Langtímaatvinnuleysi kvenna yfir miðjum aldri – hverju er um að kenna?

Það er erfiðara fyrir konur sem eru komnar yfir miðjan aldur að fá vinnu aftur ef þær missa starfið, en fyrir karla á sama aldri. Fjallað var um þetta í Fréttablaðinu í gær. Þar sagði:

Nú eru rúmlega 500 konur fimmtugar eða eldri skilgreindar langtímaatvinnulausar, þar af hafa rúmlega 330 verið á atvinnuleysisskrá í meira en ár. Karlarnir eru talsvert færri, nú eru um 400 karlar eldri en fimmtugt skráðir langtímaatvinnulausir“.

Rannsóknir um ástæður fyrir þessu liggja ekki fyrir hér á landi en í vor var sagt frá meistararitgerð Hugrúnar Lindu Guðmundsdóttur í félagsráðgjöf, þar sem fram kom að atvinnurekendur vildu síður eldra fólk í vinnu. Hún hafði rætt við karla og konur á þessum aldri sem misstu vinnuna í hruninu og áttu erfitt með að fá starf aftur. Tölur Vinnumálastofnunar sýna að þeir sem eldri eru, eiga almennt erfiðara með að fá vinnu á ný, missi þeir vinnuna.

Áhyggjur af að mönnum sé mismunað eftir aldri

Meirihluti starfsmanna yfir 45 ára telur að fólki sé mismunað eftir aldri á vinnustöðum, samkvæmt könnun sem Bandarísku eftirlaunasamtökin létu gera árið 2012, en þar í landi hefur einnig verið umræða um, að eldra fólk sem missti vinnuna eftir að kreppan hófst, eigi erfitt með að fá vinnu aftur. Á heimasíðu samtakanna segir jafnframt frá nokkrum málum sem eru nú rekin fyrir dómstólum, þar sem menn telja að sér hafi verið mismunað eftir aldri, en það er bannað samkvæmt bandarískum lögum.

Átta prósent sögðust hafa misst vinnu vegna aldurs

Bandaríska könnunin sem náði til um 1500 manna úrtaks á aldrinum 45-74 ára sýnir að um tveir þriðju starsmanna eða 64% telja sig ýmist hafa orðið vara við eða hafa orðið fyrir mismunun vegna aldurs á sínum vinnustað. Yfir 90% þess hóps telur að mismunun vegna aldurs á vinnustað sé nokkuð algeng. Flestir voru þeirrar skoðunar að mismununin byrjaði eftir fimmtugt.   19% þeirra sem tóku þátt í könnuninni töldu sig ekki hafa fengið starf sem sótt var um vegna aldurs, 12% sögðust ekki hafa fengið stöðuhækkun eða tækifæri til starfsþróunar vegna aldurs og 8% sögðust hafa misst vinnuna vegna aldurs. Þrátt fyrir þetta sögðu eldri starfsmenn á vinnustöðum að þeir hefðu ekki orðið varir við að yfirmaður þeirra beitti þá mismunun vegna aldurs.

Einnig kom fram í könnuninni að menn óttuðust að ef þeir misstu vinnuna gæti það tekið langan tíma fyrir þá að fá nýtt starf komnir á þennan aldur.

Skiptir starfsreynsla kvenna ekki máli?

Sú staðreynd að konur sem eru komnar yfir fimmtugt séu stærsti hópurinn hér á landi sem glímir við langtímaatvinnuleysi hefur ekki vakið sérstaka athygli eins og bent er á í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri vakti fyrr á árinu máls á því að upplifun eldri kvenna væri sú að þær væru allt að því útskúfaðar úr samfélaginu. Að þær væru nánast ósýnilegar, ómarktækar og dæmdar úr leik. Sú yfirlýsing skilaði stuttu viðtali í útvarpi en síðan ekki söguna meir. Umræðan var ekki tekin upp af kvennabaráttuhópum eða fjölmiðlum og rann hægt og hljóðalaust út í sandinn. Áhuginn fyrir að skoða hvort þetta væri rétt hjá Þórhildi reyndist sáralítill sem, eins kaldhæðnislegt og það nú er, renndi enn frekari stoðum undir þessa fullyrðingu hennar. Í raun var samfélagið að segja að það þyrfti ekkert að hlusta á kellingar sem komnar væru úr barneign og þar með hættar að funkera sem kynverur“.

 

 

 

Ritstjórn júlí 22, 2014 17:34