„Maður er bara ungur einu sinni og það er núna,“ segir Jón Ásgeir Eyjólfsson, tannlæknir og bætir við að fólk sé oft að spyrja hvort hann ætli ekki að fara að hætta að vinna en það detti honum ekki í hug. „Ég er ekkert á leiðinni að fara að hætta að vinna, er við góða heilsu. Við vitum það að vísu að heilsan er fallvölt, ef að hún gefur sig er mikið farið,“ segir hann. Í vor ákvað hann að hætta að vinna á föstudögum. Málið sé bara að það sé oft svo mikið að gera og á fimmtudegi að hann sjái ekki fram á annað en verða að vinna á föstudegi þrátt fyrir fyrirheit um frí. „Þetta tekur tíma, allar breytingar taka tíma. En það er gott að stefna að því að eiga frí á föstudögum. Orð eru til alls fyrst,“ segir hann og býður upp á kaffi og köku.
Ætlaði að verða heildsali
Jón Ásgeir er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskólanum og embættisprófi í tannlækningum 1978. „Ég átti mér þann draum þegar ég var í Verzlunarskólanum að verða heildsali,“ segir hann. Jón Ásgeir lét ekki þar við sitja enda stórhuga ungur maður. Hann lét prenta bréfsefni og umslög og sendi bréf vítt og breitt um heiminn til að reyna að ná sér í umboð. Hann pakkaði niður í tösku og hélt af stað til útlanda að hitta birgja og reyna að koma sér upp samböndum, en gleymdi einu. „Ég var ekki búinn að ganga frá mínum málum hér heima. Hafði láðst að stofna heildverslunina lögformlega. Verslunarráð fór að fá allskonar fyrirspurnir um mig og þetta fyrirtæki sem ég sagðist reka. Hjá Verslunarráði könnuðust menn ekki við eitt né neitt. Ég fékk svo skammir fyrir allt saman og þá hvarf ljóminn af því að verða heildsali og ég ákvað að hætta að hugsa um þetta.“
Vildi ekki vinna hjá öðrum
Jón Ásgeir og eiginkona hans Margrét Teitsdóttir voru samstúdentar úr Verzlunarskólanum og eftir að þau útskrifðust var kominn tími til að taka næstu skref.
Jón Ásgeir ákvað að halda áfram námi en Margrét fór út á vinnumarkaðinn og um miðjan áttunda áratuginn eignuðust þau Jón Ásgeir einkasoninn Eyjólf Örn. Hann er í sambúð með Sigurrósu Jóhannsdóttur og barnabörnin eru orðin þrjú. Margrét fór síðar í háskólanám og starfaði um árabil sem geislafræðingur á Landspítalanum. Eins og áður sagði urðu tannlækningar fyrir valinu hjá Jón Ásgeiri. „Margir af félögum mínum úr Verzlunarskólanum fóru í lögfræði og aðrir í læknisfræði. Það var ekki jafn fjölbreytt framboð af námi þá og nú. Ég beitti útilokunaraðferðinni, tók hverja deild og vó og mat það sem í boði var og endaði í þessu. Held á vissan hátt að það hafi haft sitt að segja að tannlæknar voru taldir hafa ágætislaun en það hafði ekki síður áhrif að þeir sem vinna við tannlækningar eru sjálf síns herrar. Þeir eru ekki almennir launþegar heldur atvinnurekendur og það hentaði mínu skapferli betur að vera í vinnu hjá sjálfum mér en öðrum. Mér hefur liðið vel í þessu starfi og ég hugsa að ég myndi velja þetta ævistarf aftur í dag, stæði ég í sömu sporum nú og þegar ég var tvítugur.“
Ungu tannlæknakonurnar hafa aðra sýn
Eyjólfur Örn sonur minn var á tímabili að velta því fyrir sér að fara í tannlækningar en ákvað á endanum að fara í verkfræði. Það eru í sjálfu sér ekki slæm skipti því tannlækningar geta verið svolítið einhæfar aðþví leyti að ef eitthvað kemur uppá, til dæmis ef tannlæknir lendir í slysi sem veldur því að hann á erfitt með að bogra yfir sjúklingum alla daga, þá hefur hann ekki upp á neitt annað að hlaupa. Tannlækningar eru svo sérhæfðar. Þeir sem fara í verkfræði eða skyldar greinar hafa miklu meira val um fjölbreyttari störf. Það er ekki fyrir alla að bogra alla ævi, ég er hins vegar svo heppinn að ég hef verið góður í baki en það eru ekki allir í minni stétt svo heppnir.“Jón Ásgeir segir að miklar framfarir hafi orðið í tannlækningum frá því hann opnaði sína fyrstu tannlæknastofu í Vestmannaeyjum árið 1978. Borarnir hafi batnað og öll efni sem eru notuð við tannlækningar. Tannheilsa fólks hafi sömleiðis batnað mikið. „Maður er kannski ekki svo meðvitaður um breytingarnar þegar þær verða. Það er ekki fyrr en maður lítur yfir lengra tímabil sem maður sér þær,“ segir hann. Nýir samningar við tannlækna kveða á um að Tryggingastofnun greiðir fyrir börn og unglinga. Það sama er ekki upp á teningnum þegar kemur að eldri borgurum. „Það á að heita að það sé endurgreiðsla fyrir 67 ára og eldri en hún er miðuð við hvað viðkomandi hefur í lífeyrisgreiðslur en þetta er skammarlega lítið og auðvitað ætti þetta að vera frítt. Þetta er fólkið sem skóp það þjóðfélag sem við lifum í og hefur borgað til samfélagsins alla tíð. Sumir hafa hreinlega ekki efni á