Á fljúgandi fart út í atvinnulífið og þurfa engan að spyrja

Lilja Hilmarsdóttir.

Lilja Hilmarsdóttir er upphaflega framhaldskólakennari að mennt og starfaði sem slíkur í mörg ár áður en hún sneri sér að fararstjórn. Hún hafði skipulagt nokkrar ferðir til Þýskalands með nemendur en hún var tungumálakennari, kenndi bæði íslensku og þýsku. Lilja hefur starfað fyrir nokkur ferðafyrirtæki á Íslandi og síðast hjá flugfélaginu WOW sem hætti starfsemi 2019. Hún minnist þess að þegar hún á sínum tíma skrifaði undir samning hjá Samvinnuferðum sagði Helgi Jóhannsson við hana: ,,Það þarf ekkert að minna þig á það Lilja að það er til lausn á öllum málum,” en það er einmitt mesti kostur leiðsögumanns að hafa ráð undir rifi hverju og það er Lilja þekkt fyrir.

Maður Lilju er Björn Eysteinsson en hann var útibústjóri í banka fram að eftirlaunaaldri en þá stofnaði hann ferðaskrifstofuna Betri Ferðir ehf.  Eftir fall WOW þar sem Lilja hafði unnið sneru þau vörn í sókn og eru nú á fljúgandi fart eftir covid eins og unglingar og þurfa engan að spyrja. Þau eru sammála um fáránleika þess fyrir heilsugott fólk að vera skyldað til að hætta vinnu  vegna aldurs.  Það hlýtur að vera jákvætt að nýta áfram áratuga þekkingu og reynslu fólks sem hefur andlegt atgervi og vilja til að vinna.

Bridds og golf áhugamálin

Björn er mikill briddsspilari og er þekktur fyrir að hafa komið heim með Bermúdaskálina fyrir 30 árum þegar Íslendingar lönduðu heimsmeistaratitlinum í bridds í Yokohama í Japan 1991. Björn var þá fyrirliði íslensku sveitarinnar og er margfaldur Íslandsmeistari í bridds og er enn að spila og keppa. Hann segir að fyrir nokkrum árum hafi verið stofnuð keppnisdeild eldri briddsspilara í Evrópu og á heimsvísu, þ.e. 65 ára og eldri, og nú í ágúst er Björn  að fara  að keppa sem Senior á Evrópumótinu í annað sinn. En hann er líka mikill golfari og hefur þekking hans þar komið sér vel við skipulagningu golfferða fyrir Betri Ferðir.

Sótti um hjá Betri ferðum

Þegar Lilja missti vinnuna hjá WOW segir hún brosandi að hún hafi sótt um starf hjá Betri ferðum og verið ráðin. Reynsla og þekking Björns og Lilju hefur nýst þeim vel, hann með golfferðir fyrir smáa og stóra hópa með og án fararstjóra og hún með borgar- og menningarferðir fyrir félagasamtök og fyrirtæki. Lilja var búin að skipuleggja nokkrar ferðir þegar WOW hætti rekstri og þurfti að segja óánægðum ferðalöngum að ekkert yrði úr ferðunum.  ,,Ég gat ekki boðið þeim neitt af því ég var ekki með ferðaskrifstofuleyfi en það hafði Björn svo við tókum höndum saman og gátum gert nokkrar þessara ferða að veruleika.  Reksturinn var kominn á gott skrið þegar covid skall á og nú er hann að taka við sér aftur,” segja þau en Lilja býður upp á borgarferðir með menningarlegu ívafi og Björn sér sem fyrr um golfferðir bæði til London með  hópa í styttri ferðir og stærri hópa til Spánar í lengri ferðir.

Fyrirtækið heima

Þau Björn og Lilja eru með hvort sitt herbergið heima þar sem þau vinna sína vinnu og funda svo í stofunni eða eldhúsinu þegar þarf að ræða saman. ,,Þetta gengur vel upp  og engin ástæða til að leggja í kostnað við húsnæði,” segja þau bjartsýn.

Fara í hópferðir með jafnaldra sína

Lilja og Björn hafa verið mikið í ferðum með jafnaldra sína enda er það fólk sem komið er á þann stað í lífinu að vilja verja tíma sínum og peningum í upplifanir. Ingibjörg Sverrisdóttir, sem nú er formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, var á sínum tíma starfandi  hjá ferðaskrifstofunni Úrvali og réði Lilju 1987 til að fara með skipshafnirnar á Arnari og Örvari frá Skagaströnd til Þýskalands og Austurríkis. Sú ferð var einstaklega vel heppnuð með frábærum hóp.  Þetta var fyrsta ferð Lilju sem fararstjóri og hún segist oft hafa hugsað fyrst hún komst í gegnum þá ferð myndi hún komast í gegnum flest.  Og hér er Lilja enn og með Björn með sér og eru þau að gera góða hluti á íslenskum ferðamarkaði. Á döfinni eru bæði borgar- og golfferðir. Lilja segir að nú séu flestir orðnir tölvufærir en mörgum þyki betra að geta rætt persónulega við þá sem þeir eru að kaupa ferðirnar af.  Þau leggja mikið uppúr góðri þjónustu og vönduðum ferðum, því þannig fá þau jákvæð viðbrögð, mikla gleði og þakklæti, sem er hvatning í starfinu.  Lilja og Björn sneru vörn í sókn þegar eftirlaunaaldri var náð og koma nú sterk inn.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn júlí 6, 2021 07:21