur Ólafsson og Rannveig Axelsdóttir. Magnús hóf snemma tónlistarnám og lærði í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hljóðfæri hans var gítar og fyrsti kennarinn Karl Lilliendahl. Síðar lærði hann klassískt gítarspil hjá Gunnari Jónssyni. En auk gítarsins var hann lagtækur á píanó og saxófón. Tónlistarferilinn hóf hann árið 1961 þegar hann lék með E.M. sextett sextán ára síðar lék hann með Sexunum og Skuggasveinum. Árið 1964 gekk hann til liðs við bítlasveitina Pónik. Sú hljómsveit naut mikilla vinsælda meðal ungs fólks hér á landi á þeim tíma en sveitin hélt út til London árið 1966 til að taka upp lög á væntanlega plötu. Þar byrjaði Magnús fyrst að semja lög og texta en hann sýndi strax þá hversu auðvelt hann átti með að fanga andrúmsloft og tilfinningar í lögum sínum.
Hann hreifst af blús tónlist og tók þátt í mikilli blúsvakningu sem varð hér á landi í kringum 1970 og var einn af stofnendum Blue Note. Magnús stofnaði Blúskompaníið, elstu blússveit landsins, árið 1967 með Erlendi Svavarssyni trommuleikara og Jóni Garðari Elíssyni bassaleikara og störfuðu þeir saman með hléum um langa hríð. Hann stofnaði hljómsveitina Mannakorn og gekk til liðs við Brunaliðið en þá þegar var hann orðinn einn vinsælasti lagahöfundur landsins. Þessar tvær hljómsveitir eiga mjög mörg frábær lög sem nánast allir landsmenn kunna og tengja við. Margar minningar eru auk þess tengdar þeim hjá flestum og innihaldsríkir textar Magnúsar sitja fastir í minninu.
Vann samhliða í Hljóðfæraversluninni Rín
Samhliða tónlistinni vann Magnús í dagvinnu, var til sjós og vann hjá tengdaforeldrum sínum í hljóðfæraversluninni Rín og varð árið 1981 meðeigandi í henni. Síðar eignaðist hann hana einn og var oft kenndur við hana, kallaður Maggi í Rín.
Líklega væri alltof langt mál að telja upp öll þau frábæru lög sem Magnús hefur samið en nefna má, Þorparinn, Braggablús, Einhvers staðar einhvern tíma aftur, Reyndu aftur, Göngum yfir brúna og Ég elska þig enn. Magnús samdi auk þess Gleðibankann, fyrsta framlagi Íslands í Eurovision árið 1986. Þá samdi hann tónlist fyrir kvikmyndir, eins og Sönn ást fyrir Óðal feðranna og Draumaprinsinn fyrir Okkar á milli.
Hann hlaut heiðursverðlaun íslensku tónlistarverðlaunanna 1999, fálkaorðuna árið 2014 og var fyrsti heiðursfélagi Blúsfélags Reykjavíkur og fékk fyrstur manna þakkarorðu íslenskrar tónlistar árið 2024. Magnús var einn af stofnendum og fyrsti formaður Félags tónskálda og textahöfunda og var formaður STEFs í nokkur ár. Magnús kvæntist Elsu Guðrúnu Stefánsdóttur 28. júlí 1972 en hún lést árið 1999. Þau eignuðust þrjá syni, Stefán Má, Andra og Magnús Örn.







