Glasið sem öðlaðist sjálfstætt líf

Hvaðan er sköpunargáfa mannsins upprunnin og hvers vegna geta sumir ekki verið án þess að skapa eitthvað, tjá sína sýn á hlutina og finna eigin skilning á lífinu, umhverfinu og hlutunum? Í skáldsögunni Klingsor dregur Torgny Lindgren um mynd af listmálara sem er heltekinn af list sinni, þörfinni fyrir að tjá innsta sannleik hlutanna.

Sögumaðurinn eða sögumennirnir því þeir tala um við virðast vera par eða hópur sem leggur af stað til að skoða æfi listmálarans Klingsor. Hann dó nokkurn veginn óþekktur, hafði fargað flestum sínum málverkum en samt telja sögumennirnir að hann hafi gengt mikilvægu hlutverki í listasögu Svíþjóðar. Sýn hans hafi verið mikilvæg og arfleifð hans þess virði að elta og skilgreina.

Áhugi Klingsors á listmálun hefst þegar hann finnur glas úti í skógi. Forfaðir hans hafði skilið það þar eftir þegar hann lauk sínu síðasta fyllerí og glasið stendur beint og keikt á trjástubbi meðan nokkrar kynslóðir fylla Klingsor-bæinn. Þegar Klingsor finnur það, ennþá barn að aldri, hefur það skekkst á fætinum eða kannski var það alltaf skakkt og safnað á sig mosa, vatni, úrgangi trjánna og varla er hægt að greina hvaða fyrirbæri þetta er. Samt skynjar Klingsor að þarna er eitthvað merkilegt og hann tekur það með heim og þrífur það og hefst svo handa við að teikna glasið. En það er sama hvað hann reynir hann nær aldrei að túlka glasið á réttan hátt, það hallar alltaf einhvern veginn öðruvísi, ljósbrotið í því birtist ekki rétt og liturinn er ekki réttur. Honum verður ljóst að dauðir hlutir eru alls ekki dauðir og á þeirri stundu verður hann listamaður.

Að henda sér á kaf eða standa fyrir utan

Klingsor hefur nám í listmálun í bréfaskóla og kynnist í gegnum það kennaranum Fanny. Hann heldur til Parísar að heimsækja hana og leitar sér innblásturs í söfnum og listaskólum. Þar kynnist hann syni rammasmiðs, manni sem þráir að skapa, vera listamaður en þorir aðeins að halda á penslinum og standa fyrir utan listaskólana en aldrei ganga inn. Þau Fanny  snúa aftur til Svíþjóðar og fer að búa með Fanny eða hjá henni. Í huga Klingsors er listin eini tilgangurinn í lífinu.

Torgny Lindgren segir söguna með lágstemmdum húmor og talsverðri kaldhæðni.  bubblar rétt undir yfirborðinu. Klingsor ætlaði sér að opna hlutina og opinbera öðrum innra líf þeirra með hjálp málverksins. Háleitt markmið og einmitt það sem allri list er ætlað að gera, skera niður eða kannski frekar skera upp hlutina fyrir augum okkar og sýna okkur innra sigurverk þeirra, innstu rök allrar tilveru en jafnframt tekst það aldrei til fulls.

Klingsor þróast aldrei sem listamaður. Hann er fastur í sama hjólfarinu og málar sömu kyrralífsmyndirnar en þrátt fyrir það er gefið til kynna í sögunni að kannski sé styrkur hans einmitt fólginn í því. Hann svíkur aldrei sjálfan sig, upprunalegu hugmyndina, það sem kveikti neistann og er þess vegna alla tíð aðeins meðalmaður í list sinni. Hvort hann hafi verið snillingur eftir allt saman en bara ekki viðurkenndur af samtímamönnum sínum er lesandanum látið eftir að svara. Og kannski er það einmitt punkturinn sem Torgny vill að lesandinn taka með sér að lestri loknum að meðalmennskan felst ekki endilega í að gera vel en ekki þenja sig að ystu mörkum eigin hæfileika. Flestir lifa lífi sínu þannig, öruggir á normalkúrfunni og nægilega fylgnir sér í sínum draumum, þrám og hæfni að þeim líður vel og þeir eru að skapa. Það er því ekki okkar að dæma Klingsor, í það minnsta ekki of hart.

Torgny Lindgren fæddist í Raggsjö í Norður-Svíþjóð 16. júní árið 1938. Hann lést 16. mars árið 2017.  Hann sendi frá sér ljóðabók árið 1965 en vakti ekki verulega athygli fyrr en skáldsagan, Vegur höggormsins kom út árið 1982. Hún náði metsölu og sænski kvikmyndagerðarmaðurinn Bo Widerberg gerði kvikmynd eftir sögunni árið 1986. Torgny fékk heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Linköping árið 1990. Torgny Lindgren hafði einstaka frásagnargáfu og var og er meðal skemmtilegustu skáldsagnahöfunda samtímans.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.