Forréttindi að vinna saman í tónlistinni

Hilmar Örn Agnarsson og Björg Þórhallsdóttir eru hvort fyrir sig þekktir tónlistarmenn: Hilmar sem kórstjóri og organisti og eitt sinn meðlimur rokksveitarinnar Þeys og Björg sem sópransöngkona. Þau hófu saman búskap fyrir ellefu árum og fluttu fyrir tveimur árum í heilsárshús við Hafravatn, þar sem þau fá útrás fyrir garðyrkjuástríðu sína.  

„Lífsbjörgin“  

Tilhugalíf þeirra á sínum tíma var dramatískt. „Við vorum nýbyrjuð saman,“ segir Björg, „þegar ég fór að taka eftir einkennum hjá þessum annars orkumikla manni á bezta aldri, sem gátu bent til hjartveiki. Það vill þannig til að ég er bæði menntaður hjúkrunarfræðingur og ég missti föður minn úr hjartaáfalli þegar hann var tæplega 53 ára og er því sérstaklega næm fyrir hjartveikieinkennum.“  

Björg og Hilmar una hag sínum vel í húsi sínu við Hafravatn.

„Svo sannfærðist ég alveg þegar hann talaði stundum um að hann væri með brjóstsviða. Það er oft misgreining fyrir hjartverk. Svo voru fleiri einkenni eins og mæði og svo kom einu sinni verkur sem leiddi út í handlegg.“ 

Hilmar grípur hér inn í og segir: „Ég var í algerri afneitun. Taldi ekkert ama að mér. Svo kom að því að eitt kvöldið var ég að spila með Bleki og byttum (ballhljómsveit skipuð nokkrum góðum vinum, aths. ritstj.) á þorrablóti. Stóð með bassann og spilaði. Svitinn rann af mér. Ég tók þá eftir því að hún horfði á mig allan tímann – fannst það svolítið mikið, þótt hún væri skotin í bassaleikaranum. Svo var þetta engin spurning eftir þessa tónleika.“  

Björg bætir við: „Ég ætlaði að bera þunga magnarann upp tröppurnar þegar við komum heim. Þegar til kom var hann náttúrulega búinn að rogast upp með hann. En það var greinilega af honum dregið. Fann verk út í handlegginn. Nú var enginn vafi lengur í mínum huga: hér væri eitthvert hjartavesen að gera vart við sig.“  

Hún hringdi þá tafarlaust í vinkonu sem er heimilislæknir og leitaði ráða. „Læknirinn byrjaði á að benda okkur á að panta tíma í skoðun hjá Hjartavernd. Biðtíminn væri sirka tvær vikur. Ég var alveg með það á hreinu að málið þyldi ekki svo langa bið. Þá sagði hún mér að fara með hann kl. 8 morguninn eftir niður á Hjartagátt á Landspítalanum, með kveðju frá sér.“  

Sérstök Valentínusargjöf

Örlögin höguðu því þannig að þessi næsti dagur var Valentínusardagurinn. Björg sagði því við sinn mann: „Ég er með svolítið sérstaka Valentínusargjöf til þín, og þú ætlar að þiggja hana þegjandi og hljóðalaust: Þú ætlar að fara með mér á Hjartagáttina klukkan átta í fyrramálið!“  

Hilmar segir þá: „Hún var alveg búin að lesa mig, þetta var það síðasta sem ég vildi gera. Hafði aldrei farið á spítala áður og taldi enga þörf á því. Svo var líka kóræfing kl. tólf!“ 

Þegar Hilmar kemst svo, að morgni Valentínusardags, í skoðun á Hjartagáttinni kemur mjög fljótt í ljós að hann var „fimm mínútum frá hjartaáfalli“. Kransæð nánast stífluð en talið of áhættusamt að blása og þræða. Hann yrði að fara í aðgerð við fyrsta tækifæri. Var kyrrsettur á spítalanum unz aðgerð gæti farið fram, sem reyndist vera um hálfur mánuður. 

