Hvernig vil ég eldast?

Eldra fólki hér á landi á eftir að fjölga gríðarlega á næstu árum eins og fram hefur komið. Ólafur Þór Gunnarsson lyf- og öldrunarlæknir hélt erindi á ráðstefnu sem var haldin nýlega í Ráðhúsi Reykjavíkur um heilsueflingu eldri aldurshópa. Erindið hét, Hvernig er samfélagið að breytast- hvað er til ráða til að efla heilsu hinna eldri á næstu árum?

Ólafur Þ Gunnarsson

Hvað ætlum við að gera?

Ólafur benti á að á næstu þrjátíu árum myndi fjöldi sjötugra og eldri meira en tvöfaldast, frá því sem nú er. Fjöldi fólks 85 ára og eldri myndi næstum þrefaldast. Hjúkrunar- og dvalarrými á landinu  eru nú um 3000. Um það bil annar hver maður 85 ára og eldri getur gengið að vísu plássi á hjúkrunarheimili, verði þess þörf. „Hvað ætlum við að gera?“, spurði Ólafur Þór. „Þrefalda framlög til öldrunarþjónustu, viðhalda því viðmiði að annar hver maður 85 ára og eldri geti verið á hjúkrunarheimili?  Ef við ætlum að viðhalda núverandi ástandi, þyrfti að byggja 55 hjúkrunarheimili til að mæta þessari fjölgun aldraðra. Daggjöld miðað við um 8000 hjúkrunarrými sem þyrftu þá að vera fyrir hendi, næmu um 70 milljörðum króna á ári.

Vilja búa við öryggi heima

„Það er fáránleg framtíðarsýn að halda að við getum gert þetta, við verðum að nota einhverjar aðrar aðferðir“, sagði Ólafur Þór í samtali við Lifðu núna. „Það er líka ólíklegt að allur þessi fjöldi vilji vera á hjúkrunarheimilum. Menn vilja búa heima og fá þjónustu heim. Þó þú þurfir á aðstoð heilbrigðisstarfsmanns að halda einu sinni á dag í 10 mínútur, þá á það ekki að verða til þess að þú þurfir að fara inná hjúkrunarheimili“, segir hann. „Menn vilja búa heima sem lengst, en vilja samt sem áður búa við öryggi“.

Sólarhringsvakt við íbúðir eldra fólks

Ólafur Þór sér fyrir sér að öldrunarþjónustan muni breytast. Það verði meira um þjónustu, sem menn sem búa heima, geti kallað eftir þegar þeir þurfi hennar með. Hann bendir á að það mætti koma upp sólarhringsþjónustu í tengslum við íbúðir aldraðra sem er að finna á 10-20 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. „ Ef það yrði ákveðið á morgun að staðsetja sólarhringsvakt á öllum þessum stöðum, myndi það draga úr þörf fyrir að fólk verði að fara á hjúkrunarheimili.  Þetta snýst um aðgengi að þjónustu, menn þurfa oft ekkert meira en það“, segir hann og bætir við að þetta mál hafi  alltaf strandað á því, það sé þægilegt fyrir sveitarfélögin að segja, „Nei, þetta er ekki okkar verkefni“. Það sé voðalega þægilegt, þá þurfi fólk að fara á hjúkrunarheimili og  vandamálið flytjist til ríkisins

Lykilatriði að þjónustan flytjist öll til sveitarfélaganna

Ólafur Þór sér líka fyrir sér stóraukna endurhæfingu fyrir eldra fólk. En það veki athygli að endurhæfingaplássum fyrir þennan hóp hafi ekki fjölgað frá hruni þegar allt var skorið niður, þó 85 ára fólki og eldra hafi fjölgað um 40% síðan þá. „Við höfum ekki enn náð stöðunni eins og hún var árið 2008. Þörfin hefur aukist umtalsvert, en við erum ekki að grípa inní“, segir hann. Hann telur það lykilatriði að öldrunarþjónustan flytjist öll til sveitarfélaganna.

Endurhæfing dregur úr veikindum

Þá sé líka brýnt að hjálpa fólki til að halda heilsu sem lengst, þannig að sá tími styttist sem það þarf að vera á hjúkrunarheimili. Þar er meðaldvalartíminn nú 2.7 ár. „Ef hann styttist í 2 ár, þá fjölgar plássunum sem eru í notkun á hverju ári um 20%.  Ef þú getur gert eitthvað til að stöðva straum fólks inní dýrustu úrræðin, munar mjög fljótt um það“, segir Ólafur. „Við viljum væntanlega að sá tími sem við erum hvað veikust og þurfum á mikilli þjónustu að halda sé stuttur, en að fram að því séum við tiltölulega hraust“. Hann segir að þannig sé hægt að nýta plássin betur og tryggja að úrræði séu í boð fyrir veikasta fólkið. „Ef það er settur peningur í að endurhæfa fólk og skipta um mjaðmir í fólki áður en það er hætt að geta hreyft sig, þá er hægt að fresta hrumleikatímabilinu og það verður ódýrara þegar upp er staðið“.

Þurfum að hugsa fram í tímann

Annað sem er mikilvægt til að lengja þann tíma sem hver og einn lifir við góða heilsu, er hreyfing. Ólafur Þór segir mikilvægt að koma fólki í skilning um að það þurfi að hreyfa sig og lifa heilsusamlegra lífi. „Við erum of lítið í því að hugsa fram í tímann. Sá sem er 65 ára í dag upplifir sig ekki sem gamlan, en hann verður samt að hugsa um að það komi að þeim tímapunkti og spyrja sig. Hvernig vil ég verða gamall? Vil ég vera fær um að bjarga mér, eða á ég bara að slaka á og láta mér í léttu rúmi liggja þó ég missi færni og geti ekki gert það sem mig langar til? Við þurfum að fá fólk til að upplifa  að það sé að einhverju leyti í þeirra höndum, hvernig því farnast. Bara að hreyfa sig í 30 mínútur á dag, getur breytt öllu fyrir heilsuna.

 

Ritstjórn apríl 11, 2017 14:00