Getur 67 ára gömul kona lært á kaffivél?

Jónína er 67 ára gömul kona, afskaplega vel á sig komin og var að leita sér að vinnu.  Hún sótti um á kaffihúsi, en það kom í ljós að auglýst var eftir kaffiþjóni, sem átti að laga kaffi á stóra vél sem þarna var. Ungur maður sem sá um að ráða horfði á konuna og sagði að þetta væri orðið svo tæknivætt. Hún fékk ekki starfið.  

Sigrún er 70 ára og sótti um að verða gangavörður í skóla. Hún hefur fjölþætta reynslu og kennslu á ýmsum skólastigum og fannst að þetta gæti verið áhugavert.  Skólastjórinn var mjög áhugasamur um þá þekkingu og reynslu sem hún bjó yfir, en þegar í ljós kom að hún var sjötug var ráðning úr sögunni.  Enda ráða opinberar stofnanir ekki fólk í vinnu sem er sjötugt.

Birna sem er 65 ára sótti um vinnu í Bláa lóninu við að taka á móti þeim sem eru að leita sér lækninga þar. Það er fólk með psoriasis, meðal annars frá Norðurlöndunum sem þangað kemur og Birna taldi það kost að hafa búið í Danmörku og að geta talað dönsku reiprennandi.  Hún er líka létt á fæti, gengur á fjöll og taldi sig ráða vel við starfið.  En – hún var næst inn.

Komnar yfir miðjan aldur og fá ekki vinnu

„Ég hef kennt Lífsvefinn – sjálfsþekkingarnámskeið fyrir konur fyrir Vinnumálastofnun síðustu áratugi, og frá hruni hafa nokkur hundruð konur í atvinnuleit sótt það námskeið“, segir Valgerður H. Bjarnadóttir félagsráðgjafi.  „Æ stærri hluti þeirra er konur yfir 55 ára.  Konur með langskólamentun sem búa yfir mikilli þekkingu og lífsreynslu. Sumar hafa búið erlendis og þekkja fleiri samfélög.  En sú einfalda staðreynd að þær eru komnar yfir miðjan aldur kemur í veg fyrir að þær fái vinnu“.  Hún segist hafa kynnst þessum konum og það eigi auðvitað við um einhverjar þeirra, eins og annað fólk, að þær séu með erfiðleika í farteskinu sem þær hafi ekki unnið úr, og geti hugsanlega verið hindrun í atvinnuleit.

Tugir kvenna hafa sömu sögu að segja

„En  langflestar eru þær glæsilegar, vel gefnar, vel menntaðar, flinkar í samskiptum og skemmtilegar. Margar hafa sótt um tugi starfa, ég man eftir einni, rúmlega fimmtugri sem var búin að sækja um tæplega 150 störf á víðu sviði, án árangurs“, segir Valgerður. „ Falleg kona yst sem innst, með háskólamenntun og mikla reynslu.  Fyrst getur maður dottið í þann pytt að hugsa: „Það er eitthvað að…“, en þegar nánar er að gáð og tugir hæfileikaríkra kvenna hafa sömu sögu að segja, er ljóst að þetta eru ekki þær, það er eitthvað annað sem veldur“ segir hún.

Samfélag sem afneitar einum aldurshópi dauðadæmt

Hún  segir að samfélag sem afneiti einum aldurshópi, sama hvort það er æskan eða ellin sé dauðadæmt. Unga fólkið lærir af þeim eldri og kemur jafnframt með nýja nálgun inní samfélagið. Það verður að vera samtal og samstarf milli kynslóða á vinnumarkaði.  Nú er öll þessi umræða um endurnýtingu hluta, sem er mikilvæg, en á sama tíma er verið að „henda“ fólki, þekkingu og reynslu“, segir hún.

 

 

Ritstjórn apríl 18, 2016 14:24