Lögbrot að skammta öldruðum vasapeninga

Helga Jónsdóttir, viðskiptalögfræðingur frá Bifröst segir að henni hafi þótt  fróðlegt að kanna hvort það stæðist lög að einstaklingur greiddi það sama fyrir að kúra í herbergi í kjallara með öðrum á hjúkrunarheimilinu og sá sem væri í lúxusherbergi á þriðju hæð með svölum og sér snyrtiaðstöðu.

Þarf úrskurð dómara

Lokaritgerð Helgu sem hún skrifaði 2012 fjallar um fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara á hjúkrunarheimilum  og hún spyr hvort aldraðir séu sviptir fjárræði og eða sjálfræði við flutning á hjúkrunarheimili? Helga segir í ritgerðinni að meginreglur lögræðislaganna kveði á um að enginn verði sviptur lögræði nema með úrskurði dómara og að enginn verði sviptur lögræði sínu, hvorki sjálfræði né fjárræði, nema þörf sé sviptingar. Miklar kröfur eru gerðar til málsmeðferðar í í slíkum málum og hafi Hæstiréttur hiklaust ómerkt úrskurði um lögræðissviptingu hafi formkröfum laganna ekki verið fylgt til hins ýtrasta.

Allir eiga að borga

Fyrir árið 1989 voru hjúkrunarheimili flokkuð sem legudeildir fyrir aldraða og lutu sömu lögmálum og sjúkrahús. Allt fram til þess tíma greiddu aldraðir ekki fyrir legu sína á hjúkrunardeildum né heldur á sjúkrahúsum.Nú greiða hins vegar allir þeir sem eru orðnir 67 ára og eldri fyrir dvalarkostnað sinn á sjúkrastofnunum hafi einstaklingur tekjur umfram 74.696 krónur. Það fer svo eftir tekjunum hversu mikið fólk þarf að greiða uns ákveðnu hámarki er náð sem í dag er  354.902 krónur. Þeir sem hafa engar tekjur fá vasapeninga sem í dag eru 53.354 krónur.  Helga segir: „Það að svipta einstakling öllum tekjum sínum umfram tiltekna upphæð án undangengins dóms brýtur, að mati höfundar, í öllum meginatriðum gegn fjórðu grein lögræðislaganna um að ekki megi svipta mann fjárræði nema með úrskurði dómara.“

Mannréttindi ekki virt

Helga segir jafnframt að öldruðum séu ekki tryggðs sjálfsögð mannréttindi. „Þegar þeir flytjast á hjúkrunarheimili vegna sjúkleika flytja þeir ekki heimilisfesti sitt heldur eru skráðir á stofnanir þar sem öldrunarstofnanir eru ekki heimili í lagalegum skilningi. Þar er þeim ekki gert kleift að hafa neitt um það að segja hvaða þjónustu þeir þiggja eða er veitt, hafa lítið sem ekkert um sitt nánasta umhverfi að segja og verða að láta sér nægja það sem að þeim er rétt. Víst er að stefna hefur verið sett á að útrýma fjölbýlum á öldrunarheimilum en enn skammtar ríkisvaldið hinum aldraða sömu fjárhæð hvort sem hann býr í sambýli eða einbýli. Ljóst er að hinn aldraði þegar hann er orðinn öðrum háður hefur ekki um marga kosti að velja og verður að láta sér lynda það sem í boði er.“

 

Ritstjórn mars 24, 2015 14:06