Tekjur eldra fólks

77% þeirra sem komnir eru á eftirlaunaaldur voru með  ráðstöfunartekjur undir 300 þúsund krónum í lok síðasta árs, ef marka má könnun á högum aldraðra sem Félagsvísindadeild Háskóla Íslands gerði fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara. Þrátt fyrir ítarlega leit, tókst blaðamanni ekki að finna tölur um ráðstöfunartekjur annarra hópa í lok síðasta árs. Nýlega var greint frá því að meðallaunin hjá VR væru 630 þúsund krónur á mánuði, en það eru heildartekjur fyrir skatt, ekki ráðstöfunartekjur.

Um áramótin breyttust hins vegar tekjur margra, þegar ný almannatryggingalög voru samþykkt. Margir í hópnum hækkuðu nokkuð í launum, en aðrir lækkuðu. Engu að síður er fróðlegt að rýna í það sem fram kemur í könnuninni. Rástöfunartekjur kvenna voru til að mynda 24% lægri en ráðstöfunartekjur karla. Meðalráðstöfunartekjur á heimilum þeirra sem eru 67 ára og eldri voru 404 þúsund krónur á mánuði, en lækkuðu eftir því sem fólk varð eldra, sem skýrist væntanlega meðal annars af því að þeir búa í meira mæli einir, að því er segir  í könnuninni.  79% aðspurðra taldi sig þurfa tekjur á bilinu 200 – 400 þúsun krónur á mánuði. Þá kom í ljós að fjölgaði hafði í hópnum sem hefur áhyggjur af fjárhagnum. 31% þeirra sem svöruðu, sögðust stundum eða oft hafa fjárhagsáhyggjur, en tíu árum áður eða árið 2006 voru það 22% sem höfðu slíkar áhyggjur. Einungis lítill hópur aldraðra hafði einhvern tíma á síðustu fimm árum frestað því af fjárhagsástæðum að fara til læknis og/eða kaupa lyf. Það voru 5% sem höfðu frestað því að fara til læknis af þessum sökum, en 6% höfðu frestað lyfjakaupum.

Ritstjórn júlí 12, 2017 12:12