Björg bætir við að þau hafi í raun fyrst verið skráð í sambúð þegar þau mættu á Hjartagáttina að morgni Valentínusardags. „Við vorum ekki búin að vera saman í tvo mánuði þegar þetta var. Í móttökunni var spurt: Hver er nánasti aðstandandi? Hann varð rosa hvumsa og var næstum búinn að segja: „Mamma.“ Þá lítur móttökuritarinn upp og segir hvöss: „Hvernig er þetta maður, er það ekki konan þín?“ Það gerðist því þarna á Hjartagáttinni að við vorum fyrst skráð sem par!“  

Vendipunktur 

„Þetta varð, þegar upp var staðið, mikill vendipunktur í mínu lífi,“ segir Hilmar. Vendipunktur til heilsusamlegri lifnaðarhátta. Hann hafi áttað sig á því að hann hafi, þarna í aðdraganda hjartaaðgerðarinnar, hreinlega ofgert sér í vinnu, færzt of mikið í fang. Hann hafi eftir þetta lært að hafa betri stjórn á vinnuálagi og endurskoðað fleiri þætti síns daglega lífs, í þágu heilsunnar. „Svo átti ég stórkostlega dvöl á Reykjalundi,“ segir hann og ljómar. Hann hafi verið svo lánsamur að fá að gista þar á meðan á endurhæfingardvölinni stóð. Og það hafi gert sér rosalega gott. Hann sé ævinlega þakklátur fyrir þá góðu þjónustu sem hann varð aðnjótandi þar.  

Árið 2020, í upphafi faraldurs, festu þau Hilmar og Björg kaup á heilsárshúsi við Hafravatn. „Við búum hér í sveit í borg og njótum þess í botn,“ segir Hilmar. Lóðin er stór en þar fá þau góða útrás fyrir garðyrkjuástríðu sína. Hilmar orðar það þannig að hann sé með „ýkta garðyrkjudellu“.  Hún fer heldur ekki framhjá neinum sem kemur í heimsókn í þennan sælureit þeirra, nýreist steinbeð blasa við, ótal plöntur sem bíða gróðursetningar og margt fleira.

Staðsetningin henti þeim báðum vel með tilliti til vinnu. Björg sinnir hjúkrun í hlutastarfi á Landspítalanum í Fossvogi og Hilmar starfar við Akraneskirkju.  

Sungið í Strandarkirkju 

Strandarkirkja

Annar örlagavaldur í lífi þeirra beggja er Strandarkirkja. Þar þjónaði Hilmar í fyrsta starfi sínu sem nýútskrifaður tónmenntakennari og organisti á sínum tíma, í Þorlákshöfn. Seinna, þegar Hilmar var organisti í Skálholti þar sem hann þjónaði lengi, leiddi tónlistin þau Björgu saman í Strandarkirkju í fyrsta sinn.

„Björg átti að syngja í messu þar og ég að spila undir,“ útskýrir Hilmar. Þetta hafi verið um það bil árið 2008. Prestvígsluathöfn sem fór fram í Skálholti sama dag dróst á langinn sem olli því að „Hilmar kom skrensandi að kirkjunni klukkan korter í tvö,“ segir Björg. Í stað sameiginlegar æfingar fyrir messu hafi þau því þurft að láta nægja 

að bera lítillega saman bækur yfir hljóðfærinu, með kirkjuna fulla af fólki. Og láta svo bara vaða. Nutu þar bæði ríkrar reynslu sinnar – Björg er sjálf prestsdóttir og því „alin upp í kirkju“, svo allt tókst vel.

Á góðri stund í Strandarkirkju.

Síðan árið 2011 hefur á hverju sumri verið haldin tónlistarhátíðin „Englar og menn“ í Strandarkirkju. Björg er stofnandi hátíðarinnar og listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri.

Í nokkur sumur þar á undan hafði hún haldið þar tónleika ásamt Elísabetu Waage hörpuleikara. Hilmar bættist svo fljótlega í hópinn. „Þetta hefur verið farsælt og yndislegt samstarf í áraraðir hjá okkur,“ segir Hilmar en þau þrjú hafa haldið fjölda tónleika ár hvert bæði hér heima og erlendis.

Örlagaríkir jólatónleikar  

Organistatíð Hilmars í Skálholti lauk árið 2008. „Eftir þann viðskilnað ætlaði ég að gerast kaþólskur,“ segir Hilmar. Nokkru eftir þetta réðst hann sem organisti til Kristskirkju. „Þar ætlaði ég að halda áfram með sem mest af því sem ég gerði í Skálholti,“ segir hann. Þar með talið jólatónleika með Diddú sem einsöngvara. Þetta var fyrir jólin 2010. Þá vildi svo til að Diddú var fjarri góðu gamni í fríi í Frakklandi. „Þá varð mér hugsað til annarrar sópransöngkonu sem ég þekkti: Bjargar Þórhallsdóttur!“  

Á æfingunum fyrir þessa tónleika flugu neistar milli einsöngvarans og stjórnandans, svo eftir var tekið. Þessir tónleikar urðu líka upphafið að Söngfjelaginu, sem hélt nokkru síðar tíu ára afmælistónleika í Laugarneskirkju.  

