Hildur Finnsdóttir skrifar
Ég hlýt að vera forspá. Hver gæti annars verið skýringin á því að ég fúlsaði við dásamlegu húsnæði á sanngjörnu verði og með bæjarins besta útsýni?
Þannig var að við hjónin höfðum verið á talsverðum þvælingi um veröldina í nokkur ár en nú var komið að því að festa kaup á íbúð í Reykjavík. Þetta var upp úr aldamótunum síðustu og við vorum í þeirri fáránlegu stöðu að maðurinn minn keyrði hátt í þrjú hundruð kílómetra á dag til að komast í og úr sínu draumadjobbi í Reykjavík á meðan ég rölti líklega sextíu + sextíu metra í og úr mínu. Og til að flækja málin enn frekar fylgdi mínu stærðarinnar einbýlishús – að ógleymdum bílskúrnum.
En svona gat þetta ekki gengið endalaust; maðurinn var við það að keyra sig út og bílgreyið líka. Þá bauðst mér starf í borginni og ákvað, með sorg í hjarta, að yfirgefa mína sælu sveit. En ekki fyrir hvað sem var! Við skyldum sko finna okkar Paradís í Reykjavík. Gallinn var bara sá að það var meira en að segja það á laugardegi eða sunnudegi – þegar blessaður maðurinn var búinn að bruna hátt í tvö þúsund kílómetra yfir vikuna – að nú vildi frúin endilega skreppa í bíltúr til borgarinnar að skoða íbúðir.
Til að byrja með var þetta vandamál „leyst“ þannig að útkeyrði maðurinn kíkti í Moggann áður en hann fór úr vinnunni og ef hann sá eitthvað sem honum leist á, kom hann við á leiðinni í sveitina. Þetta var auðvitað gjörsamlega vonlaust dæmi; þeir vita sem vilja að giftir menn hafa ekki hundsvit á húsnæði – hvað þá staðsetningu og hinu afar mikilvæga útsýni.
Jújú, það kom fyrir að við skruppum í bæinn að skoða eitthvað sem leit ljómandi vel út í Mogganum en aldrei var frúin ánægð. Ég man eftir afar snyrtilegri blokkaríbúð í um það bil sextíu metra fjarlægð frá vinnustaðnum hans og í blaðinu stóð að það væri meira að segja útsýni til Esjunnar. Ég man líka að ég stóð við nettan barnaherbergisglugga í þessari ágætu íbúð og starði með hryllingi á örlitla sneið af nefndu fjalli milli tveggja skelfilega nálægra blokkargafla en aðallega þó á fjölda bíla skjótast til og frá á bílastæði Kringlunnar. Var ekki í lagi með þetta lið? Hvernig vogaði það sér að lokka saklausa manneskju út úr sínum fagra fjallasal til að dást að upphengdu klósetti í úthverfi borgarinnar? Ja, það gat náttúrlega ekki vitað að til þess að upplifa eitt stykki Heklugos hafði ég ekki þurft annað en að henda frá mér viskuppstykkinu (eins og sonarsonur minn kallar það) og klofa upp á nærliggjandi hól. Náði meira að segja að berja upp á hjá þremur góðum manneskjum á leiðinni og æpa: Hann Broddi segir að Hekla muni gjósa eftir fjórtán mínútur! Ekki ein einasta þeirra spurði Hvaða Broddi? Slíkur var máttur Útvarpsins – og er vonandi enn.
Núnú, svona gekk þetta fyrir sig í nokkra mánuði en svo kom minn heim eitt kvöldið með sigurbros á vör – búinn að finna draumaíbúðina mína. Hún var á fullkomnum stað, mátulega stór (eða réttar sagt lítil) og útsýnið svo stórkostlegt að maður varð bara að sjá það með eigin augum. Það var þó hængur á; verðið var ansans ári miklu hærra en það þak sem við höfðum sett okkur gallhörð í byrjun. Mér lá við gráti en lét ekki undan lönguninni til að kíkja á herlegheitin – prinsipp er nú einu sinni prinsipp. Og svo rann tíminn auðvitað út. Heppnin var þó heldur betur með okkur því að góð vinkona þurfti að selja sína Paradís.
Það varð úr – af því að hún var álíka langt fyrir ofan prinsippþakið – að við leigðum hæð og dásamlegt ris á Lindargötunni með Akrafjall, Skarðsheiði og Esjuna í kaupbæti. Leigan var sanngjörn og við tókum fallega á móti öllum sem komu til að skoða. Af hverju keyptum við ekki bara? Ja, það er nú það. Frúin hafði það einfaldlega á tilfinningunni að einn góðan veðurdag myndu fjöllin og Sundin blá hverfa okkur sjónum.
Til að gera langa sögu örlítið styttri skal ég reyna að fara hratt yfir hana: Ung hjón keyptu loks íbúðina og bjuggu þar alveg þangað til þau sáu ekki lengur til sólar fremur en flestir aðrir Lindargötubúar. Við hjónin leigðum hins vegar pínulitla kjallaraíbúð efst á Skólavörðustíg. Það hlýtur að vera ævintýri líkast að búa þar núna með milljón túrista skundandi fyrir eldhús- og stofugluggann. Þaðan fluttum við í skondinn skúr sem byggður hafði verið ofan á þakið á flottu húsi við Sóleyjargötuna. Töldum flugvélar sem lentu og tóku á loft á hinum umdeilda Reykjavíkurflugvelli. Ómetanleg lífsreynsla!
Svo bara gerðist undrið. Ég sat í himnaskúrnum og skannaði fasteignaauglýsingarnar í Mogganum sem sat þá enn einn að þeim. Og þarna var hún, draumaíbúðin sem minn góði maður hafði lýst svo fagurlega fyrir mér heilu ári áður. Og verðið var nákvæmlega það sama. Nú var að hrökkva eða stökkva. Hringdum í snarhasti í fasteignasalann sem arranseraði skyndiskoðun og fundi með okkur og eigandanum sem ég upplýsti blíðlega um að við vildum ólm eiga við hann viðskipti ef hann snarlækkaði verðið. Hann varð svo hissa að hann sagði bara já. Mörgum fannst við hæfi að þrjóskuhundarnir flyttu inn í gamla Hamarshúsið við hina forkostulegu Tryggvagötu einmitt fyrsta apríl.
Og hér lifum við núna!