Fyrsta lyfið til að hægja á öldrun verður prófað á mönnum á næsta ári. Ef vel gengur gætu sjúkdómar eins og Alzheimer og Parkinson heyrt sögunni til. Vísindamenn telja það nú mögulegt að hægja svo mikið á öldrun að fólk geti búið við góða heilsu til 110 eða jafnvel 120 ára aldurs. Frá þessu er sagt í grein sem Sara Knapton ritar í The Telegaraph sjá hér. Lifðu núna, stytti og endursagði að hluta. Þó þetta hljómi eins og vísindaskáldskapur hafa rannsóknir nú þegar sýnt fram á að lyfið Metformin lengi líf dýra. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa nú leyft að tilraunir með lyfið í þessum tilgangi verði gerðar á mönnum. „Getan til að hægja á öldrun yrði mesta framför læknavísindanna á síðari tímum,“ segir Dr. Jay Olshansky við Illinoisháskóla í Chicago.
Jafn heilbrigðir og fimmtugir
Takist þetta gæti það þýtt að fólk á áttræðisaldri yrði líffræðilega jafn heilbrigt og fimmtugir. Ný grein læknisfræðinnar yrði til, öldrunarvísindi, en innan þeirrar greinar myndu læknar ekki fást við einstaka sjúkdóma eins og krabbamein, elliglöp og sykursýki heldur myndu þeir einbeita sér að því sem í raun er undirliggjandi, þ.e. öldruninni sjálfri. Skoski öldrunarsérfæðingurinn Gordon Lithgow hjá The Buck Institute for Research on Ageing í Kaliforníu er einn af stjórnendum rannsóknarinnar: „Ef þú einbeitir þér að öldrunarferlinu og ef þér tekst að hægja á því hægir þú jafnframt á öllum öldrunartengdum sjúkdómum sem og líffræðilegum einkennum öldrunar. Þegar ég hóf feril minn í öldrunarrannsóknum fyrir 25 árum hefði lyf sem hægir á öldrun verið óhugsandi. Nú má vel hugsa sér að það sé mögulegt. Í framtíðinni verða niðurstöður þeirra líffræðilegu rannsókna, sem nú fara fram, notaðar við lækningu manna. Fyrir tuttugu árum var framgangur öldrunar líffræðileg ráðgáta. Nú teljum við okkur skilja að hluta til hvernig ferlið er,“ segir Lithgow.
Eykur súrefnisupptöku
Gífurlega margar frumuskiptingar verða á líftíma okkar í þeim tilgangi að viðhalda réttri líkamstarfsemi og því oftar sem það gerist aukast möguleikar á ófullkominni endurnýjun. Af ófullkominni endurnýjun frumna leiðir svo minnkandi geta líkamans til að viðhalda sér. Í tilfelli krabbameina geta frumurnar ekki lengur ráðið við stökkbreytingar og æxli myndast. Þegar um Alzheimer sjúkdóm er að ræða er heilinn orðinn ófær um að ráða við æðakölkun sem getur orsakað vitglöp. Vísindamenn telja að líklegasta lyfið til að gera gagn sé Metformin sem er algengasta sykursýkislyf í heimi og kostar lítið. Metformin eykur súrefnisupptöku í frumum líkamans sem virðist styrkja þær og lengja líf. Þegar belgískir vísindamenn reyndu lyfið á smáorminn C.elegans voru afleiðingarnar þær að ormarnir lifðu lengur og voru hraustari en ella. Hreyfingar þeirra vor samt jafn hraðar og venjulega og hrukkumyndun var engin. Mýs meðhöndlaðar með sama lyfi lifðu 40% lengur og bein þeirra styrktust. Á síðasta ári leiddi rannskókn hjá háskólanum í Cardiff í ljós að sykursýkissjúklingar sem tóku Metaformin lifðu að jafnaði átta árum lengur en fólk sem var ekki með sjúkdóminn og þar af leiðandi ekki á lyfinu.
Að ráðast á öldrun
Áðurnefnd rannsókn sem á að hefjast á næsta ári kallast „Að ráðast á öldrun með Metformin“. Fjölmargar vísindastofnanir taka þátt í rannsókninni og nú leita starfsmenn þeirra að um 3000 þátttakendum sem verða á aldrinum 70 til 80 ára og eru með eða eru í hættu á að fá krabbamein, hjartasjúkdóma eða vitglöp. Vísindamennirnir vonast til að sýna fram á að lyfið hægi á öldrun og sjúkdómum. Fyrrnefndur Dr. Jay Olshansky sagði nýlega í sjónvarpsviðtali um rannsóknina nýju að: „Ef við getum hægt á öldrun í mönnum þó ekki sé nema að litlu leiti væri það stórkostlegt. Fólk gæti verið eldra en liðið eins og þeim yngri. Svo miklar framfarir hafa orðið í öldrunarvísindum að það er engin ástæða til að vera vantrúaður á að okkur takist að lengja líf manna eins og okkur hefur tekist að lengja líf dýra.“