Tónlist gleður Alzheimersjúklinga

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir

Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir

„Við erum að leggja drög að því að fara að nota tónlist markvisst í þjálfun fyrir einstaklinga með Alzheimer og fólk sem er með heilabilun,“ segir Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar á Hrafnistu í Hafnarfirði.  Hún segir að tónlist sé almennt mikið notuð í starfinu á Hrafnistu í dag. „Nú langar okkur hins vegar að fara að vinna meira út frá tónlistarsmekk hvers og eins sem er meira einstaklingsmiðuð þjónusta“ segir hún.

Eigum einn iPad

„Við eigum einn iPad í iðjuþjálfuninni sem við ætlum að nota til að byrja með og ég á einn iPod sem við ætlum að nota líka. Ef við sjáum þann árangur sem við væntum að þá munum við fara af stað og vinna að því að fá aðstandendur í lið með okkur, bæði við að búa til lagalistana en einnig við að fjölgja tækjunum. Upplýsingar frá aðstandendum eru mikilvægar til að hjálpa okkur við að búa til persónulega lagalista því þeir muna oft hvaða lög voru í uppáhaldi hjá foreldrunum eða hvernig tónlistarsmekkur þeirra er og var. Þeir aðstandendur sem við höfum rætt við hafa tekið vel í þessar hugmyndir okkar“, segir hún og bætir við að það skipti máli þegar ný tæki eru valin að heyrnartólin  séu stór til að útiloka umhverfishljóð sem gætu truflað upplifunina.

Tölur yfir þá sem fá Alzheimer eru á reiki en talið er að sex til sjö prósent fólks á aldrinum 67 til 80 ára fái heilabilun af einhverju tagi. Eftir áttrætt hækkar talan verulega og talið er að 20 til 25 prósent einstaklinga fái heilabilun, sjá hér.  Rannsóknir sem hafa verið gerðar benda flestar til að tónlist geti haft góð áhrif á líðan þeirra þá sem eru með minnisskerðingu. Talið er að tónlist geti einnig styrkt samskiptafærni þeirra sem og dregið úr þörf fyrir tiltekin geðlyf, sjá hér.

Allir þekkja Ellý og Ragga Bjarna

„Þegar við spilum tónlist með fólkinu okkar, syngjum og dönsum þá glaðnar alltaf yfir hópnum. Flestir þekkja vinsæl lög sem voru spiluð á ákveðnum tímabilum. Það þekkja til dæmis allir Ellý Vilhjálms og Ragga Bjarna. Einnig syngjum við mikið með fólkinu og þá virkar vel að hafa lagatextana fyrir framan fólkið. Við höfum séð fólk fara að lesa heilu textana af blöðunum þrátt fyrir að vera nánast hætt að tjá sig og stundum hafa komið fram minningarbrot í tengslum við tiltekinn lagatexta. Þetta tekur samt allt tíma og gerist ekki á einum degi en í gegnum markvissa þjálfun þá við sjáum framfarir en svo verða líka stundum bakslög í færni einstaklinga þegar við förum í frí en er oftast fljótt að koma aftur þegar þjálfunin fer í gang á ný,“ segir Guðrún Jóhanna.

Þetta myndband sem er að finna á YouTube og Guðrún Jóhanna deildi með okkur sýnir vel hversu góð áhrif tónlist getur haft á Alzheimer sjúkling.

Ritstjórn nóvember 11, 2015 11:17