Fimm pyttir til að varast þegar við förum á eftirlaun

Margir sjá eftirlaunaaldurinn í hillingum. Þeir sjá sig í anda ganga um sólarstrendur, þeysast um golfvelli innanlands og utan eða úti að borða á skemmtilegum veitingastöðum. Það er rétt að stundum upplifa menn það, að geta á eftirlaunaaldrinum lifað lífinu eins og þá hefur alltaf dreymt um. Brugðið sér í ferðalög og aðstoðað við uppeldi barnabarnanna.  Tom Sightings er bandarískur rithöfundur og greinahöfundur sem hefur skrifað sitt hvað um eftirlaunaaldurinn, meðal annars í blaðið US News.  Í nýlegri grein þar veltir hann því fyrir sér, hvað helst geti farið úrskeiðis hjá fólki þegar það kemst á eftirlaunaaldur.„Líklega ekkert“ segir hann, „ef menn vara sig á að detta ekki í eftirfarandi pytti, kynna sér málin vel og horfast óhræddir í augu við framtíðina“.

Og hérna koma pyttirnir fimm  sem hann vill að menn vari sig á.

Að gleyma að huga að heilsunni.  Fólk sem hefur unnið hörðum höndum og kemst að lokum á eftirlaun, vill helst lifa lengi við góða heilsu þannig að það geti notið lífsins áfram. Góðu fréttirnar eru þær að þá hefur fólk einmitt betri tíma til að útbúa hollari máltíðir, hreyfa sig og leyfa sér ýmislegt sem ekki vannst tími til áður, svo sem eins og að fara í jóga, golf og dans. Menn geta líka sofið eins lengi og þá lystir. Tom ráðleggur mönnum að vera óhræddir við að leita lækna.  Kostnaðurinn og óþægindin sem fylgi því að fara í ristilspeglun, brjóstamyndatöku eða aðrar læknisrannsóknir geti skilað sér margfalt í færri heilsufarsvandamálum síðar meir. Þannig að menn eigi ekki að vera svo uppteknir af eftirlaunaaldrinum, að þeir gleymi að hugsa um heilsuna.

Að horfast ekki í augu við fjárhagslega stöðu sína.   Margir hafi þokkaleg eftirlaun og hafi jafnvel líka komið sér upp séreignasparnaði til að gera sér lífið auðveldara á efri árum. En það þýði ekki að menn geti bara sett tærnar upp í loft og hætt að hugsa.  Eftirlaunin geti verið ágætis grunnur fyrir efri árin, en þau séu eins og annað háð efnahagskerfinu í samfélaginu þar sem við búum.  „Jafnvel þó þú fáir eftirlaun, er skynsamlegt að hafa eitthvað annað uppá að hlaupa“, segir Tom.  Og hafi menn ekki annað en eftirlaunin frá því opinbera og eigin sparnað, sé ástæða til að fylgjast vel með fjármálunum, bæði tekjunum og útgjöldunum.  Menn eigi líka að hugsa sig vel um áður en þeir ákveði að fara snemma á eftirlaun.  Þannig séu menn nefnilega að afsala sér nokkurra ára tekjum, en taka á sig nokkurra ára útgjöld í staðinn. Það sé til fólk sem geti leyft sér þetta, en menn verði að gera sér grein fyrir að það sé dýrt.

Að gleyma draumum sínum.  Sumir líta á eftirlaunaaldurinn sem verðlaun fyrir að hafa unnið hörðum höndum allt sitt líf. Þeir hafa mestan áhuga á að slappa af, lesa blöðin, vera í tölvunni og bregða sér kannski í einn og einn hring á golfvellinum. „Það er í góðu lagi. Þú átt það skilið“, segir Tom.  Hann bendir hins vegar á að mörgum eftirlaunamanninum geti farið að leiðast þetta makinda líf eftir nokkra mánuði. Þá séu þeir tilbúnir til að gera eitthvað nýtt. Suma langi til að láta gamla drauma rætast, en séu hræddir um að þeir séu orðnir of gamlir til þess. Hvernig sem staðan sé, eigi menn að huga að nýjum viðfangsefnum. Það geti verið sjálfboðastarf að ákveðnum málefnum sem menn trúi á, aðstoð við að ala upp barnabörnin, hlutastarf einhvers staðar, eða jafnvel að koma sér upp eigin rekstri.  „Það er aldrei of seint“, segir Tom.

Að gleyma að bera virðingu fyrir maka sínum.  Þegar fólk fer á eftirlaun hefur það í för með sér breytingar á hjónabandinu eða sambandinu sem menn eru í.  Fólk fer að eyða miklu meiri tíma saman. Við höfum öll okkar venjur og sérvisku sem veita okkur vellíðan og hamingju, en geta pirrað makann. Við verðum að sýna hvort öðru tillitssemi og finna jafnvægi milli þess tíma sem við verjum saman og þess tíma sem hvort okkar um sig vill hafa út af fyrir sig. Það er líka mikilvægt þegar fólk tekur ákvarðanir, til dæmis um húsnæðismál, sumarleyfi og annað, að báðum aðilum finnist að tekið sé tillit til þeirra áhugamála og skoðana á hlutunum. Það er alltaf mikilvægt fyrir alla í samböndum að tala opinskátt um hlutina og það verður enn mikilvægara þegar fólk er farið að vera saman alla daga.

Að neita að horfast í augu við veruleikann.  Sumir vilja aldrei fara á eftirlaun og halda dauðahaldi í starfið sitt, alveg þangað til ráðin eru tekin af þeim og þeir látnir hætta. Það er hægt að vera of lengi í vinnunni og það er full ástæða til að athuga hvort ekki er líf utan vinnunnar sem er þess virði að kanna betur. Það er ekki skynsamlegt að bíða með að hætta að vinna, þar til menn eru búnir með alla orku og búnir að missa áhugann á lífinu. Það skilar heldur engu að stinga höfðinu í sandinn og neita að horfast í augu við lífið.  Þannig að hvort sem menn eru 55 ára eða 75 ára, þurfa þeir að reyna að skyggnast inn í framtíðina og gera áætlanir um næsta kafla lífsins. Þannig er hægt að gera lífið spennandi og halda áfram að lifa því með reisn.

 

Ritstjórn júní 13, 2016 10:40