tannlækningum,“ segir Jón Ásgeir og bætir við að raunar hafi eðli starfsins breyst mikið eftir að konum fjölgaði í stéttinni. „Það er numerus clausus í tannlæknadeild það eru sjö sem komast inn á fyrsta ár. Þegar ég var í námi voru karlar í miklum meirihluta en það hefur snúist við. Nú eru konur meirihluti þeirra sem lýkur námi. „Margar af þessum ungu konum sem eru að klára hafa engan áhuga á að vinna hundrað prósent vinnu. Þær vilja vera í 50 prósent starfi og eiga mann og börn og sinna fjölskyldunni. Þær hafa aðra sýn en við karlarnir, þær vilja síður ráðast í fjárfestingar og steypa sér í skuldir. Undanfarin misseri hafa karlar keypt allar þær stofur sem hafa verið í rekstri af þeim sem eru að ljúka starfsævinni. Tannlæknastéttin er að breystast.“
Hægt að keppa á jafnréttisgrundvelli
Jón Ásgeir hefur allar götur haft mikinn áhuga á félagsmálum og íþróttum. Sem ungur maður spilaði hann fótbolta og körfubolta. Í Vestmannaeyjum byrjaði hann hins vegar að spila golf. „Ég bjó í Eyjum í þrjú ár og það var ekki margt við að vera. Í Eyjum er hins vegar einn fallegasti og skemmtilegasti golfvöllur landsins. Ég fór að spila golf þar. Eftir að ég flutti upp á land gekk ég í Nesklúbbinn út á Seltjarnarnesi en þar voru margir félagar mínir úr tannlæknastéttinni. Ég hef haldið mig þar síðan.“ Hann segir að golfið gefi honum mikið. Þetta sé skemmtileg hreyfing, undir beru lofti og í góðum félagsskap. „Þessi íþrótt hefur þann eiginleika sem aðarar íþróttir hafa ekki að það er hægt að keppa á jafnréttisgrundvelli við fólk sem er með mismunandi getustig. Forgjöfin gerir það verkum þeir góðu eru með lága forgjöf en þeir sem eru komnir styttra áleiðis eru með hærri forgjöf og geta því spilað saman á jafnréttisgrundvelli.“ Þegar Jón Ásgeir byrjaði í golfinu fyrir margt löngu voru það nánast eingöngu karlar sem fóru í golf. Hann varð síðar formaður Nesklúbbsins og var það í níu ár. Hann var líka forseti Golfsambands Íslands í átta ár.
Agaleysi í þjóðfélaginu
„Þegar ég byrjaði í golfinu var þetta nánast eingöngu karlasport. Þegar ég var orðinn forseti Golfsambandsins lagði ég töluverða áherslu á að fjölga konum í hreyfingunni. Þær voru um 15 prósent félagsmanna þegar
ég tók við en þegar ég hætti voru þær orðnar þriðjungur félagsmanna. Ég lagði líka mikla áherslu á barna og unglingastarfið,“ segir hann og bætir við að golfið hafi farið úr því að vera karlasport og orðið fjölskyldusport. Hjón spila saman og félagslegi þátturinn er mikilvægur. Margir fara að spila þegar þeir komast á eftirlaunaaldur, það er margt fólk sem mætir daglega á völlinn allt sumarið og spilar níu holur. Á eftir hittist fólk í kaffi og ræðir landsins gagn og nauðsynjar,“ segir hann. Hann ræðir líka agann í golfinu. „Brjóti íþróttamenn af sér er yfirleitt dómari sem dæmir hegningu fyrir brotið. En í golfinu er hver og einn dómari í eigin sök og það kallar á aga. Það skortir aga og skipulagningu í þjóðfélaginu. Agaleysið birtist í því hvernig fólk talar hvað við annað. Unglingar tala niðrandi til fullorðins fólks og fullorðið fólk talar niðrandi hvert til annars. Það er nóg að fara inn í verslun, ef maður þarf að bíða eftir afgreiðslu kemur einhver og ryðst fram fyrir mann. Það skeytir engu um þó maður sé næstur í röðinni. Golfið agar fólk, unga jafnt sem gamla“.Jón Ásgeir hefur eytt miklum tíma í félagsmálastörf tengdum golfhreyfingunni og en það eru alls ekki einu félagsstörfin sem hann hefur sinnt. Sumir myndu kalla hann félagsmálatröll. Hann var formaður Tannlæknafélags Íslands í tæpan áratug. Formaður Stjörnunnar í sjö ár svo eitthvað sé talið. Þegar hann er spurður hvort að hann hafi tíma fyrir eitthvað annað í lífinu en golf og tannlækningar segist hann fylgjast vel með öllum íþróttum. „Ég fer mikið að fylgjast með íþróttaviðburðum bæði fótbolta, körfubolta og handbolta og ég horfi mikið á útsendingar frá íþróttaviðburðum. Horfi mikið á golfstöðina sem sýnir beint frá öllum helstu golfviðburðum í heiminum,“ segir Jón Ásgeir.
Sjúklingurinn bíður
Hann hlakkar til komandi daga enda áhugamálin mörg og fjölbreytt. Hann segir að það sé allt annað að eldast nú um stundir en fyrir nokkrum áratugum. „Eldra fólk á áhugamál sem að fólk átti kannski ekki í gamla daga. Það er allskonar afþreying í boði sem var ekki í eina tíð. Gamalt fólk var líka oft útslitið af vinnu um sextugt. Það hefur sem betur fer breyst,“ segir Jón Ásgeir. Það bíður sjúklingur eftir honum sem er að farast úr tannverk. Þrátt fyrir að það sé föstudagur og tannlæknirinn ætli að vera í fríi er sjúklingurinn er boðinn velkominn í stólinn.