„Ég held að það verði mjög gaman að bjóða eldri borgurum sem búa á hjúkrunarheimilum út að hjóla. Þetta er fólk sem þekkir borgina og umhverfi hennar vel. Það hefur aðra sýn á umhverfið en við sem yngri erum. Við getum lært svo margt af þeim sem eru komnir á efri ár,“ segir Bryndís Hreiðarsdóttir, nemi í öldrunarfræðum við Háskóla Íslands og stuðningskona verkefnisins „Cycling uden alder.“
Fimmtudaginn 17. september var haldinn kynningarfundur á hjúkrunarheimilinu Mörk þar sem samfélagsverkefnið „Cycling uden alder“ eða „hjólað óháð aldri“ var kynnt. Verkefnið byggir á því að rjúfa einangrun og efla lífsgleði íbúa á hjúkrunarheimilum með því að gefa þeim tækifæri á að fara út að hjóla, með aðstandendum sínum eða sjálfboðaliðum sem hafa áhuga á að kynnast nýju fólki og upplifa nýja hluti.
„Sú sem er forsprakkinn fyrir því að færa „Cykling uden alder“ til Reykjavíkur heitir Sesselja Traustadóttir, stofnandi fyrirtækisins Hjólafærni. Hún fékk hingað til lands hina dansk ættuðu Dorthe Pedersen til að kynna verkefnið,“ segir Bryndís.
Í október koma þrjú sérhönnuð rafmagnshjól til landsins. Framan á hjólin eru fest tvö sérútbúin sæti fyrir farþegana. Til stendur að safna fyrir fleiri hjólum en hvert hjól kostar í kringum 750 þúsund krónur. Mörkin fær hjól, annað fer í Kópavog en þriðja hjólið ætlar Sesselja að nota til að kynna verkefnið fyrir áhugasömum.
„Það voru danir sem störtuðu þessu hjólaverkefni fyrir tveimur árum. Það má segja að „hjólað óháð aldri“ hafi farið sigurför um heiminn því í tuttugu löndum er búið að mynda hópa sem bjóða eldri borgurum í hjólatúra. Það eiga allir rétt á að fá að taka þátt í lífinu og gera skemmtilega hluti sama á hvaða aldri þeir eru,“ segir Bryndís. Tilgangurinn með því að bjóða fólki út að hjóla er meðal annars sá að byggja brýr á milli kynslóða, styrkja fjölskyldutengslin og stuðla að nýjum og skemmilegum kynnum fólks á ólíkum aldri.