Hilmar átti ekki langa viðdvöl sem organisti í Kristskirkju. „Ég rataði aftur í faðm Þjóðkirkjunnar og uni nú glaður á Skaganum. Þar finnst mér ég vera kominn í spor Hauks Guðlaugssonar sem gerði bæinn söngelskan og músikalskan,“ segir hann. Hilmar á þar líka fjölskyldurætur; dvaldi þar oft sem barn hjá afa sínum og ömmu.  

Ástríðan óskert!  

Hilmar hefur stjórnað mörgum kórum á ferlinum og getið sér orðstír sem ástríðufullur stjórnandi sem kann lagið á því að laða fram sönggleðina í fólki.  

Sjálfur segir Hilmar hæverskur: „Það sem er hjá mér er að manni þarf að þykja vænt um manneskjur, og hagi þeirra. Kór er eiginlega svo andlegt fyrirbæri. Við sameinumst í tónunum. Ef kór er þannig samsettur að fólk er ósátt eða reitt, þá gengur ekkert.“  

Björg bætir við að nálgun Hilmars að kórstjórnarhlutverkinu sé „mannræktarnálgun, að opna hjörtu fólks, ná í sönggleðina og laða hana fram í hverjum og einum.“ Tilgangurinn sé að allir komi brosandi út, hvort sem er af æfingu eða tónleikum; upplifi upplyftingu andans í tónlistinni.  

„Það hrífst enginn af söng sem er ekki sunginn frá hjartanu, af einlægni,“ segir Hilmar og Björg tekur undir. „Það þarf að vera þetta streymi milli áheyranda og flytjenda, að ná þessu andlega sambandi þar á milli, þá koma þessi heilandi áhrif tónlistarinnar, sem er göfugasta markmið alls tónlistarflutnings,“ segir hún; „að  lyfta andanum.“  

Þau segjast bæði finna til þess að það séu mikil forréttindi að geta verið að vinna saman að svona göfugu starfi í tónlistinni. 

Hilmar Örn í kórstjórastellingunum.

Lækningamáttur tónlistarinnar 

Hilmar bætir við: „Yngsti kórinn minn er á deildinni hans pabba á Eir. Í hann gildir aldurstakmarkið 90 ára. Þetta er kvartett fjögurra flottra karla. Bassinn er 103 ára. Þarna eru líka Jón Ásgeirsson tónskáld og pabbi, Agnar. Það er mjög fallegt að sjá hvað söngurinn gefur þeim mikið, hvernig hann í hressir þessa gömlu menn og fólkið sem á sönginn hlustar.“  

Bæði segja þau Hilmar og Björg að það mætti að þeirra mati vera miklu meira um tónlistarflutning á sjúkrastofnunum. „Við höfum mikinn áhuga á lækningamætti tónlistar,“ segja þau. Í þessu sambandi segja þau að magnaðasta dæmið um mátt tónlistarinnar hafi þau upplifað þegar þau voru með tónleika á jóladag á líknardeildinni í Landakoti. „Við uppskárum svo gríðarlegt þakklæti. Þetta var bókstaflega helg stund. Við höfum aldrei haft jafn einbeitta hlustun á neinum öðrum tónleikum. Það voru allir með tárin í augunum.“  

Tónlistin er gleðimeðal 

„Tónlistin getur verið svo mikið á þessa dýpt,“ segir Hilmar. En hún geti líka verið „svona gleðibomba“ eins og tilfellið var á afmælis-vortónleikum Söngfjelagsins sem voru haldnir kvöldið áður en viðtalið fór fram og undirritaður upplifði sjálfur. „En í rauninni er þetta líka bara hin hliðin á lífinu.“ 

Björg bætir við að eftir þennan langa tíma með samkomubönnum, sóttvörnum, einangrun og einsemd hungri fólk beinlínis í tónleikagleði. Allir séu nú venju fremur móttækilegir fyrir gleðimeðalinu sem tónlistin er.  Og það geri það venju fremur ánægjulegt þessa dagana að starfa við tónlistarflutning. 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrfar. 

Þetta viðtal var áður birt á Lifðu núna vefnum í júní 2022.

Ritstjórn ágúst 25, 2023 09:30