1000 dóu áður en þeir komust inn á hjúkrunarheimili

„Þó að margt sé vel gert í öldrunarþjónustu þá er víða pottur brotinn. Eldra fólk glímir við fjölmarga sjúkdóma og þarf margvísleg úrræði. Það er ekki nóg að fjölga hjúkrunarheimilum og efla heimaþjónustu, það þarf að samhæfa þjónustuna betur,“ segir Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum og prófessor við læknadeild HÍ, í viðtali við Morgunblaðið í dag. Pálmi hefur undanfarnar vikur skrifað nokkar greinar um öldrunarmál í Morgunblaðið. Í blaðinu í gær kom fram að á árunum 2014 til 2018 hefðu um 700 aldraðir einstaklingar sem komnir voru með færni- og heilsumat látist áður en þeir komust inn á hjúkrunarheimili.

Pálmi segir í Morgunblaðinu að miðað við þessar upplýsingar hafi um 1.000 manns látist frá árinu 2011 sem komnir voru með færni- og heilsumat, eða síðan líknardeildinni á Landakoti var lokað. Líknardeildin þjónaði fólki með mjög skerta lifun en um 100 aldraðir einstaklingar fengu þar þjónustu árlega. Meðallifun var um einn mánuður. „Þegar líknardeildinni á Landakoti var lokað var talað um mótvægisaðgerðir, bæði að fjölgað yrði rýmum á líknardeild í Kópavogi og leitað eftir öðrum leiðum. Tilfellið er að þetta hefur ekki gengið eftir og fjölgun rýma í Kópavogi verið óveruleg ef einhver,“ segir Pálmi og telur að fjölga þurfi líknarrýmum aldraðra.

Hann segir líknarþjónustuna mikilvæga; hún taki ekki aðeins á einkennum einstaklingsins heldur taki einnig á móti fjölskyldunni allri. Þannig sé þjónusta líknardeildarinnar í Kópavogi en þar sé ekki verið að stækka það úrræði.

„Því tel ég eðlilegt að útbúa aðra líknareiningu. Sú eining gæti til dæmis verið á jarðhæðinni á Vífilsstöðum, nú eða á nýja hjúkrunarheimilinu á Seltjarnarnesi. Það væri þá sérhæfð eining sem tæki á móti fólki með mjög skertar ævilíkur. Slík rými þyrftu að vera að lágmarki 10 en líklega væri betra að þau væru 15 miðað við fyrirliggjandi tölur. Þjónustumódelið og mönnun og fjármögnun þyrfti að taka mið af líknardeildinni í Kópavogi svo að slík eining stæði undir nafni. Þetta er til þess að gera lítil hárbeitt aðgerð sem myndi skila mörgum verulega auknum lífsgæðum á síðustu dögum lífsins. Að mínu mati ætti heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir þessari lausn nú þegar,“ segir Pálmi. Hann segir að núna sé litið framhjá skammtímalífshorfum fólks og sótt um færni- og heilsumat fyrir þá sem séu nærri andláti eins og hvern annan sem lokið hafi sérhæfðri dvöl á legudeild Landspítala. Vissulega þurfi fólk nærri andláti góða umönnun og því ekki forsendur fyrir matsnefnd að hafna ósk um færni- og heilsumat,“ segir Pálmi í viðtali við Morgunblaðið.

Ritstjórn janúar 16, 2019 10:40