Hækkun persónuafsláttar besta kjarabótin

„Endurskoðunin laga um almannatryggingar verður að leiða til þess að dregið verði úr tekjutengingum,“ segir ályktun sem samþykkt var á landsfundi, Landssambands eldri borgara. Um leið er hvatt til að endurskoðun laganna verði flýtt eins og hægt er.

 Sveigjanleg starfslok

Eldri borgarar vilja að starfslok verði sveigjanleg og valkvæð. Þeir geta fallist á hækkun starfslokaaldurs á löngum tíma, en breyting taki ekki gildi fyrr en að 5 árum liðnum frá gildistöku lagabreytinga. Með því skapast aðlögunartími fyrir þá sem eiga eftir allt að 5 ár í starfslokaaldur. Landsfundurinn skorar jafnframt á aðila vinnumarkaðarins að gera átak í að skapa eldra fólki atvinnutækifæri svo að starfslokaaldurinn verði í reynd virðing við atvinnuþátttöku eldra fólks og framkvæmanlegur án þess að fólk endi á örorkubótum eða skertum lífeyri.

Framfærsla taki mið af raunkostnaði

Þess er krafist að lífeyrir almannatrygginga taki að lágmarki sömu hækkunum og lægstu laun sem samið verður um í kjarasamningum. Jafnframt að sett verði framfærsluviðmið sem taki mið af raunkostnaði. Enn og aftur skal bent á að hækkun persónuafsláttar væri besta kjarabót láglaunafólks og þar með lífeyrisþega. Landsfundurinn skorar á stjórnarflokkana að standa við gefin loforð um að bæta öldruðum kjaragliðnunina sem varð á árunum 2009 -2013 og að lækka fjármagnstekjuskatt.

Virðisaukaskattur á lyf verði afnuminn

 Landsfundurinn leggur til að virðisaukaskattur á lyf verði felldur niður og bendir á að margar þjóðir eru með lyf í lægsta þrepi virðisaukaskatts eða að slíkur skattur er ekki lagður á lyf. Landsfundurinn krefst þess að niðurgreiðslur til aldraðra vegna heyrnartækja og tannviðgerða verði hækkaðar.

Ritstjórn maí 5, 2015 16:56